Ísland gerir út ,,lobbíista" en finnur ekki orðið ,,nei" í orðabók.

réttindaskráÍ lýðræðisríkjum er gengið út frá því að ríkisvald stafi frá þjóðinni. Lýðræðið hvílir á stjórnarskrárvörðum rétti manna til sjálfsákvörðunar, þ.e. að við séum fær um - og að okkur sé treystandi til - að mynda okkur skoðun og taka sjálfstæðar ákvarðanir. 

Á þessum grunni var (eðlilega) spurt árið 1992 hvort EES samningurinn fæli í sér of mikið framsal á ríkisvaldi, þannig að framangreindu samhengi teldist raskað. Alþingi lögleiddi samninginn á skýrri grundvallarforsendu: Ísland gæti ekki farið inni í EES nema við hefðum neitunarvald um hvaða tilskipanir við tækjum inn í íslenskan rétt.

Til að verja hinn lýðræðislega grundvöll settu Íslendingar fyrirvara í EES samninginn um að við gætum hafnað löggjöf og reglum sem passa okkur ekki eða samræmast ekki íslenskum þjóðarhagsmunum. Þetta var meginforsenda.

Þessi frétt undirstrikar hversu illa er fyrir okkur komið. Íslenska ríkið kýs að laga sig að ólýðræðislegum leikreglum í Brussel til að komast hjá því að þurfa að beita samningsbundnu neitunarvaldi. Er skilningur ráðamanna (og borgaranna) orðinn svo útvatnaður að við hirðum ekki lengur um þau gildi sem lýðveldið var reist á? Til grundvallar stofnun sjálfstæðs lýðveldis lá hugsjónin um að við sem þjóð skyldum stjórna okkur sjálf, ráða okkar eigin örlögum, setja okkar eigin lög: Enginn ólýðræðislegur valdhafi, engir ósýnilegir skriffinnar skyldu ráða örlögum íslenskrar þjóðar.

Vilja Íslendingar ekki ennþá vera frjálsir og sjálfstæðir? Viljum við ekki ráða okkur sjálf? Viljum við ekki nýta þau tækifæri sem í því felast? Til að það sé hægt þurfum við að geta tjáð hugsanir okkar - og þora að tjá okkur. Nú hafa 30 ár liðið án þess að Ísland hafi beitt neitunarvaldinu. 

Ef við viljum vera frjáls og sjálfstæð þjóð þurfum við að taka ábyrgð á þeim réttindum sem því fylgja. Það verður ekki gert nema með því virkri þátttöku borgaranna og með því að embættismenn ríkisins sinni hagsmunagæslu á réttum grunni. Höfum við ekki áhuga á að verja frelsið? Nennum við ekki að axla ábyrgð á þeim skyldum sem því fylgja? Ef við veljum afskiptaleysi og skeytingarleysi er fórnarkostnaðurinn sá að við munum horfa á lýðveldið veikjast og deyja. Heilsa og líf þessarar lýðræðistilraunar, sem íslenska lýðveldið er, stendur og fellur með afstöðu okkar - og þeirra sem valist hafa til ábyrgðarstarfa í okkar þágu.  

Það er sterk undiralda í stjórnmálunum, sem ekki er lýðræðisleg og virðir ekki sjálfsákvörðunarrétt manna og þjóða. Ef Íslendingar opna ekki augun fyrir þessari undiröldu verða þeir að treysta því að þeim sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana. Er það betra en að búa við stjórn kjörinna fulltrúa sem bera ábyrgð og hollustuskyldu gagnvart þingi og þjóð? 


mbl.is Róa öllum árum að því að Ísland losni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband