6.4.2025 | 09:40
Rise and shine!
Sem örþjóð í stóru landi eru Íslendingar auðvitað í viðkvæmri stöðu þegar stórveldi heimsins seilast grímulaust eftir áhrifum, auðlindum og landsvæðum. Umræða um varnarmál er hins vegar á algjörum villigötum ef menn ímynda sér að rétt sé að stofna íslenskan her sem varið geti landið í hefðbundum hernaði. Nýir tímar eru runnir upp þar sem landvinningar eru iðkaðir með nýjum hernaðaraðferðum. Jafnvel stærstu herveldi forðast bein hernaðarátök og vinna þess í stað að því að ná markmiðum sínum án þess að hleypa af einu einasta byssuskoti. Í stað innrása með vopnavaldi stunda stórveldin hernað með aðferðum sem kenndar eru við 5. kynslóðar hernað, svo sem "samfélagsverkfræði", villandi upplýsingum, tölvuárásum og tækninýjungum.
Hvað væri það fyrsta sem slíkur óvinur myndi vilja gera til að ná landi eins og Íslandi undir sitt áhrifasvæði? Jú, að auka áhrif sín án þess að landsmenn taki eftir því; veikja samstöðu þjóðarinnar, telja fólki trú um að það geti ekki verið sjálfstætt, hvorki sem einstaklingar né sem þjóð, veikja fullveldi landsins með því að draga úr áhrifum löggjafarþingsins, veikja dómsvaldið, flytja framkvæmdavaldið að stórum hluta úr landi, setja stöðugt nýjar reglur sem gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum erfiðara fyrir að keppa við stórfyrirtækin, ná stjórn á orkumálum, auka áherslu á almenningssamgöngur og setja dýrar lestarframkvæmdir á dagskrá sem soga til sín óheyrilega fjármuni og veikja um leið aðrar samgönguleiðir, gera ráðamenn handgengna erlendu valdi og fá þá til að vinna að því að koma landi sínu í smáum skrefum undir erlent áhrifavald.
Frammi fyrir þessu gildir enn hin klassíska lexía Sun Tzu: Þekktu óvin þinn, því ef þú þekkir hann ekki og veist ekki hvaða aðferðir hann notar til að grafa undan þér, þá muntu aldrei geta varist atlögum hans. Af þessu leiðir að besta vörn Íslands í breyttum heimi er ekki hervæðing heldur að stuðla að vitundarvakningu meðal þeirra sem búa í landinu um öll þau dýrmæti sem við höfum hér að verja. Þjóð sem áttar sig ekki á því að verið er að taka frá henni fullveldið getur ekki varið það. Þjóð sem missir yfirráð yfir lögum sínum missir yfirráðin yfir landinu sínu og framtíð sinni.
Þegar svo er komið að Alþingi ætlar að leiða frumvarp um bókun 35 í ólög og veita þannig fullveldinu náðarhögg með því að afhenda dómsvald um EES reglur alfarið úr landi, þá verður orðið landráð sífellt raunhæfara um athafnir ráðamanna. Óskandi væri að íslensk þjóð noti þennan sunnudag til að rakna úr rotinu og taka þátt í að verja landið sitt með því að verja lög sín, því einmitt þannig hafa Íslendingar - sem herlaus þjóð - varist öllum atlögum í aldanna rás.
![]() |
Óvinsældir Trumps aukast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.4.2025 | 11:12
Góðvild í verki
"Mitt ríki er ekki af þessum heimi" var svar Krists gagnvart Pílatusi, æðsta fulltrúa rómverska heimsveldisins í Júdeu.
Í svarinu felst að þessi heimur sem við búum í hér birtist daglega sem rangsnúinn heimur, þar sem málefnum er meðvitað snúið á hvolf og hlutlægir mælikvarðar leystir upp þegar valdagírugir og fégráðugir menn reyna að gera myrkur að ljósi og ljós að myrkri, gott að illu og illt að góðu.
Í slíkum heimi þar sem lygi er sett fram sem sannleikur og sannindi eru útmáluð sem lygi, getur verið háskalegt að vilja bera sannleikanum vitni. En áður en við seljum samvisku okkar og sál fyrir silfurpeninga, áður en við göngumst veraldlegu valdi á hönd, áður en við gerumst þjónar þeirra sem seilast til áhrifa í þessum öfugsnúna heimi, þá er vert að muna að tilvist okkar hér er aðeins augnablik í eilífðinni og að hvernig svo sem lög mannanna eru toguð og teygð, afskræmd og afbökuð, þá gilda lög ofar þessum veraldlegu lögum, sem endurspegla þann rétt sem gildir í eilífðinni, þar sem rétt er rétt og rangt er rangt - og þar sem skýr greinarmunur er gerður á góðu og illu, þar sem málum er stjórnað af visku, góðvild og kærleika, með hag, framför og upplýsingu allra sálna að leiðarljósi.
Þessi jörð var sköpuð til að vera himnaríki en ekki helvíti, en mennirnir falla daglega á prófinu, iðka ofbeldi í stað elsku, stríð í stað friðar, gegn vilja Guðs. Hvernig væri að við reyndum - í alvöru - að láta Guðs vilja ráða för, ekki okkar eigin vilja?
E.S. Þegar við sjáum visku, góðvild og kærleika birtast í verki ber okkur að heiðra slíkt og vegsama þá sem sýna samferðamönnum sínum umhyggju. Í gær áttum við hjónin einlæga gleðistund þegar elsti sonur okkar og Guðjón æskuvinur hans í SKRIPO opnuðu listasýningu í Epal á Laugavegi 7. Sá viðburður hefði ekki orðið að veruleika án stuðnings fólks sem stutt hefur þá félagana á leiðinni af óeigingirni og einlægum velvilja. Hér viljum við sérstaklega þakka og heiðra Óskar Guðmundsson rithöfund og þúsundþjalasmið, sem hefur miðlað til þeirra af reynslu sinni og hjálpað þeim að opna dyr á listabrautinni sem að öðrum kosti hefðu verið þeim lokaðar. Óskar hefur leyft þeim að standa á sínum herðum og lyft þeim upp. Einnig ber að nefna hér Sædísi Arndal kennara sem á fyrstu stigum í grunnskóla hlúði svo fallega að þeim fræjum sem blómstruðu á sýningunni í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)