Róm þá, Ísland nú?

Tvær meginskýringar á falli Rómaveldis eru taldar þessar: 1. Stöðugur stríðsrekstur á ytri landamærum. 2. Of margir voru komnir á ríkisjötuna. 

Margt hefur vissulega breyst síðan í fornöld, en lögmál tilverunnar eru óbreytt. Ef enn má leggja til grundvallar að höfuð fisksins úldni fyrst, þá gefa fyrstu verk nýrra ráðherra ekki sérlega góð fyrirheit. 1. Nýr utanríkisráðherra settist upp í flugvél og flaug alla leið til Úkraínu til að lýsa stuðningi við áframhaldandi stríðsrekstur með tilheyrandi fjárframlögum úr tómum ríkissjóði. 2. Nýr samgönguráðherra skráir lögheimili sitt á eyðibýli úti á landi og hækkar þar með mánaðarlaun sín um tæplega 200 þúsund. Þetta sama fólk talaði fjálglega um aðhald í ríkisrekstri fyrir kosningar, en hér sem oftar fara orð og athafnir ekki saman. 

En íslenskir kjósendur láta allt yfir sig ganga, því þeir vilja trúa því að íslenskir ráðamenn séu velviljaðir og að stjórnarfarið á Íslandi sé tiltölulega óspillt. Ef lesendur hafa efasemdir um þessa afstöðu Íslendinga má rifja hér upp að brátt verða liðin 5 ár frá því þjóðin var tekin á taugum og í framhaldi smalað í stórum hjörðum inn í íþróttahús til að þiggja fleiri en eina - og fleiri en tvær og þrjár - sprautur af lyfi sem lyfjaframleiðendur tóku enga ábyrgð á, en bannað var að efast um. Umræðuhöftin slógu ekki á trúgirni landsmanna. Og enn í dag vilja fæstir Íslendingar efast um réttmæti aðgerðanna sem stjórnvöld réðust í til að vinna bug á "veirunni skæðu" með plastskilrúmum (!), grímuskyldu (þegar fólk stóð upprétt!) og gagnslausum lyfjum. 

Einhvern daginn munu Íslendingar fara að skoða samhengi hlutanna betur. Þá gæti komið í ljós að þótt íslenskir ráðamenn séu ekki þeir spilltustu í heimi og vilji landsmönnum allt hið besta (meðan stjórnvöld fá að senda greiðslur inn á eigin reikninga og til vopnaframleiðenda) þá séu þeir undir áhrifavaldi erlendra kollega sinna og láti um of stýrast af hugsunarlausri þjónkun við þá sem mestu ráða úti í heimi. Hér heima heldur fiskurinn (ríkið) áfram að úldna með því að embættismenn hlýða líka í hugsunarleysi, sem og almenningur. Guð blessi Ísland.


Lítum ekki undan. Horfumst í augu við staðreyndir.

Orð megna ekki að lýsa hryllingnum sem yfirvöld í Bretlandi hafa leyft að viðgangast þar í landi árum saman. Vegna hugleysis lögreglu og saksóknara hafa þúsundir ungra breskra stúlkna orðið fórnarlömb kynferðisofbeldis af hálfu erlendra glæpahópa. Hver var ótti breskra embættismanna sem olli því að þeir kusu að líta í hina áttina og aðhafast ekkert? Jú, það var ótti við að vera sakaðir um kynþáttafordóma og við að gerast sjálfir "brotlegir" gegn ríkjandi hugmyndafræði í valdakerfi sem orðið var gegnsýrt af pólitískum rétttrúnaði. Og nú hefur meirihluti breskra þingmanna, þ.m.t. allir þingmenn Verkamannaflokksins, afhjúpað eigið hugleysi með því að kjósa gegn því að fram fari opinber rannsókn á því sem gerðist. Sannleikurinn er of berskjaldandi.

Öllum hugsandi mönnum má vera ljóst, að ef svona nokkuð getur gerst í Bretlandi, þá getur það gerst á Íslandi, þar sem "woke" - krabbameinið hefur náð að skjóta rótum djúpt í stjórnkerfinu. Ef Bretar, með alla sína hernaðarsögu, aga og hefðir, geta sýnt slíkt veiklyndi, þá er sú hætta margföld á Íslandi. Um það þarf ekki að hafa mörg orð. Ísland er smáblóm í samanburðinum og þarf á meiriháttar styrkingu að halda ef það á ekki að verða troðið niður. Sá styrkur getur aðeins komið frá vaknandi fólki sem vill axla ábyrgð á landinu sínu, samfélagi, menningu, þjóðararfi og eigin frelsi.  

Svíar hafa fengið sinn skammt af vandamálum, sem ekki hefur mátt tala um eða viðurkenna fyrr en nú mjög nýlega. Allmörg ár eru síðan jóst varð að Svíar voru í afneitun um vandann og reyndu ýmist að blekkja umheiminn eða sjálfa sig. 

Á árinu 2024 fór ég í tvö framboð í þeirri viðleitni að vekja Íslendinga til umhugsunar um hvers konar verðmætum við Íslendingar gætum glutrað frá okkur á næstu misserum ef við ætlum að sigla í sömu átt og nágrannaþjóðir okkar undir trommuslætti erlendra stofnana með atbeina atvinnustjórnmálamanna sem gleyma því iðulega að frumskylda þeirra er við Ísland og íslenska kjósendur. Vonandi finna Íslendingar hjá sér kjark til að horfast í augu við aðsteðjandi vandamál og dug til að taka á rótum vandans áður en of mikið tjón hlýst af.

Í þessari stuttu ræðu Jordans Peterson hjá Piers Morgan kjarnar hann þessa sögu vel á örfáum sekúndum.  


Svart og hvítt?

Nú liggur fyrir að ,,staðreyndavakt" Fésbókarinnar (e. fact-check) verður aflögð. Um er að ræða ,,meiri háttar stefnubreytingu" og í takt við þá vakningu sem er að eiga sér stað vestan hafs, þ.e. að allt of langt hafi verið gengið í þöggun og ritskoðun á síðustu árum. Þetta á ekki síst við um aðgerðir stjórnvalda á kóvid-tímabilinu.

Bæði austan hafs og vestan (en ekki á Íslandi) er hafin mikil umræða um aðgerðir stjórnvalda og þá pólitísku slagsíðu sem einkenndi leyfilega umræðu. Um þetta segir Zuckerberg sjálfur: 

„Við ætl­um að losa okk­ur við þá sem hafa verið á staðreynda­vakt­inni, þar sem þeir hafa verið of hlut­dræg­ir póli­tískt séð og hafa dregið meira úr trausti frem­ur en að efla það, þá sér í lagi í Banda­ríkj­un­um.“

Af þessu tilefni er gott að rifja upp hvernig staðið var að ,,staðreyndavöktun" hér á Íslandi, sbr. m.a. þessa frétt frá árinu 2021, þar sem greint var frá því að Þjóðaröryggisráð hefði ákveðið að ,,koma á fót vinnuhópi til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni."

Lesendur eru hvattir til að kynna sér skýrslu vinnuhópsins, sem ekki hefur elst vel. Margt af því sem þar er talið til ósanninda hefur síðar verið viðurkennt sem sannindi. Skýrsla vinnuhópsins er minnisvarði um nálgun sem vonandi mun brátt heyra sögunni til, þ.e. um forræðishyggju stjórnvalda og vantraust í garð borgaranna. Nýir vindar vestan hafs blása í allt aðra átt, þ.e. að treysta beri almennum borgurum til að setja inn upplýsingar og athugasemdir til að skýra samhengi hlutana og útskýra það sem um ræðir. 

Þýðir þetta að brátt verði farið með gagnrýnum hætti yfir það sem vinnuhópurinn og íslesk stjórnvöld stimpluðu sem upplýsingaóreiðu, falsfréttir o.fl.? Því er til að svara, að á meðan aðrar þjóðir hafa fyrir þegar hafið heiðarlega umræðu um þetta tímabil, þá hafa Íslendingar fengið einn helsta stjórnanda aðgerðanna í sæti heilbrigðisráðherra. Heiðarlegt uppgjör mun væntanlega ekki eiga sér stað fyrr en valdatíma hennar lýkur. Mismunurinn gæti orðið sláandi: Á sama tíma og Bandaríkjamenn munu sem sagt ráðast gegn ritskoðun og lækka skatta mun vinstri stjórnin á Íslandi halda áfram að loka á umræðu, auka á eftirlit, hækka skatta og gjöld og í stuttu máli íþyngja íslensku atvinnulífi. Mismunurinn verður að öllum líkindum augljós og sláandi. 

 

 

mbl.is Meta lokar á staðreyndavaktina á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni og Justin

Á einum og sama deginum lýsa tvær vonarstjörnur ,,framsækinna" stjórnmála nútímans því yfir að þær muni brátt hverfa af sjónarsviðinu. Bjarni Benediktsson og Justin Trudeau eiga það sameiginlegt að hafa viljað framselja völd til alþjóðastofnana á kostnað þjóðríkisins sem þeir voru kjörnir til að þjóna; báðir hafa þeir viljað draga úr áhrifum kjörinna fulltrúa og unnið að því að efla yfirþjóðlegt vald; báðir hafa dregið taum risafyrirtækja á kostnað meðalstórra og smærri fyrirtækja; báðir hafa verið talsmenn vopnakaupa og hernaðar, auk þess sem þeir hafa báðir unnið að því að þenja út ríkisbáknið í heimalöndum sínum á kostnað sjálfsákvörðunarréttar borgaranna. 

Bæði Bjarni og Trudeu hafa sem flokksformenn snúið flokkum sínum á hvolf: Trudeu er formaður flokks sem kennir sig við frjálslyndi (e. Liberal) en orð og verk Trúdós hafa þó verið allt annað en frjálslynd, sbr. þessi dæmi hér og þetta hér líka. Þrátt fyrir framgöngu sína gegn trukkabílstjórum o.fl., þar sem riddaralögreglu var sigað á friðsama mótmælendur, var hann sérstakur vildarvinur íslenskra og norrænna ráðamanna. Sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur Bjarni snúið flokknum frá þeim gildum um fullveldi og sjálfstæði sem hann var reistur á árið 1929. Undir hans stjórn skoraði Sjálfstæðisflokkurinn óteljandi sjálfsmörk, sótti ekki fram undir sínum eigin gunnfána; úthýsti þeim sem vildu að Sjálfstæðisflokkurinn stæði undir merkjum; auk þess sem Bjarni lét sér lynda að sitja í ríkisstjórn með kommúnistum árum saman, þar sem dýrustu hugsjónir og prinsipp virtist mega selja fyrir aðgengi að valdastólum.  

Bæði Bjarni og Trúdó eru vel af Guði gerðir, dagfarsprúðir og kurteisir í daglegum samskiptum, en áttu það til að sýna á sér aðrar og verri hliðar á opinberum vettvangi. Í tilviki Bjarna tel ég að þar hafi hann fallið í gryfju vondrar ráðgjafar, sbr. það hvernig hann reyndi að gera grýlu úr þeim sem vilja að stjórnmálamenn og embættismenn verji hagsmuni Íslands innan EES og mótmæla þeirri einstefnu sem einkennt hefur EES samninginn í seinni tíð. Varðstaða um sjálfstæði og fullveldi Íslands er hjartað í stefnu Sjálfstæðisflokksins, en ekki harðlína og þaðan af síður öfgar.

Á persónulegum nótum óska ég Bjarna Benediktssyni og fjölskyldu hans velfarnaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Þetta er góður tímapunktur fyrir hann að stíga frá borði í Sjálfstæðisflokknum því ljóst er að á næstu vikum, mánuðuðum og misserum mun sverfa til stáls innan flokksins, ekki aðeins um formannssætið, heldur um það hvað flokkurinn ætlar í raun að standa fyrir. Í minningargrein um föður minn, Jón Guðmundsson, sem jarðsunginn var í síðasta mánuði, fór Bjarni fögrum orðum um Jón og ekki að ástæðulausu, því Jón var einn af hans traustustu stuðningsmönnum og átti stóran þátt í að koma Bjarna inn á þing fyrir 22 árum. Við höfum því alltaf verið Bjarna vinveittir og sýnt honum stuðning, enda hefur Bjarni svo margt gott til brunns að bera. Mörg af síðustu samtölum okkar fegðanna snerust um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna. Pabbi var fulltrúi þeirra sem vildu halda tryggð við flokkinn fram í rauðan dauðann, á meðan ég taldi fullreynt og dagljóst að flokknum yrði ekki snúið á rétta braut meðan Bjarni héldi um stýrið og verða þá að vinna gegn eigin hugsjónum og með þeim sem vildu rýra varnir Íslands að óþörfu með því að leggja fram og styðja frumvarp (um bókun 35) sem veikti sjálft Alþingi Íslendinga. Bókun 35 er ekki bara lagalegt þrætuepli, heldur pólitísk eiturpilla, sem veikir stöðu Íslands.

Enn hafa engin viðunandi rök verið lögð fram fyrir þeirri stefnubreytingu sem Sjálfstæðisflokkurinn tók í þessu máli. Í aðdraganda formannskosninga í flokknum gefst almennum flokksmönnum færi á að ræða um grundvallarmál. Líkt og umsækjendur um þjálfarastarf ættu frambjóðendur að leggja fram áætlun um leikskipulag, sem miðar að einhverju öðru en að hleypa andstæðingnum sífellt nær eigin marki.  


mbl.is „Einn fremsti stjórnmálamaður sem við höfum átt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á nýju ári getum við valið bjartari tóna

Á nýju ári, sem vonandi verður öllum gott og gleðilegt, munum við standa frammi fyrir sama vali og áður: Ætlum við að stjórna vegferð okkar sjálf eða leyfa öðrum að stýra ferðinni? Þetta á við um okkur bæði sem einstaklinga og okkur sem þjóð. Þetta er val sem snýst í raun um það hvort við viljum (og þorum) að vera frjáls.

,,Hver er þá fráls? Hinn vitri maður sem getur stjórnað sjálfum sér" (Horace 65-8 f.Kr.).

Ef við ætlum að velja frelsi en ekki helsi, þá verðum ekki aðeins að hafa vit, heldur einnig hugrekki til að þora að neita að beygja sig undir ósannindi, hjarðhegðun, múgæsingu (og stríðsæsingu), hótanir og illsku. Í stuttu máli þýðir þetta að ef við viljum vera frjáls þá þurfum við að þora að berjast fyrir því sem er satt og rétt, því hlutlægur sannleikur er til: Við erum siðferðisverur í heimi sem knýr okkur til að velja milli góðs og ills, milli ljóss og myrkurs.   

Að því sögðu veit ég að margir (flestir?) leggja á flótta undan þessari áskorun og kjósa værukærð / andvaraleysi / deyfingu / afþreyingu sem hneppir okkur í þrældóm, sbr. spádóma Aldous Huxley í bókinni Veröld ný og góð (e. Brave New World), sem allir hefðu gott af að lesa. Eða er kannski enginn að lesa neitt lengur? Á nýliðnu ári hitti ég háskólagengið fólk sem gefur sér ekki lengur neinn tíma til að lesa bók (né hlusta hljóðbækur). Hvernig tökum við afstöðu þegar við lesum ekkert, gefum okkur aldrei tíma? Ef við viljum vera frjáls og taka ábyrgð á okkur sjálfum krefst það lágmarksviðleitni, sem gæti t.d. falist í því að velja tíðni / sjónarhorn, því efnisheimurinn stjórnast af tíðni sbr. þetta hér. Fólk sem leyfir öðrum að velja tíðnisviðið getur (óafvitandi) verið að dæma sig til ánauðar.  tíðni

Innilegar þakkir til allra þeirra sem lögðu baráttunni lið á árinu 2024. Þið eruð nauðsynleg forsenda þess að samfélag okkar einkennist í meira mæli af jákvæðni, von og birtu.

,,Við verðum að þora, og þora aftur, og halda áfram að þora." (George Jacques Danton 1759-1794)

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband