Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá

Í framhaldi af grein Óla Björns Kárasonar í gær og ádrepu eftir Jón Steinar Gunnlaugsson sem birtist á FB fyrir nokkrum dögum [sjá https://www.facebook.com/permalink.php... ] birti ég eftirfarandi grein í Morgunblaðinu í dag sem framlag til þessarar mikilvægu umræðu. Hlutverk þingflokks Sjálfstæðisflokksins er að verja sjálfstæðisstefnuna og framfylgja henni. Ég er ekki einn um það að telja flokkinn hafa hörfað allt of langt út á vinstri vænginn. Þaðan er hvorki hægt að verja sitt eigið mark, né sækja fram á breiðum grunni. Ósk mín er sú að Sjálfstæðismenn finni hjá sér styrk og þor til að framfylgja stefnu flokksins, ekki aðeins í orði, heldur einnig í verki.

Hér er texti greinarinnar: 

Í Morgunblaðsgrein í gær, 19. júlí 2023, gerir Óli Björn Kárason,  þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sjálfstæðisstefnuna að umfjöllunarefni. Óli Björn er góður penni og vert er að þakka honum fyrir ambl200723ð beina athygli lesenda að þeim góða grundvelli sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Grunnviðmið eru mikilvæg, því stefnumörkun miðast við þau, en missi menn sjónar á gildum sínum er voðinn vís. Af öllu framangreindu leiðir að það er skylda kjósenda að hafa eftirlit með því hvernig kjörnum fulltrúum gengur að framfylgja stefnunni. Í anda þeirra sjónarmiða sem Óli Björn nefnir í grein sinni, hef ég talið ástæðu til að spyrja hvort forysta flokksins og meirihluti þingflokks hans hafi tapað áttavitanum og týnt stefnunni, gleymt tilgangi sínum, orðið viðskila við hlutverk sitt og glatað þeirri framtíðarsýn sem sjálfstæðisstefnan birtir. Í flokki sem aðhyllist málfrelsi er ekki bannað að spyrja slíkra spurninga og kalla eftir svörum.

Ekki er óeðlilegt þótt almennir sjálfstæðismenn, undirritaður þar á meðal, geri athugasemdir við útþenslu ríkisins á vakt flokksins, andmæli frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35, skori á þingflokkinn að standa gegn aðgerðaáætlun forsætisráðherra gegn tjáningarfrelsinu, mótmæli skattahækkunum og kalli eftir því að þingmenn standi tryggan vörð um fullveldi Íslands og stjórnarskrá lýðveldisins.  

Sjálfstæðisstefnan er dýrmæt perla sem kjörnum fulltrúum ber að verja og fægja í verki, en ekki með innantómum frösum. Hafandi fylgst náið með framgöngu kjörinna þingfulltrúa hef ég vissar áhyggjur af því að sjálfstæðisstefnan margumtalaða sé að verða að innantómu gluggaskrauti í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Ef mönnum er umhugað um að gæða stefnuna lífi þarf að sýna það í verki. Ég skora á þingmenn flokksins að ganga þar fremstir í flokki. 


Verðugir handhafar sjálfstæðisstefnunnar?

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksns skrifar grein í Morgunblaðið í dag um sjálfstæðisstefnuna. Vert er að þakka þessa grein eins og allar aðrar sem vekja athygli á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Mikilvægara er þó að menn hyggi að því hvernig kjörnum fulltrúum þessa ágæta flokks gengur að framfylgja stefnunni. Að mínu mati hefur, á síðustu misserum, verið full ástæða til að spyrja hvort forysta flokksins og meirihluti þingflokks hans hafi tapað áttavitanum og týnt stefnunni, gleymt tilgangi sínum, orðið viðskila við hlutverk sitt og glatað allri framtíðarsýn. Óli Björn og aðrir Sjálfstæðismenn mættu gjarnan spyrja sig oftar hvort þeir standi tryggan vörð um fullveldið. Ég ætla að lesa grein ÓBK aftur nú á eftir. Þangað til læt ég nægja að birta hér fundargerð aðalfundar Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál, sem haldinn var fyrir nokkrum dögum, en það félag var sérstaklega stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á.  


Um hvað snúast íslensk stjórnmál?

Með hverjum deginum verður erfiðara að svara ofangreindri spurningu. Formaður VG er orðinn sérstakur stuðningsmaður Nato og hlær á fundum erlendis, á meðan þingflokkur Sjálfstæðisflokksins situr heima og stuðlar að skattahækkunum á fyrirtæki.

Til að ná langt í stjórnmálum þurfa menn að læra að segja eitt og gera eitthvað allt annað. Dæmi: Vegsama lýðræðið en innleiða reglur sem ekki eiga sér lýðræðislega rót og ekki hafa verið ræddar á Alþingi. Mæra fjölbreytileika, en gagnrýna alla sem hugsa sjálfstætt. Tala fyrir umburðarlyndi en kalla eftir útilokun þeirra sem ganga ekki í takt. Tala um friðsamleg samskipti þjóða, en fjármagna um leið stríðsrekstur. Lofsama almenna menntun, en leyfa innrætingu í skólum. Tala um mikilvægi frjálsra fjölmiðla, en nota almannafé til að gera þá að málpípum stjórnvalda.

Í þessu ljósi er kannski rétt að ítreka að bókin „1984“ var viðvörun, ekki leiðbeiningarrit.


Stjórnmálin í sinni verstu mynd

Ríkisstjórnarflokkarnir eru komnir í sjálfheldu. Bakland stjórnarflokkanna er orðið órólegt og kjósendur þeirra eru, skiljanlega, óánægðir með „störf“ ráðherra sinna. Hér eru gæsalappir viðeigandi því hér hefur flest verið látið reka á reiðanum síðustu misseri.

Meðan vandamálin hlaðast upp innanlands er gott að geta sótt ráðherrafundi erlendis og hitta þar góða ,,kollega“ sem hægt er að faðma og kyssa, því jafnvel á flokksráðstefnum heima fyrir finnst ekki slík þægileg samstaða og skilningur. Þessi láréttu tengsl virðast vera farin að skipta ráðamenn meira máli en lóðréttu tengslin við kjósendur sína. Fyrir kjósendur VG hlýtur að vera óþægilegt að sjá forsætisráðherrann skellihlæjandi á NATO fundum, þar sem olíu er hellt á ófriðarbálið í Úkraínu.

Starfhæf ríkisstjórn vinnur saman sem ein heild, en starfar ekki í deildum eins og núverandi ríkisstjórn virðist nú að gera til að framlengja líf sitt. Mótsagnakennd framganga ráðherranna mun á endanum magna upp slíkt óþol á alla kanta að stjórnin mun springa með hvelli. Þau endalok óttast atvinnustjórnmálamenn stjórnarflokkanna mjög enda er fyrirsjáanlegt að þeim verður refsað í næstu kosningum. Í örvæntingu sinni reyna ráðherrar að friða kjósendur sína með dyggðaflöggun, sbr. frumhlaup matvælaráðherrans í hvalveiðimálum og frumhlaup utanríkisráðherrans með lokun sendiráðs Íslands í Moskvu.

Eftir því sem þetta ástand varir lengur, þeim mun óvinsælli verða ríkisstjórnarflokkarnir. Í beinu samræmi við þetta mun vaxa tregða meðal allra þessara flokka við það að slíta stjórninni, því ekki blasir við hvernig komast megi hjá kosningum í framhaldi, enda eru aðrir flokkar ýmist óstjórntækir eða áhugasamir um að láta kjósa á ný í von um að fá vind í sin segl.

Af öllu framangreindu leiðir, að meðan núverandi ástand helst óbreytt munu íslensk stjórnmál birtast okkur í sinni verstu mynd. 


Varhugaverður woke-ismi

Í viðtalsþætti hjá Sölva Tryggvasyni, sem tekinn var upp í gær og verður væntanlega birtur á næstu dögum, ræddi ég m.a. um woke-menningarbyltinguna (ný-marxismann) sem daglega heggur í undirstöður vestrænna samfélaga. Woke-isminn miðar að því að eyðileggja vestræna menningu innan frá og koma á fót annars konar samfélagsgerð, þar sem öllu verður skipt jafnt í anda kommúnisma, en frelsi borgaranna um leið verulega skert. Samtal okkar Sölva barst að því hvernig stöðugt er vegið að dómgreind fólks með því að segja okkur að 2+2 séu ekki 4. Heilbrigð skynsemi segir okkur að gera verði greinarmun á staðreyndum og líðan. Því er varhugavert að halda þeirri hugmyndafræði á lofti að menn geti skilgreint sig sem dýr eða valið sér kyn með aðstoð læknavísinda og lyfjaiðnaðarins. Woke-isminn beitir sífelldum ögrunum, sem málsvarar hans krefjast að allir láti yfir sig ganga, svo sem að karlmenn, sem skilgreina sig sem konu, geti gengið um kvennaklefann í sundlaugum. Woke-isminn leiðir af sér alls konar þversagnir og hræsni sem veldur óstöðugleika og grefur undan trausti fólks á sjálfu sér og undirstöðum þjóðfélagsins. 

Í þættinum velti ég einnig fyrir mér hvernig ríkisstjórnin er uppfull af mótsögnum, sbr. það að ráðherrar geti á sama tíma haft svo miklar áhyggjur af því hvernig hvalir eru aflífaðir að lagt sé (ólögmætt) bann við hvalveiðum, en á sama tíma sé verið að senda fjármuni og vopn til Úkraínu, vitandi um skelfilegar afleiðingar vígbúnaðarins á dýrmæt mannslíf. 

,,Þvi lengur sem ég lifi, því líklegra finnst mér að jörðin sé notuð af öðrum plánetum sem geðveikrahæli." (George Bernard Shaw)


Stokkhólmsheilkennið?

Gullhúðunarárátta Íslendinga birtist ekki aðeins í beinu fjárhagslegu tjóni íslenskra fyrirtækja, heldur einnig í duldum kostnaði hjá íslenskum yfirvöldum sem dunda sér við að prjóna við erlent regluverk og íþyngja þannig íslensku atvinnulífi.

Samtöl mín við persónur og leikendur á þessu sviði fylla mig engri bjartsýni: 

- Þegar íslensk yfirvöld eru gagnrýnd fyrir að algjörlega bremsulausa innleiðingu á EES reglum eru svörin þau að þetta sé ,,alls ekki stjórnlaust"(!), því reglurnar fái vandaða umræðu / meðferð. Eins og fram kemur í viðtalinu við Öglu Eir er innleiðingarkerfið okkur fremur til skaða en til bóta. Tölfræðin talar sínu máli: Íslendingar hafa aldrei beitt neitunarvaldi í bráðum 30 ára sögu EES samningsins!

- Í gær hitti ég atvinnurekanda sem býr við þetta umhverfi og hefur horft á regluverkið verða stöðugt þéttara og ógagnsærra sl. áratugi. Eina tillaga hans var sú að Íslendingar hætti gullhúðun og innleiði reglurnar bara eins og þær koma frá ESB. Í mínum huga ber slíkt hugarfar ekki vott um andóf, heldur uppgjöf gagnvart skrifræðinu og stimplaveldinu.  

Merkum áfanga væri náð ef Íslendingar gætu viðurkennt að EES ,,samstarfið" í núverandi mynd hefur þvingað okkur inn í áhorfandahlutverk, þar sem við höfum engin áhrif á reglurnar önnur en í mesta lagi að gera þær verri. Launaðir embættismenn okkar (þ.m.t. þingmenn) föndra við reglurnar án þess að geta breytt þeim okkur til hagsbóta, hafnað þeim eða afnumið.

Samantekt

Myndin birtist hér að framan er grafalvarleg í lýðræðislegu og stjórnskipulegu samhengi og hún mun versna til mikilla muna ef Alþingi ætlar að samþykkja frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Íslendingum er samkvæmt þessu ætlað að búa við löggjöf sem stendur ofar gagnrýni, ofar allri umræðu. Við eigum að sætta okkur við það að hér sé orðið til einhvers konar lögmálskerfi, þar sem erlendar valdastofnannir sendi reglur í pósti, án aðkomu kjörinna fulltrúa Íslendinga, án nauðsynlegrar valdtemprunar, án skynsamlegs aðhalds og án möguleika á eðlilegri aðlögun gagnvart íslenskum aðstæðum og íslenskum hagsmunum. Ef Íslendingar ætla að vera sjálfstæð þjóð meðal þjóða geta þeir ekki sætt sig við stjórnskipulag sem hallar svona grímulaust á okkar hag. 

Ekki nema við séum illa haldin af Stokkhólmsheilkenninu. 

 


mbl.is Íþyngjandi regluverk læðist inn og fitnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framhaldsumræða

Allir kjörnir þingmenn hafa unnið drengskaparheit að stjórnarskránni og ber á þeim grundvelli að standa vörð um íslenska lýðveldið og lýðræðislegt stjórnarfar með öllu sem í því felst, þ.m.t. um málfrelsið. 

Af þessu leiðir að engum þingmanni leyfist að grafa undan framangreindum burðarstoðum samfélagsins, hvorki með stuðningi við valdframsal til erlendra stofnana né með ,,aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu" sem miðar að því að takmarka möguleika fólks á því að orða hugsun sína og gagnrýna ráðandi öfl. 

Þótt framangreint gildi sannarlega um alla þingfulltrúa tel ég að þingmenn Sjálfstæðisflokksins beri sérstaklega ríkar skyldur í þessu samhengi. Eftir að hafa átt samtöl við þingmenn allra flokka á fundi utanríkismálanefndar síðasta mánuði tel ég ljóst að fæstir þeirra eru vakandi fyrir þeim ólýðræðislegu straumum sem dynja á okkur þessi misserin. 

Kannski er eina leiðin til að vekja þingmenn sú, að vekja almenning. Í þeim tilgangi mun ég, ásamt öðrum, standa fyrir málfundum í ágústmánuði, á nokkrum stöðum víðs vegar um landið, a.m.k. á Akureyri, Selfossi og Egilsstöðum, áður en fundað verður á höfuðborgarsvæðinu. 

Ef eitthvert líf er í Sjálfstæðisfélögunum víðsvegar um landið gætu þau boðist til að auglýsa slíka fundi. Þar verður rætt um sjálfstæðisstefnuna, tilgang Sjálfstæðisflokksins og verk núverandi þingflokks lögð á þær vogarskálar. Fundirnir eru hugsaðir sem hvatning og málefnaleg gagnrýni, þar sem ekki verður vegið að persónum. Sem fyrr eru þingmenn hvattir til að sækja þessa fundi og standa fyrir sínu máli. 


Sjálfsmorðsleiðangur Sjálfstæðisflokksins?

Í sögulegu tilliti hefur Sjálfstæðisflokkurinn sótt kjarnafylgi sitt til þeirra sem umhugað er um það að hér búi frjáls þjóð í frjálsu landi. Ef þingflokkur XD hyggst halda áfram stuðningi við frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 væri hann með því að hrekja frá sér sína dyggustu stuðningsmenn. Það hefði þær afleiðingar að flokkurinn myndi endanlega missa sérstöðu sína sem kjölfestuflokkur íslenskra stjórnmála og yrði einn af mörgum smáflokkum.

Með því að taka upp stefnumál Samfylkingar / Viðreisnar / annarra vinstri flokka um ólýðræðislega lagasetningu, miðstýrt og fjarlægt vald, aukin áhrif erlendra eftirlitsstofnana, vald án ábyrgðar o.s.frv. þá eykur Sjálfstæðisflokkurinn ekki fylgi sitt heldur minnkar það. Enginn þarf að ímynda sér að vinstri menn muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn, sama hversu "woke" þingflokkur hans þykist ætla að vera eða hversu langt til vinstri flokkurinn vill seilast sem ,,breiðfylking". 

Í stjórnmálum velja kjósendur flokka út frá grundvallarstefnu þeirra. Þegar þingmenn missa sjónar á grunnviðmiðum sínum þurfa þeir hjálp til að rata aftur heim.

Á fjölmennum fundi Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál í gær var einhugur um það að forða verði Sjálfstæðisflokknum frá skipbroti. Fundarmenn voru sammála um að koma verði flokknum út úr þeirri hafvillu sem hann hefur ratað í og afstýra því að hann verði í stöðugri tilvistarkreppu og þreytandi eftirsókn eftir stundarvinsældum. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að standa undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar: Hér þarf aukið aðhald í ríkisfjármálum. Koma þarf stjórn á innflytjendamálin áður en þau sliga hér innviði, þ.m.t. heilbrigðiskerfi, menntakerfi, húsnæðismál og löggæslu. Standa ber vörð um okkar kristna menningararf og íslenska tungu, efla trú þjóðarinnar á getu okkar til að stjórna okkur sjálf og taka ábyrgð á eigin framtíð. Sjálfstæðisflokkurinn verður að sýna aukið mótvægi við vinstri stefnuna sem verið hefur hér allsráðandi síðustu ár og sýna þar með að flokkurinn þjóni kjósendum sínum og hafi tilgang, annan en að skaffa þingmönnum vinnu og reka flokksskrifstofu. Flokkurinn þarf að hætta að sýna hér þjónkun við háværan minnihluta og standa vörð um sína góðu grunnstefnu. Hinn þögli meirihluti þarf að finna kjark til að tjá sig. 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til að standa undir þessu hlutverki sínu er óhjákvæmilegt að til verði nýr flokkur hægra megin við miðju, sem mun taka upp þann kyndil klassísks frjálslyndis og hófstillts íhalds, sem Sjálfstæðisflokkur nútímans virðist vera að leggja frá sér. Hefur Sjálstæðisflokkurinn efni á að slíkur klofningur verði?  


Fundarboð, 11.7. kl. 17.

Á morgun, 11. júlí kl. 17:00, verður aðalfundur Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál, en félagið var stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Meðan flokksforystan og þingflokkurinn veigra sér við að leggja rækt við þessar rætur, þá hefur FSF brýnu hlutverki að gegna.
Ég geri ráð fyrir að ávarpa fundinn á morgun og biðja fundarmenn að íhuga þá vegferð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á síðustu ár í átt til þess að verða einhvers konar sósíaldemókratískur ESB-flokkur, sem með athöfnum sínum (og athafnaleysi) heggur á hugmyndafræðilegar rætur sínar og lýðræðisþráðinn sem réttlætir tilvist hans, í skiptum fyrir þýlyndi og undirgefni við yfirþjóðlegt vald.
FSF110723
Æskilegt væri að sem flestir sæki fundinn og tjái þar hug sinn, t.d. til þess hvernig réttlæta megi frumvarp um bókun 35 gagnvart sjálfstæðisstefnunni og hvernig á því standi að þingflokkurinn sé afskiptalaus um atlögu forsætisráðherra að málfrelsinu, sbr. svonefnda aðgerðaáætlun um hatursorðræðu. Þetta eru samviskuspurningar sem varpa þarf fram eins og blýsökku til að kanna hvort núverandi þingflokkur sæki hugmyndir sínar á djúpmið eða grunnsævi. Þingmenn flokksins eru sérstaklega hvattir til að mæta og standa fyrir máli sínu.
 
 
 

Skuggarnir lýstir upp

Svona sólbjartur og hlýr sumardagur er best nýttur í að endurnýja trú sína á mannkynið og vonina um betri tíma þar sem m.a. verður unnt að betrumbæta stjórnkerfið sem við búum við í dag. Þegar ég lít til baka yfir atburði síðustu ára eru þar nokkrar myndir sem ég vildi gjarnan geta losnað við úr undirvitundinni:   

Dæmi: 

- Í miðbæ Akureyrar, undir berum himni, mætti ég flóttalegum, fullorðnum manni með taugrímu í þykku skegginu, sem skömmu fyrir kófið hafði, á tónleikum með Dúndurfréttum, sungið með fullnum sal tónleikagesta texta Rage against the machine af sjáanlegri innlifun og með hnefann á lofti: ,,F... you, I won´t do what you tell me!". 

- Vinafólk mitt sem telur sig frjálslynt og réttsýnt birti myndir af sér á ferðalagi um mið-Evrópu þar sem þau sýndu, hróðug, bóluefnapassa sína til að vekja athygli á að nú hefðu þau sýnt gott fordæmi í hlýðni við stjórnvöld og kæmust óhindrað til útlanda, á listasöfn, leikhús o.fl.

- þegar starfsmaður í Borgarleikhúsinu vildi setja á mig límmiða til að votta það að ég væri ,,hreinn" og mætti ganga um leyfð rými hússins sem afmörkuð voru með plastsnúrum

- þegar kollegar mínir í dómarafélaginu vildu setja höft á lögmæta tjáningu mína, sem öll var rituð til varnar lýðræðislegum stjórnarháttum og efnislegu réttarríki 

- þegar ég, sem lögmaður, sá fulltrúa ákæruvalds varpa frá sér hlutlægnisskyldu og faðma kæranda eins og lögmaður viðkomandi

- þegar ég áttaði mig á því að frjáls hugsun á sér ekki öruggt athvarf í háskólaumhverfinu

- þegar forseti lýðveldisins notaði ræðustól Alþingis til að sneiða að óvinsælum þjóðfélagshópi með því að tala um ,,rangsnúinn rétt" þeirra til að smita. Þessi orð hefur forsetinn ekki útskýrt og ekki beðist afsökunar á. Fram að þessu hafði ég í einfeldni talið að hlutverk forseta væri að sameina þjóðina, ekki að sundra henni

- þegar ég áttaði mig á að þingmenn og ráðherrar veita erlendum stofnunum ekkert raunverulegt viðnám 

- þegar ritstjóri Fréttablaðsis boðaði aðskilnaðarstefnu í leiðara blaðsins 13. nóvember 2021

- þegar myndir birtust af lögreglumönnum að berja hús að utan til að telja fjölda gesta

- þegar fólk sat eitt í bílum sínum með grímur fyrir andlitinu

Hver er lærdómur síðustu missera? Trúum við öllu sem við heyrum og sjáum? Eitt er að trúa öllu gagnrýnislaust og hlýða. En hvað með þá sem trúa ekki en hlýða samt? Snýst lífið um að halda ytri ,,standard"? Ég hefði haldið að innri ,,standardinn" sé mikilvægari, þ.e. heilindi og hrein samviska.

Ég skrifa þetta með hugann við alla þá sem senda mér, nánast daglega, skilaboð og segjast vera sammála mér en þora ekki að tjá sig, þora ekki að sýna öðrum hver þau eru, hvað þau hugsa, hvað þeim finnst. 

Í samfélagi sem stöðugt dásamar umburðarlyndi, náungakærleika og fjölbreytni er súrt að standa frammi fyrir því að í reynd er reynt að útskúfa, útiloka og þagga niður í þeim sem vilja iðka gagnrýna hugsun, hlýða ekki fyrirvaralaust, spyrja málefnalegra spurninga, standa með sannfæringu sinni, samvisku og trú. 

Við hljótum að geta gert betur. Ert þú að nota þína eigin rödd, þitt eigið málfrelsi, eða siturðu þegjandi á kantinum og vonar að aðrir ,,reddi" málunum? Ef þú vilt forða samfélaginu frá því að verða alræði, harðstjórn og kúgun að bráð, þá verður þú að axla ábyrgð og taka þátt í að byggja upp og verja frjálsa samfélagsgerð. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband