Viltu breytingar? Kjóstu þá breytingar

Lýðræðisflokkurinn var stofnaður á leifturhraða. Á leifturhraða tókst að stilla upp framboðslistum og bjóða fram í öllum kjördæmum. Í framhaldi hafa dunið á frambjóðendum spurningalistar, viðtalsbeiðnir, framboðsfundir, sjónvarpsupptökur o.s.frv. 

Þegar hraðinn er þessi er mikilvægt að undirstrika að flokkurinn er stofnaður á skýrum grunni og hefur skýran tilgang, þ.e. að minna á að ríkið var stofnað til að þjóna fólkinu í landinu en ekki öfugt. Allt vald ríkisins stafar frá fólkinu, sem er hinn sanni valdhafi, ekki báknið, ekki skrifstofuveldið, ekki embættismennirnir, ekki sérfræðingarnir. Ríkið hefur það meginhlutverk að verja frelsi fólks, eignir þess og frið. 

Stefna flokksins er skýr og góð. Hana má finna inni á vefsíðu flokksins. Frambjóðendur hafa áfram sínar persónulegu skoðanir og sitt málfrelsi, en stefna flokksins talar sínu máli og að henni viljum við öll vinna, því þar er neistinn sem drífur þetta allt áfram. 

Framboð Lýðræðisflokksins hefur nú þegar haft góð áhrif: Skyndilega eru ríkisflokkarnir orðnir sammála um að lækka beri vexti (!),  herða á landamæragæslu (!) o.fl. Frammi fyrir þessu nýja viðmóti þurfa kjósendur að gera upp við sig hvort þeir sem bjuggu til flækjur, kostnað og vandamál séu best til þess fallnir að leysa vandann. 

--

E.S. 

XL er að keppa við ofurefli ríkisflokka sem hver um sig ver tugum milljóna (af almannafé!) í ímyndarhönnun og kosningaauglýsingar. Ef þú trúir því að unnt sé að breyta íslensku stjórnarfari til hins betra þá máttu leggja okkur lið, t.d. með því að styrkja flokkinn

 


Valkostirnir eru skýrir

Heimsmyndin er um það bil að fara að gjörbreytast. Bandaríska alríkið verður skorið niður og breytt úr eyðslusömu óhófsríki yfir í ríki sem stýrast mun af hagsýni, ráðdeild og skilvirkni. Á sama tíma halda gömlu íslensku stjórnmálaflokkarnir áfram að lofa ,,allskonar fyrir alla" í anda Besta flokks Jóns Gnarr hér um árið. 

Lýðræðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur boðað raunverulegt aðhald og nauðsynlegan niðurskurð. Spennandi verður að sjá í hvora áttina Íslendingar vilja stýra: Í átt til meiri miðstýringar og markaðsbúskapar í anda ESB eða í átt til lægri skatta.

Hér er ein hugmynd: Hætta að dæla peningum íslenskra skattgreiðenda í erlenda ,,loftslagssjóði". Ástæðan er augljós og ætti að vera orðin öllum kunn: Alþjóðabankinn (World Bank) getur ekki gert grein fyrir afdrifum 41 milljarðs dollara, nánar tiltekið tæplega 40% allra loftslagssjóða sem bankinn hefur ráðstafað síðastliðin ár. Engar opinberar skrár er að finna sem gefa mynd af því hvað varð um þessa fjármuni og hvernig þeim hefur verið ráðstafað. 

Alþjóðabankinn var m.a. stofnaður til að aðstoða fólk sem býr við mestu fátækt. Rúmlega 10% mannkyns, 100 milljónir manna, lifa á minna en 2 dollurum á dag. Fjármagn sitt sækir bankinn til ríkustu þjóða heims. 

Nýlega ákvað Alþjóðabankinn að stýra 45% þróunarsjóða sinna frá því að berjast gegn fátækt og yfir í verkefni sem tengjast ,,loftslagsbaráttu". Bankinn eyrnamerkir nú um 40 milljarða dollara í mál sem tengjast ,,grænum" verkefnum (e. green agenda). Samhliða hafa stórar fjárhæðir greinilega gufað upp. 


mbl.is Musk annar stjórnenda nýs ráðuneytis Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin liggur í frelsisátt, sem er vestur en ekki austur.

Hér eru fréttir sem þið lesið kannski ekki í íslenskum fjölmiðlum (ennþá): Sigurvegarinn í bandarísku forsetakosningunum hefur lýst því yfir að hann ætli að setja vaxtaþak (10%) á kreditkortafyrirtæki til að létta álagi af bandarískum heimilum og flýta fyrir því að hagvöxtur styrkist. Lýðræðisflokkurinn hóf kosningabaráttu sína á því að tala um vaxtaþak til að sporna gegn kæfandi vöxtum sem eru meira íþyngjandi hér á landi en í nokkru öðru Evrópulandi fyrir utan Úkraínu og Rússland. 

Á meðan aðrir flokkar vilja innleiða áætlunarbúskap í sovéskum stíl (með því að banna nýskráningu á bensín- og díselbílum), með því að stækka eftirlitsstofnanir ríkisins og belgja út ríkisvaldið með skattpíningu, er Lýðræðisflokkurinn eini flokkurinn sem talar skýrt í frjálsræðisátt, til varnar íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Skynsamt fólk mun kjósa XL. 


Ískaldur veruleiki, ekki skuggamyndir á vegg fræðimanna

Law is downstream from politics. Politics is downstream from culture. (Robert F. Kennedy jr.)

Í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum var mikið í húfi. Í raun má segja að þar hafi tveir menningarheimar tekist á og að úrslitin muni setja mark sitt á menningarumhverfi, stjórnmál og lagasetningu næstu ára.

Í kosningabaráttunni tókst Repúblikanaflokkurinn (og Donald Trump) á við fleira en Demókrataflokkinn (og Kamölu Harris). Í reynd var andstæðingurinn allt stjórnkerfið, allir meginstraumsfjölmiðlarnir, allt stofnanaveldið, meira og minna allt fræðimannasamfélagið, allar alþjóðastofnanirnar, mestu auðmenn vestan hafs, kvikmyndaverin, lyfjaiðnaðurinnhergagnaiðnaðurinn o.fl. Tap Demókrata þýðir í raun að nú hriktir í stjórnkerfum Vesturlanda sem m.a. hafa stefnt að innleiðingu ritskoðunar til að „verja“ almenning frá „falsfréttum“, ,,upplýsingaóreiðu“ og sönnum en óþægilegum staðreyndum.

Hvaða breytinga má vænta í Bandaríkjunum (og umheiminum) á næstu mánuðum og misserum? Svar: Landamæragæsla verður tekin upp í auknum mæli, verðbólga mun lækka, efnahagurinn mun batna, skattfé verður aftur notað til að bæta hagsmuni almennra skattgreiðenda, glæpum mun fækka, valdaásælni alþjóðastofnana verður stöðvuð og valdið mun færast aftur til þjóðríkjanna, stríðinu í Úkraínu mun ljúka. Í stuttu máli er kosning DT rothögg fyrir spillt stjórnkerfi og til marks um að völdin munu færast aftur til fólksins. Hér má sjá að alþjóðlegir bjúrókratar eru nú þegar byrjaðir að hörfa (væntanlega til þess að reyna að bjarga eigin skinni). Fleiri skriffinnar (og stjórnmálamenn) munu fylgja í kjölfarið. 

Elon Musk mun væntanlega verða falið það verkefni að hagræða, endurskipuleggja og auka skilvirkni í rekstri bandaríska alríkisins. Í stöðu heilbrigðisráðherra verður væntanlega settur maður sem RÚV hefur kallað „rugludall“ og samsæriskenningamann. Hér er eitt dæmi (af mörgum) um það hvernig „samsæriskenningar“ RFK hafa orðið að viðurkenndum staðreyndum

Eins og Elon Musk og DT er RFK hættulegur þeim sem vilja halda óbreyttu ástandi (status quo) og þeim sem vilja viðhalda spillingunni sem grasserað hefur á bak við tjöldin, því RFK er einlægur í þeim ásetningi sínum að vilja þjóna almannahagsmunum. Fái hann til þess umboð nýs bandaríkjaforseta mun hann endurskipuleggja allar stofnanir sem hafa með lýðheilsu að gera, þar á meðal Lyfja- og matvælaeftirlitið (FDA), Farsóttarstofnunina (CDC), Landlæknisembættið (NIH) o.fl. RFK vill uppræta spillingu, upplýsa um hagsmunaárekstra, og ráðast að rótum þess alvarlega lýðheilsuvanda (offitu, sykursýki, hjartasjúkdóma o.fl.) sem plaga börn og fullorðna í USA. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir stórum áskorunum í þessum efnum og þurfum að taka okkur verulega á ef heilbrigðiskerfið á ekki að bugast undan álagi.   

Niðurstöður kosninganna í BNA benda til að meirihluti Bandaríkjamanna sé búinn að fá nóg af ástandinu og vilji fá nýja vendi til að sópa út úr daunillum sölum ríkisstofnanna lýðveldisins. Hvað með Íslendinga? Hvenær kemur að því að þolinmæði íslensku þjóðarinnar brestur? Öfugt við íslenska stjórnmálamenn hafa RFK og DT verið ófeimnir við að tala um djúpríkið og spillinguna sem þrífst í skjóli þess, þar sem hergagnaiðnaðurinn hefur beitt áhrifum sínum til að kynda undir árásar- og hernaðarhyggju BNA áratugum saman. 

Hér á landi vilja ekki margir horfast augu við að á Íslandi sé útbreidd spilling sem veldur margvíslegri óskilvirkni og ómældu fjárhagslegu tjóni. Sérfræðingar í háskólum neita að slíkt sé til og nota kunnuglega aðferð til þess: Að um samsæriskenningu sé að ræða, væntanlega með þeim rökum að Ísland sé ekki þjakað af djúpstæðri spillingu. Skilaboðin úr fílabeinsturnum fræðanna eru þau að við megum alls ekki trúa því að innan íslenska stjórnkerfisins sé annað kerfi, þar sem flokkseigendur og fjármagnseigendur sameinast um að verja sinn hag – á kostnað almennings. Meðan þetta má ekki ræða munu stjórnmálamenn áfram hygla hver öðrum, athugasemdalaust, og halda áfram að mynda ríkisstjórnir þvert á allar hugsjónir og svíkja þar með öll kosningaloforð. Íslenskir ráðherrar – og m.a.s. forsætisráðherra – mega ganga erlendum stofnunum á hönd og ganga erinda þeirra samhliða ráðherrastarfi, án þess að spurt sé um mögulega hagsmunaárekstra. Jafnvel þótt svo fari að hlutaðeigandi fái feitt starf hjá sömu stofnun eftir að pólitískum ferli þeirra lýkur, þá má ekki gera neinar athugasemdir við slíkt.

Við þurfum að treysta okkur til að beina kastljósinu að samgróningum innlends valds: Milli flokka, milli hagsmunaaðila, milli stórfyrirtækja, en auk þess þurfum við að treysta okkur til að ræða hvort innlent vald sé komið í samkrull við erlent vald: ESB, WHO, SÞ o.fl. Hér er um alvarlegt viðfangsefni að ræða, sem varðar blákaldan veruleika Íslendinga, ekki ímyndaðan veruleika háskólamanna.

[Grein þessi birtist fyrst á www.visir.is 11.11.24]

 

 


Viltu framlengja fortíðina eða skapa nýja og betri framtíð?

Kæru Íslendingar.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málflutning væntanlegs heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, sjá hér, en hann hefur ekki aðeins spáð fyrir um óorðna hluti, heldur ítrekað varpað ljósi á kerfisbundna spillingu í bandarísku stjórnkerfi, þar sem stórfyrirtæki hafa náð tangarhaldi á eftirlitsstofnunum og auk þess stýrt stefnumótun á sviði hernaðar, matarframleiðslu, lyfjaiðnaðar, umhverfismála o.fl. Allt hefur þetta verið til hagsbóta fyrir þá sem sitja í innsta hring valds og auðs, en til margháttaðs skaða fyrir bandarískan almenning - sem og raunar almenning í mörgum öðrum löndum. jfk rfk

Ríkisstjórnarskipti í Bandaríkjunum munu valda straumhvörfum í íslenskum stjórnmálum. Þetta má öllum vera ljóst sem þekkja sögu lýðveldisins okkar. Nýir tímar eru að renna upp. Woke-vitleysan mun ganga sér til húðar og áherslur munu breytast. Stjórnmálin munu endurnýjast. Sósíalisminn, sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar (nema Lýðræðisflokkurinn) gæla við mun eiga erfitt uppdráttar. Áhersla á alþjóðlegt skrifræði mun minnka. Hræðsluáróður í formi loftslagsbreytinga mun verða afhjúpaður sem .... áróður. Skattalækkanir í USA munu valda því að fjöldi fyrirtækja mun flytja starfsemi sína þangað. Skattahækkanir hérlendis munu líta illa út í samanburði. Ef ekki verður betur á málum haldið hér á landi mun þetta leiða til atgervisflótta frá Íslandi.

Frammi fyrir nýrri stöðu þarf hver einasti kjósandi að spyrja sig eftirfarandi spurningar: Vil ég framlengja fortíðina með því að kjósa einhvern af gömlu flokkunum eða vil ég taka þátt í að skapa hér nýja, bjartari og betri framtíð?

 


Kristalskúlur brotna þegar þær mæta raunveruleikanum

Í umræðum um mikilvægustu landsmál (stjórnmál, vírusa o.fl.) hafa stjórnvöld og fjölmiðlar kosið að reiða sig á tölfræðileg gögn, annars vegar skoðanakannanir og hins vegar spálíkön. Smám saman er almenningur að átta sig á að mjög óhollt geti verið að gleypa hráar þær tölur sem fjölmiðlar halda að okkur frá degi til dags

Hvernig ber annars að skilja misræmið milli spádómanna og veruleikans? Síðast í gær voru allir stóru (ríkisreknu og ríkisstyrktu) fjölmiðlarnir sammála um að forsetakosningarnar í USA yrðu hnífjafnar. Í dag kemur í ljós að Trump er að sigra með umtalsverðum mun. 

Hver gæti verið skýringin á því að spálíkönin bregðast ítrekað? Er innbyggð skekkja / óskhyggja / skoðanamótun til staðar hjá þeim sem framleiða tölfræðina? Er ekki verið að horfa nægilega vítt fyrir sviðið? Eru sumir þjóðfélagshópar útilokaðir þegar verið er að útbúa þessi gögn? Eru gögnin mögulega beinlínis framleidd í þeim tilgangi að hafa áhrif á hegðun fólks?

Hvernig stendur á því að frambjóðandi Demókrata, sem síðustu vikur hefur verið lofuð alls staðar fyrir kjörþokka og vitsmuni, skilar alls staðar verri úrslitum en Biden sem háði kosningabaráttuna 2020 úr kjallaranum heima hjá sér? 

Voru kjósendur Trumps feimnir við að opinbera val sitt? Voru þeir mögulega sniðgengnir meira en aðrir við gerð skoðanakannana? Hver gæti verið skýringin á því að skoðanakannanir gefa ítrekað skakka mynd

Hvenær kemur að því að kjósendur hætta að láta fjölmiðla mata sig á lélegu efni ... og fari þess í stað að hugsa sjálfstætt og kjósa með hjartanu? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband