,,Að viðlögðum heiðri og drengskap"

Höfundur hefur oftar en einu sinni undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni, bæði sem embættismaður og sem þingmaður. Þessa undirritun hef ég tekið alvarlega, enda felur yfirlýsingin í sér loforð, að viðlögðum drengskap og heiðri,  starfa ávallt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. 

Nánar lít ég svo á að í þessu felist skuldbindandi loforð um að leggja sig fram af alefli við að þjóna Íslendingum, landinu okkar og lýðveldinu okkar. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi sig til að verja hagsmuni þeirra sem hér búa, verja frelsi, frið og eignir fólksins í landinu, á jafnræðisgrunni, virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins og framfylgja lögum sem sett eru á grundvelli stjórnarskrárinnar, og síðast en ekki síst að vinna af heilindum, samviskusamlega og þannig að allir fái að láta rödd sína heyrast, að á þá sé hlustað og að menn njóti sannmælisDrengskaparheit Alþingi

Stofnun lýðræðisflokksins birtir viðleitni í þá átt að virða þessar mikilvægu skuldbindingar, með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Flokksmenn vilja vinna að því að leiðrétta þá slagsíðu sem í vaxandi mæli hefur einkennt stjórnmál á Íslandi hin síðari ár, þar sem persónulegir hagsmunir eru látnir ganga framar almannahag, þar sem klíkuvæðing og sérhagsmunagæsla verður stöðugt meira áberandi, þar sem til er orðin stétt atvinnustjórnmálamanna, þar sem hugsjónir hafa gleymst, þar sem ráðherrar sýna erlendum embættismönnum meiri vinsemd og hollustu en íslenskum kjósendum. 

Þetta þarf allt að færa til betri vegar. Undir merkjum Lýðræðisflokksins verður unnið að leiðréttingu í þessum efnum með það að meginmarkmiði að þjóna almenningi í þessu landi í stað þess að þjóna ráðandi öflum. Forgangsatriði í þeim efnum verður í því fólgið að tryggja almenningi og fyrirtækjum sambærileg vaxtakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar og tryggja þannig stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir landsmenn alla.


Við erum borgarar en ekki þegnar. Á því er mikill munur.

Á grundvelli sinna pólitísku kenninga verður Gunnari Smára Egilssyni tíðrætt um ,,auðvaldið" sem rót alls hins illa. Ríkisvaldið kallar hann ,,almannavald" og gefur sér að það vald sé almenningi vinveitt. Sjálfur hef ég ávallt stutt við frjálst einkaframtak og samfagnað þeim sem auðgast á heiðarlegan hátt því framleiðni og hagvöxtur er undirstaða samfélagslegra framfara. Öfugt við Gunnar Smára hef ég ekki blint traust á ríkisvaldi. Í anda vestrænnar stjórnskipunarhefðar hef ég minnt á nauðsyn þess að valdbeitingu ríkisins séu settar stífar skorður, þannig að verjast megi ofríki og harðstjórn. 

Í þessu samtali okkar Gunnars Smára í gær [01:15:00] (þar sem þáttastjórnandinn yfirtók reyndar hljóðnemann í lokin) beindi ég athyglinni að því að mögulega þurfum við GSE báðir að endurskoða afstöðu okkar í ljósi þeirrar stöðu sem við blasir:

Fyrir liggur að ríkustu menn heims eiga reglulega stefnumótunarfundi með þjóðarleiðtogum, stjórnmálamönnum, herforingjum o.fl., auk boðsgesta úr röðum áhrifafólks úr ýmsum geirum. Fundir þessir eru iðulega skipulagðir af World Economic Forum, en ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa verið virkir á þeim vettvangi, m.a. fyrrv. forsætisráðherra Íslands. Á þessum fundum, m.a. í Davos, eru línurnar lagðar um framtíð almúgans. Núverandi forsætisráðherra Bretlands, Keith Starmer, hefur opinberlega sagt frá því að hann kjósi fundina í Davos umfram þingfundi í Westminster.  

Um þessa stöðu er mikið rætt erlendis, en á vettvangi íslenskra stjórnmála hvílir einhvers konar bannhelgi yfir umræðu um þessi mál. Sú þögn er býsna alvarleg í ljósi þeirra áhrifa sem þessir fundir, sem stýrt er af fulltrúum stórvelda og stærstu fyrirtækja heims, hafa á íslensk stjórnmál og stefnumörkun stjórnvalda.

Í samtali okkar GSE í gær lagði ég áherslu á að menn þurfi að horfast í augu við breytta heimsmynd og þá hættu sem í því getur fólgist að kjörnir fulltrúar almennings ráðslagi á bak við luktar dyr með fulltrúum alræðisríkja og risastórra hagsmunaaðila (m.a. vopna- og lyfjaframleiðenda) undir merkjum þess sem kallað er "stakeholder capitalism".  

Hver er staða smáríkis eins og Íslands í heimi þar sem auður og völd safnast á æ færri og stærri hendur? Hvernig ver dvergþjóð auðlindir sínar í slíkum heimi? Þurfum við ekki öll, þ.m.t. ég sjálfur og GSE, að íhuga hversu vel hugmyndir okkar um heiminn samræmast þeim nýja veruleika sem við blasir?

Í heimi þar sem peningavald og pólitískt vald er gengið í eina sæng verður meginspurningin kannski þessi: Viltu beygja þig undir þessa þróun og lúta valdinu umyrðalaust? Eða viltu standa vörð um frjálsan vilja mannsins, frjálsa skoðanamyndun, frjálsa tjáningu, lýðræðislega lagasetningu og, síðast en ekki síst temprað vald, þ.e. bæði ríkisvald og peningavald? 

Lýðræðisflokkurinn er stofnaður til að veita fólki rödd, virkja beint lýðræði í mikilvægustu málum og efla þar með sjálfsvirðingu okkar sem frjálsra einstaklinga. Við erum borgarar, en ekki þegnar. Á því er grundvallarmunur.

 

 


Drullupollar og kristalskúlur

Gríski heimspekingurinn Epiktet (50-138) sagði ,,Ef þú ætlar að taka þér eitthvað fyrir hendur, skaltu gera þér ljóst hvert eðli þess er. Ef þú ætlar t.d. að ganga til laugar, skaltu gera þér ljóst, hvað tíðum hendir í lauginni. Vatni er skvett á suma og öðrum er troðið um tær, sumir skattyrðast og enn aðrir stela. Þú munt ganga öruggari að verki ef þú segir sjálfum þér áður: Ég ætla að fara í laug og halda skapi mínu í eðlilegu horfi. Farðu eins að hvert sem verkið er. Ef eitthvað mótdrægt hendir þig í lauginni, þá hefur þú svarið á reiðum höndum: Ég ætlaði ekki einungis að lauga mig, heldur einnig að halda skapi mínu í jafnvægi, en það myndi ég ekki gera ef ég yrði gramur af því er hér gerist". (Þýð. Dr. Broddi Jóhannesson).
 
Með því að lýsa yfir þátttöku í stjórnmálum tók ég auðvitað með í reikninginn að skvett yrði á mig vatni úr ýmsum áttum, en að útgefandi DV og leigupenni hans reyndu að draga mig ofan í drullupollinn sinn með ósannindum, fleipri, óhróðri og uppnefnum bendir til að framboð mitt valdi þeim áhyggjum. Þótt útgefandi DV sé á þeirri skoðun að best sé að framselja sem mest vald til Brussel, þá myndi ég fremur vilja rökræða við þá en að kalla þá stjórnlynda, andstæðinga lýðræðis o.s.frv. Í Pallborðinu á Stöð 2 í gær hrósaði ég Lilju Alfreðs fyrir að koma hreint fram. Leigupenni hjá DV sem rýnir í kristalskúlu í bergmálshellinum sínum á ekki slíka virðingu skilda. Kjósendur munu eiga síðasta orðið, ekki kristalskúla DV.
 
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband