EES leikmyndin er að hrynja

Í viðtali við Morgunblaðið í dag lýsir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor veikri stöðu Íslands innan EES. Sú staða er í stuttu máli óviðunandi í lagalegu og lýðræðislegu tilliti. Til að bæta gráu ofan á svart er nú komið fram nýtt frumvarp utanríkisráðherra sem felur í sér að EES reglur skuli hafa forgang fram yfir lög frá Alþingi. Stefán Már varar við þessu og segir að með þessu væri vegið að réttaröryggi borgaranna. ,,Borgararnir eiga að geta treyst því sem fram kemur í íslenskum lögum". 

EES í núverandi mynd stenst ekki lengur stjórnarskrá

Allir sem þekkja sögu EES samningsins vita að hann var með naumindum talinn standast stjórnarskrá Íslands árið 1993. Síðan þá hefur samningsaðili okkar umbreyst úr ríkjasambandi í vísi að sambandsríki, auk þess sem alls konar svið hafa verið felld undir samninginn sem aldrei voru til umræðu 1993. 

Smám saman hefur framkvæmd EES þrengt sífellt meir að fullveldisrétti Íslands. Nú er svo komið að öllum má vera ljóst að fyrirkomulagið gengur í berhögg við stjórnarskrána.

Hollustuvilla? 

Í meðvirkni eða hugsunarleysi hafa stjórnmálamenn og embættismenn gengið í þjónustu ESB þannig að jafnvel mætti halda að þau telji sig hafa ríkari hollustuskyldu við ESB en íbúa Íslands. Þetta er óverjandi.

Á skólalóðinni hefur veiklundað fólk tilhneigingu til að sýna yfirgangsseggjum undirgefni og hlýðni. Það er skiljanlegt að fólk vilji, í sjálfsbjargarskyni, reyna að laga sig að siðum og hugsunarhætti þeirra sem öllu vilja ráða. En sá sem þorir ekki að verja eigin hagsmuni, þorir ekki að standa með öðrum þegar að þeim er vegið og leggur alla áherslu á að bjarga eigin skinni, hvað sem það kostar, stendur eftir með laskaða sjálfsmynd, flekkaða samvisku og skerta sjálfsvirðingu.

Með hugleysi og aumingjaskap getum við komist hjá því að verða sjálf fyrir beinum yfirgangi og ofríki, en þegar allur hópurinn, allt samfélagið, allt löggjafarþingið, sameinast í taugaveiklaðri meðvirkni hefur þögnin alvarlegar afleiðingar. Þær afleiðingar eru þegar komnar fram og birtast daglega í stjórnmálaumræðu sem stöðugt verður vanþroskaðri og yfirborðslegri. 

Stjórnmál eru alvarlegt viðfangsefni, ekki leikrit

Leikmynd EES, sem sett var upp árið 1993, er að hrynja, en íslenskir stjórnmálamenn spranga enn um á sviðinu og leika hlutverk fólks sem einhverju ræður. Úr fjarlægð sér almenningur stöðugt betur hversu ótrúverðugir leikararnir eru. Þegar leikmyndin hrynur verða leikararnir að láta grímurnar falla, sleppa handritinu og takast á við raunveruleikann. Kjánahrollurinn verður gagnkvæmur og óþægilegur. Áhorfendur munu margir vilja ganga út og fá endurgreitt. Leikarar gætu þurft áfallahjálp og nýtt starf í framhaldinu.  


mbl.is Algjörlega breyttar forsendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband