Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis láti til sín taka

Í ljósi alls þess sem fram kemur í tímamótaviðtali Stefáns Einars við Úlfar Lúðvíksson ætti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að kalla alla hlutaðeigandi á sinn fund og gefa þeim kost á að standa fyrir sínu máli. Nefndinni ber að hafa "frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra." Nefndin hefur einnig það hlutverk að "gera tillögu um hvenær er rétt að skipa rann­sóknar­­nefnd og gefur þinginu álit sitt um skýrslur þeirra." Viðtalið bendir til að alvarlegar brotalamir í landamæragæslu ógni þjóðarhagsmunum og þjóðaröryggi. Rannsóknarnefndir hafa verið skipaðar af minna tilefni.


Úlfari hent fyrir úlfana til að ríkið geti hljóðlega vanrækt grundvallarhlutverk sitt.

Ef allt væri með felldu á Íslandi og ef Íslendingar gæfu sér tíma til að hlusta á viðtal Stefáns Einars við Úlfar Lúðvíksson fyrrum lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, þá væri orðinn hér pólitískur landskjálfti. Í viðtalinu staðfestir Úlfar þar sem við öll vissum - eða mattum vita - að aðild Íslands að Schengen samkomulaginu frá 2001 hafi verið mistök og landamæraeftirlit Íslands gagnvart þeim sem koma hingað frá öðrum Shengen ríkjum hafi "ekki verið neitt" frá 2001 til 2021 þegar Úlfar fór að reyna að stoppa í götin. Fyrir það hefur honum nú verið vikið úr starfi með sameiginlegu sparki innan úr innsta hring kerfisins. 

Lesendur ættu að staldra við þetta og spyrja sig hvað hefði gerst í Bretlandi ef yfirmaður lögreglunnar á suðurströnd Bretlands yrði rekinn fyrir að gera reka að því að stöðva stöðugan straum bátaflóttamanna. Ljóst má telja að ef í ljós kæmi að ráðherrar (og æðstu embættismenn) sendu uppsagnarbréf til slíks manns til að kæfa umræðu og koma í veg fyrir að kastljósið beinist að vítaverðu athafnaleysi yfirvalda í málaflokki sem varðar þjóðarhag og þjóðaröryggi, þá myndu breskir fjölmiðlar og almenningur kalla eftir afsögn annarra en lögreglustjórans. En á Íslandi þegir ríkismiðillinn um viðtalið við Úlfar. Þögnin á visir.is er sömuleiðis ærandi. Einn og hálfur sólarhringur hefur liðið frá því þetta tímamótaviðtal birtist en ríkisreknir holræsamiðlar þegja þunnu hljóði. Úlfur

Ég rita þessar línur til að benda lesendum á að viðtalið við Úlfar undirstrikar að íslenska ríkið rambar nú á siðferðilegu og lagalegu hengiflugi. "Löggæslumál á Íslandi eru ekki á góðum stað" segir Úlfar og vísar m.a til erlendra glæpagengja sem náð hafa fótfestu hér og menn framið hafa kaldrifjuð morð spóka sig um spariklæddir örstuttu eftir glæp sinn og allt gerist þetta með vitund æðstu embættismanna og lögreglustjóra sem þiggja laun fyrir að sitja í þjóðaröryggisráði!

Frammi fyrir þessu ber að rifja upp að ríkisvaldi var upphaflega komið á fót til að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála, halda uppi lögum og verja öryggi almennings. Þegar svo er komið að ofvöxtur hefur hlaupið í ríkið sem teygir sig sífellt lengra ofan í vasa almennings og gengur sífellt nær frelsi fólks en stendur ekki lengur undir grundvallarhlutverki sínu, þ.e. löggæslu, þá er ekkert lýsingarorð nærtækara en "þrotríki" (e. failed state). Þegar ríkið vanrækir kjarnahlutverk sitt en vill á sama tíma vasast í hlutum sem koma því ekki við, þá hverfur siðferðilegt lögmæti ríkisins. Á þennan stað erum við komin. Við þessu vildi ég vara þegar ég sagði af mér dómaraembætti því ég vildi ekki bíða þau örlög að þurfa sem embættismaður að ganga erinda siðferðilega gjaldþrota ríkisvalds. Að sjá og heyra skyldurækinn og ærlegan mann eins og Úlfar Lúðvíksson tala af umhyggju fyrir landi og þjóð veitir endurnýjaða von um að unnt verði að vekja Íslendingar af Þyrnirósarsvefninum og til vitundar um þá stjórnarfarslegu hnignun sem hér hefur orðið. 

Fólkið í landinu verður að taka sig saman um að endurbæta stjórn landsins. Við höfum ekki mikinn tíma til stefnu ef takast á að bjarga þeirri samfélagsgerð sem mótast hefur í sambúð íslenskrar þjóðar í landinu sem við fengum í arf. 

 

 


Til hvers var unnið?

Ísland er að breytast hratt - og ekki að öllu leyti til hins betra. Landamæragæsla hefur verið í molum árum saman og stjórnleysi ríkt í innflytjendamálum. Sem herlaus örþjóð með fámennt lögreglulið eru Íslendingar í sérlega viðkvæmri stöðu gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi, vopnaburði og innfluttri ofbeldismenningu. En um þetta hefur ekki mátt ræða, varnaðarorð hafa verið þögguð niður og upphrópanir notaðar til að koma í veg fyrir málefnalega umræðu. Þótt flestir innflytjendur komi til Íslands í þeim tilgangi að vinna og vilji laga sig að siðum samfélagsins, þá fáum við líka daglega áminningu um önnur viðhorf. Þegar svo er komið að innflytjendur sjá ekki tilgang í því að læra íslensku þá er tímabært að staldra við og íhuga hvað verða muni um íslenskan menningararf og sögu. 

En þetta gerðist ekki af tilviljun. Fyrri ríkisstjórn var mögulega sú versta í lýðveldissögunni (fyrir utan kannski Jóhönnustjórnina), því hún lét reka á reiðanum í þessum málum með opingáttarstefnu í landamæramálum og með innleiðingu alls konar erlendra stefnumiða sem þjónuðu ekki íslenskum hagsmunum, þ.m.t. ónauðsynlegri innleiðingu á erlendum orkupökkum. Núverandi ríkisstjórn virðist ætla að halda ótrauð áfram á sömu braut í þágu ESB, SÞ og NATO. 

Hver verður arfleifð stjórnmálamanna sem í aðdraganda kosninga gefa íslenskum kjósendum fögur loforð en einbeita sér svo að því að vinna i þágu erlendra hagsmuna? Daglega erum við minnt á hverfulleika lífsins: Fólk deyr / lætur af störfum / hverfur sjónum. Hvað stendur eftir? Fyrir hvað er fólks minnst? Foringjar síðustu ríkisstjórnar, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson, voru bæði greind og gjörvileg. Bæði gátu flutt innblásnar ræður á flokksþingum þar sem lofað var að standa vörð um hugsjónirnar. En þegar upp er staðið - og þau bæði horfin af vettvangi - þá standa flokkar þeirra beggja eftir í rjúkandi rúst og íslenskt samfélag er veikara en fyrr. Til hvers var þá unnið?   


mbl.is Íbúi segir hverfinu haldið í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð sem gleymir sögu sinni er dæmd til að endurtaka mistök fortíðar

Í bók Ásgeirs Jónssonar um Jón Arason (útg. 2020) er m.a. sagt frá þeim miklu breytingum sem urðu á íslandi eftir fall Jóns Arasonar og siðaskiptin 1550. Danakonungur sölsaði undir sig auðlindir Íslands, jarðeignir klaustranna og útvegsjarðir kirkjunnar. Samhliða var erlendum þjóðum ýtt út úr verslun og með verslunareinokuninni 1602 var lokað fyrir samskipti við aðrar þjóðir en Dani. Fram að því höfðu Íslendingar farið til náms víða um heim, en eftir þetta kom í raun aðeins Kaupmannahöfn til greina. Fram að þessu höfðu Íslendingar hagnast vel á frjálsum utanríkisviðskiptum, en þegar þeir voru neyddir til að selja vörur til Danmerkur langt undir heimsmarkaðsverði breyttist það til hins verra. Í kjölfar siðaskiptanna fór fram gífurleg eignaupptaka og frelsissvipting sem gerði Ísland að einni fátækustu þjóð í Evrópu.  Jón Sigurðsson Hrafnseyri

Rikisstjórn Íslands stefnir nú að því að koma Íslendingum aftur undir erlent vald (ESB) sem vill stýra verðlagningu (með niðurgreiðslum og kvótum), hefta samkeppni (með verndartollum) og stýra framleiðslu (með íþyngjandi regluverki). 167 ríki standa utan ESB og telja hag sínum betur borgið með því að eiga frjáls og óheft viðskipti við allan heiminn en að loka sig inni á hnignandi efnahagssvæði. Í sjálfstæðisbaráttunni lagði Jón Sigurðsson (1811-1879) ofuráherslu á sögulegt mikilvægi þess að Íslendingar ættu frjáls alþjóðleg viðskipti. Hann myndi snúa sér við í gröfinni ef hann heyrði hvernig talsmenn ESB aðildar Íslands reyna að nota ESB aðild sem samheiti yfir "alþjóðlegt verslunarfrelsi", því þvert á móti heftir ESB slíkt frelsi aðildarþjóða. Ef umræða um ESB aðild Íslands á að ná einhverju vitrænu flugi þá verða menn að svara því hvers vegna Íslendingar ættu að loka sig inni í þröngu kerfi tollamúra og regluverks, sem þjónar betur hagsmunum stórfyrirtækja en lítilla fyrirtækja (sem íslensk fyrirtæki eru langflest). Vonandi hafa ESB sinnar betri svör en þau að ESB aðild þjóni best hagsmunum atvinnustjórnmálamanna og innlendra sérfræðinga sem vilja vera á fóðrum í Brussel.   

 


"Autopennar" finnast víðar en í Bandaríkjunum

Nú geisar mikil umræða í Bandaríkjunum um vélstýrðan penna (e. Autopen) Joe Biden. M.a. er vísað til þess að Joe hafi samþykkt 2,5 milljarða dollara framlag til Úkraínu meðan hann var í fríi í St. Croix, sbr. meðfylgjandi mynd. Á sama tíma hafi "forsetinn" undirritað náðunarbréf, slakað á landamæragæslu o.fl. Spurt er hver stýrði pennanum í fjarveru forsetans, hvert peningarnir fóru og hvort / hvernig megi rekja upp það sem þannig hafi verið samþykkt. Í raun hafi forsetaembættið og vald þess verið yfirtekið af óþekktu og umboðslausu fólki. Talað er um þetta sem eitt stærsta hneyskli í sögu Bandaríkjanna og að þetta megi aldrei endurtaka sig, því svona "vinnubrögð" við lagasetningu brjóti gegn grundvallarviðmiði vestrænnar stjórnskipunar um jafnvægi milli valdaaðila (e. checks and balances).Biden
 
Á sama tíma horfa Íslendingar þegjandi upp á það, árum og áratugum saman, að Alþingismenn og ráðherrar skrifi undir og innleiði ALLAR tilskipanir og reglugerðir sem Brussel-veldið póstsendir til Íslands. Engin þjóð getur búið við slíkt bremsulaust stjórnarfar án þess að þurfa að gjalda fyrir það að lokum. Í raun er þessi framkvæmd hrein og klár niðurlæging fyrir þjóð sem á stjórnarskrá og kýs sér ennþá fulltrúa á löggjafarþing í þeim tilgangi að þeir gæti réttar Íslendinga. En þessi framkvæmd er þó ekki aðeins niðurlægjandi og þetta er ekki aðeins til marks um lausung í lagasetningu. Þetta sjálfvirka afgreiðslu- og undirritunarferli felur í sér viðvarandi brot gegn þeim skyldum sem handhafar íslensks löggjafarvalds hafa undirgengist með þvi að vinna drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. 
 
 
  
 
 

Treystu! Ekki hugsa.

Erfið lífsbarátta í aldanna rás hefur framkallað ríkt samfélagslegt traust á Íslandi, því reynslan hefur kennt okkur nauðsyn þess að standa saman þegar illa árar. Sannarlega er gott að búa í landi þar sem fólk treystir hvert öðru. Þetta traust hafa Íslendingar að miklu leyti flutt yfir til stjórnvalda og þegar hamfarir bresta á höfum við staðið saman og fylgt leiðbeiningum eins og einn maður. Þegar samstaða og traust eru nánast náttúruleg viðbrögð fólks mega stjórnvöld ekki falla í þá freistni að færa sér það í nyt. Í ljósi reynslu síðustu missera er þó tímabært - og brýnt - að skoða atburðarásina af yfirvegun.

Með yfirlýsingu frá WHO 3. mars 2020 var gefið út að dánartíðni af völdum Covid-19 væri 3,4%. Ógn og skelfing helltist yfir heimsbyggðina. Síðar í sama mánuði, nánar tiltekið 19. mars 2020, greindi breska ríkisstjórnin frá því að Covid-19 hefði lága dánartíðni (e. low mortality). Þetta var áður en farið var að skella öllu í lás. Aðrar rannsóknir, sem birtar voru snemma í þessu ferli, staðfestu að dánarlíkur vegna Covid-19 væru ekki ósvipaðar árlegri flensu

Ótti gerir almenning auðsveipan og hlýðinn. Mannkynssagan sýnir að valdhafar peningalegs og pólitísks valds geta - og hafa - misnotað sér slíkt ástand. En af því að við Íslendingar berum svo mikið traust, ekki bara til hvers annars heldur einnig til stjórnvalda, þá er auðvitað bannað að efast um ráðsnilld og velvilja þeirra sem stjórna. Því er það svo, að þótt Íslendingum þyki mörgum gaman að tala fallega um gagnrýna hugsun, þá á slík hugsun ekki rétt á sér þegar mikið er í húfi. Við slíkar aðstæður ber okkur nefnilega öllum að hætta að hugsa og bara TREYSTA: Treysta stjórnvöldum, treysta fjölmiðlum, treysta vísindamönnum, treysta ríkisvaldinu, treysta lögreglunni.  

Vandamál Íslendinga er ekki að við erum vitlausari en aðrir. Við höfum bara ekki áhuga á að hugsa - og alls ekki hlusta á þá sem reyna að fá okkur til að hugsa. Slíkir menn eru óþægilegir því þeir guðlasta (gr. asebeia) með því að taka ekki þátt í að tilbiðja guði ríkisins (nú: sérfræðinga) og slíkir andófsmenn eru líka hættulegir því þeir kenna fólki að efast um hefðbundnar skoðanir og vald (lat. corruptio iuventutis). 

En svo er það vissulega sjálfstætt úrlausnarefni, hvað á að gera ef í ljós kemur að aðvörunarorð umræddra andófsmanna voru mögulega réttmæt. Í gær greindi breska blaðið Independent frá því að hjartatengdum andlátum fólks á besta aldri hafi fjölgað um tæplega 18% frá 2019 og að tilfellum hjartabilunar hafi fjölgað um 21% frá árinu 2020. Frammi fyrir slíkum fréttum eru auðvitað allir steinhissa, því allir eru að sjálfsögðu sammála um að ekki megi íhuga þann möguleika að almenningi hafi verið veitt vond lyfjaráðgjöf. 


"Allir vegir liggja til Rómar" (og nú til Brussel)

Árið 2023 kom upp "trend" á TikTok sem benti til að karlmenn hugsuðu furðulega oft til hins forna Rómaveldis. Sjálfur hef ég síðustu vikur hugsað mun oftar til Sovétríkjanna en til Rómar. Frammi fyrir því hvernig evrópsk stjórnvöld þrengja smám saman að frjálsri hugsun, hefta málfrelsið og sýna viðleitni til að drottna yfir allri pólitískri umræðu (jafnvel með því að banna stjórnmálaflokka) hef ég leitað samsvörunar í því hvernig Bolsévikkar (eftir byltinguna) og stjórnvöld í Sovét komu stífri harðstjórn á fót sem afnam einstaklingsfrelsi, vitsmunalega fjölbreytni og sjálfsákvörðunarrétt. 

Alexander Solzhenitsyn lýsti því í ritum sínum hvernig Marxisminn var gerður að æðstu kreddu, sem ekki mátti efast um og alls ekki andmæla. Svo langt gekk þetta að kreddan var klædd í gervi siðfræðikenningar sem réttlætti misbeitingu valds í nafni "framfara" og "þróunar". Hann lýsti því einnig hvernig sovéskt ríkisvald skóp andrúmsloft ótta, eftirlits og úthrópunar, þar sem málfrelsi var barið niður og sjálfstætt hugsandi menn voru þvingaðir til að fylgja hinni opinberu línu (en hljóta ella refsingu). Þetta var gert með áróðri, ritskoðun og óttastjórnun. Hann taldi að þessi aðför að frjálsri hugsun væri í grunninn ekki pólitísk heldur risti mun dýpra og færi alveg niður í kjarna mannssálarinnar, því kerfið þvingaði fólk til að lifa í blekkingu með því að berja allt hugrekki úr fólki og eyðileggja að lokum virðingu fólks fyrir sjálfu sér. 

Annað sem telja má áhugavert í nútímasamhengi var hvernig fjölmiðlar voru notaðir til að berja niður gagnrýni á leiðtoga ríkisins og til að tryggja fylgispekt almennings við hugmyndafræðina. Fjölmiðlar voru ekki óháðir ríkinu heldur líkti hann þeim við handlegg sem stýrt var af höfðinu (flokknum). Flokkurinn hafði það meginhlutverk að breiða út boðskapinn, endurskrifa söguna og koma í veg fyrir að andófsraddir næðu til almennings.

Sjálfur hef ég sagt að stjórnmálaflokkar á Íslandi séu í raun einn flokkur, eitt og sama fyrirbærið með marga hausa. Leið þeirra allra liggur til Brussel, því allir hafa í verki samþykkt þá afskræmingu stjórnarfarsins sem Íslendingar hafa búið við síðustu ár, þar sem erlent skrifstofuvald setur okkur lög sem ekki er unnt að breyta nema í eina átt, þ.e. með blýhúðun. Íslendingar sjá óveðurský framangreindrar þróunar hrannast upp daglega, nú síðast þegar góður og gegn embættismaður, var látinn taka pokann sinn fyrir að skilja ekki að kreddan á að ráða för og en ekki texti laganna. Framtíð ESB byggist á því að þjóðvitund aðildarríkja (þ.m.t. EES) veikist og ein leiðin til að veikja þessa vitund með skjótvirkum hætti er að stuðla að hröðum breytingum á íbúasamsetningu.


mbl.is Var boðið embætti lögreglustjórans á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kallast "kalkúleruð" áhætta ef enginn hefur raunverulega metið áhættuna?

Hver er stærsta eiturpillan í eftirfarandi frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35? Þar segir orðrétt:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. [Leturbr. AÞJ]

Árlega er mikilll fjöldi EES gerða (reglugerðir, tilskipanir) innleiddar í íslenskan rétt. Með varfærni má áætla að hvert ráðuneyti, sem nú eru 12 að tölu, gefi út um 20 innleiðingarreglugerðir á ári. Auk ráðuneytanna hefur Alþingi veigamiklu hlutverki að gegna við innleiðingu EES réttar. Á vef Alþingis má sjá - og það hefur skrifstofa þingsins staðfest - að um fimmtungur stjórnarfrumvarpa á 151. löggjafarþingi var upprunninn í ESB, þá er átt við fjölda en hvorki tekið tillit til umfangs eða mikilvægis, sem þess vegna gæti verið miklu stærra hlutfall - þótt erfitt kunni að vera að meta/mæla nákvæmlega.

Fjöldi skuldbindinga sem Ísland undirgengst með hverri EES tilskipun og reglugerð fer eftir eðli og umfangi gerðarinnar sem um ræðir. Fjöldinn getur verið frá 1-5 (einföld tilskipun) upp í tugi og jafnvel meira en 100 (ef um er að ræða flóknar tilskipanir). Stór reglugerð getur falið í sér tugi og jafnvel hundruðir skuldbindinga fyrir aðildarríki. 

Allir vita að í rúmlega 30 ára sögu EES hefur Ísland aldrei beitt neitunarvaldi. Allt þetta þýðir að geigvænlegt magn af lagareglum (og þar með skuldbindingum) rennur viðstöðulaust í gegnum kerfið án þess að nokkur hafi heildaryfirsýn yfir þær skuldbindingar sem í þessu felast. Ef enginn hefur yfirsýn, þá er ekki einu sinni hægt að segja að verið sé að taka "kalkúleraða áhættu". Slík áhættutaka með hagsmuni lands og þjóðar er óforsvaranleg. Þingmenn og ráðherrar hafa ekkert umboð til að fara þannig með fjöregg þjóðarinnar. 

 


Ísland þarf á þér að halda.

Kæri lesandi. 

Vænt þætti mér um það ef þú gæfir þér tíma til að horfa / hlusta á þetta 20 mínútna erindi sem ég flutti á fjölmennum fundi í gærkvöldi. Hvort sem við erum ung, miðaldra eða öldruð, hvort sem við erum fædd á Íslandi eða aðflutt, þá berum við ábyrgð á þeim dýra arfi sem fyrri kynslóðir færðu okkur að gjöf, þ.e. heimssögulegum loga lýðræðis og laga, sem tendraður var á Alþingi 930, þar sem íbúar landsins sammæltust um að lúta lögum en ekki hnefarétti og að lögin skyldu vera mótuð af fólkinu sem landið byggir. Við getum ekki látið það gerast á okkar æviskeiði að Íslendingar afsali sér þessum fæðingarrétti sínum, þ.e. að fá að vera frjáls þjóð í frjálsu landi sem setur sín eigin lög og nýtur sjálfsákvörðunarréttar út á við og inn á við, hvort sem er um verndun og nýtingu nátturunnar eða um forgangsröðun innan lands.

Ísland þarf á þér að halda. Láttu rödd þína heyrast. Talaðu við þingmenn þína. Ræddu við fjölskyldu og vini. Við erum frjálsir menn (konur eru líka menn) en ekki lauf í vindi.

Góðar stundir. B35 1205


Þakkir.

Ástæða er til að þakka öllum þeim sem mættu á fundinn vegna bókunar 35 í gær. Þótt fundurinn hafi verið boðaður með mjög stuttum fyrirvara var fundarsókn ótrúlega góð á nútímamælikvarða: Fundinn sátu milli 50 og 60 manns. Margir tóku til máls og einhugur ríkti um það að Alþingi ætti að setja þetta frumvarp utanríkisráðherra ofan í skúffu, sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin undirbýr nú þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild. 

Upptaka frá fundinum verður vonandi birt hér innan skamms.fundur 1305


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband