Íslendingar eru að vakna

Í grófum dráttum mætti segja að pólitísk umræða milli hægri og vinstri snúist um það hvort setja beri skorður á valdbeitingu ríkisins (því reynslan sýni að fæstir kunna að fara með vald) eða hvort sleppa beri valdinu lausu (því valdbeiting ríkisins stuðli að öryggi / framförum / betri lífsgæðum). Íslendingar hafa gleymt (eða ekki meðtekið) að allar hörmungar 20. aldar voru afleiðingar ofurtrúar á mátt ríkisvalds til að endurskapa samfélög frá grunni. 

Hér þarf ekki að fara út í neinar sögulegar eða heimspekilegar pælingar: Mörkin milli hægri og vinstri snúast í raun um það hvort lögin eigi að vernda almenning gagnvart ríkisvaldinu eða hvort þau eigi að auðvelda ríkinu að ráðskast með fólk. 

Lýðræðinu er ætlað að vera trygging almennings, þannig að við getum verið örugg um það að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð. Stjórnarskráin á að verja frelsi hvers einasta borgara, þ.m.t. málfrelsi, fundafrelsi, friðhelgi heimilis o.s.frv. 

Átakalínurnar hafa orðið skýrari á síðustu misserum. Í "kófinu" afhjúpuðu nánast allir stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar sig sem talsmenn þess að ríkisvaldinu yrði leyft að skerða frelsi einstaklinga í þágu "öryggis". Nú vill þetta sama fólk efla "öryggi" Íslendinga með því að ofurselja okkur risavöxnu ríkisbákni í Brussel.     

Verður lýðræðið okkur til bjargar? Er von til þess að við munum geta átt hér þróttmikla umræðu um alla þætti þeirra álitaefna sem hér koma til skoðunar? Það tókst ekki í "kófinu" og meðan fjölmiðlaumhverfi á Íslandi er háð ríkisvaldinu um framfærslu munum við áfram sjá þrengt að pólitískri umræðu, því ef líkja má pólitík við ás frá 1 til 10, þá má hún í reynd aðeins eiga sér stað milli ca. 3,5 og 5,5. Þeir sem vilja vera málsvarar einstaklingfrelsisins, takmarkaðs ríkisvalds, sjálfsákvörðunarréttar, málfrelsis, fullveldis o.s.frv. mega vænta þess að vera sakaðir um "öfgar", þótt málflutningur þeirra sé algjörlega klassískur, öfgalaus og sé í raun nauðsynlegt mótvægi við þá ríkisvæddu, kreddubundnu hugmyndafræði sem sýkt hefur alla þingflokka á Alþingi (þar sem allir eru mið- eða vinstri flokkar), alla (ríkisstyrkta) fjölmiðla, allar ríkisstofnanir o.s.frv.   

Frammi fyrir þessu er bara eitt til ráða: Við þurfum að pólitíska vakningu. Sú vakning er reyndar þegar hafin - og hún verður ekki stöðvuð, því þegar menn eru einu sinni vaknaðir til þessarar nýju vitundar er ekki hægt að svæfa þá aftur. Sá sem þetta ritar er lifandi sönnun þess.


Lágpunktur í sögu Alþingis: Óvirðing við lýðræðislegar hefðir, gegn stjórnarskrá, trúnaðarbrot gagnvart kjósendum.

Frumvarpið um bókun 35 er líklega mesti smánarblettur sem fallið hefur á Alþingi frá stofnun lýðveldisins árið 1944. 

Útskýring: Þingmenn fara með löggjafarvald í umboði íslensku þjóðarinnar og eru þannig í raun umboðsmenn kjósenda sinna, kosnir til að gæta hagsmuna þeirra á Alþingi. Eins og aðrir umboðsmenn starfa þingmenn á grunni persónulegs trausts, þ.e. þeim hefur verið treyst fyrir þessari ábyrgð á grundvelli þess að þingmaðurinn auðsýni heilindi, noti alla sína dómgreind og svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum sínum. (Þetta á einnig við um varaþingmenn sem kjörnir hafa verið til að koma inn á Alþingi í forföllum þingmanna). 

Grundvallarregla í íslenskum, norrænum, engil-saxneskum og Rómarrétti, er sú að umboðsmaður getur ekki afhent umboð sitt öðrum manni án yfirlýsts samþykkis umbjóðandans (í þessu tilviki kjósandans). 

Þetta þýðir að þingmenn geta ekki afhent öðrum umboð til að koma fram sem handhafar íslensks löggjafarvalds. Þeim er m.ö.o. óheimilt að afhenda öðrum vald til að taka þátt í umræðum um fyrirhuguð lög, þeim er óheimilt að afhenda öðrum vald til að kjósa um lög sem eiga að gilda á Íslandi og þeim er óheimilt að afhenda öðrum ákvörðunarvald um efni og innihald lagareglna sem gilda eiga hérlendis. 

Ástæðan er sú að allar þessar skyldur verða þingmenn að annast persónulega enda hafa þeir verið persónulega kosnir til þess - og bera persónulega ábyrgð gagnvart kjósendum á grundvelli þess trausts sem kjósendur hafa sýnt þeim. Lög um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 undirstrika þetta: Enginn má taka til máls í umræðum á Alþingi nema þeir sem löglega hafa verið kjörnir til þingmennsku.  

Í stuttu máli snýst þetta um persónulega ábyrgð þingmanna við kjósendur sína, um virðingu við lýðræðislegar hefðir, um aldagamlar meginreglur laga um hlutverk og skyldur umboðsmanna - og síðast en ekki síst - um það drengskaparheit sem þingmenn hafa sjálfir undirritað, sbr. 47. gr. stjskr., sem felur í sér yfirlýsingu um að viðkomandi skuldbindi sig til að virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins. 

Allt er þetta til áminningar um og staðfestingar á að frumvarpið um bókun 35 er hreinasta ósvinna, dónaskapur við kjósendur, ósvífni gagnvart lýðveldinu, óvirðing við stjórnarskrána, brot á þeim skyldum sem þingmenn (og ráðherrar) hafa persónulega skuldbundið sig til að sinna og virða. 

 

 

 


Ætlum við að bregðast komandi kynslóðum?

  • Stjórnarskrá lýðveldisins byggir á þeim grunni að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni. Í þessu felst m.a. að lögin stafa frá vilja þjóðarinnar en ekki geðþótta valdhafa.
  • Þetta er til áminningar um að ríkisvaldið skal vera takmarkað: Sömu aðilar mega ekki semja lögin / setja þau og framkvæma lögin.
  • Handhafar valdsins bera ábyrgð gagnvart valdhafanum, sem er íslenska þjóðin (ekki ESB / Nato / SÞ).
  • Vald sem ekki er takmarkað umbreytist, fyrr eða síðar, í óheft vald sem ógnar öllu og öllum. 
  • Samkvæmt íslenskri réttarhefð eru lögin sett til að stuðla að réttlæti (að hver og einn fái það sem hann verðskuldar). Á sama grunni miðar málsmeðferð fyrir dómi að því að leita sannleikans. 
  • Stjórnarskráin var sett til að setja ríkisvaldinu skorður og reisa varnargarða í kringum frelsi borgaranna. 
  • Stjórnarskráin miðar þannig að því að koma í veg fyrir að ríkisvaldið setji reglur og noti þær til að berja á almenningi.  
  • Nú standa Íslendingar frammi fyrir því að verið er að reyna að umbylta lögum Íslands og stjórnarfari með því að framselja lagasetningarvaldið frá kjörnum fulltrúum Íslendinga á Alþingi til starfsmanna hjá framkvæmdavaldi ESB í Brussel.
  • Sjálfstæði, sjálfsstjórn, fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur: Allt þetta byggir á þeirri undirstöðu að ENGIR AÐRIR en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar (valdhafans) semji og setji lögin í landinu, m.ö.o. að ALLT LÖGGJAFARVALD sé í höndum kjörinna þingfulltrúa þjóðarinnar.
  • Þetta byggir á þeirri undirstöðu að lögin stafa frá fólkinu í landinu ekki frá geðþótta valdhafans. Ætli menn að hörfa af þessum grunni, þá ráðum við ekki lengur okkar eigin för.   
  • Forn meginregla í germönskum rétti, sem á sér samsvörun í kirkjurétti o.fl., er að sá sem fer með vald í umboði annarra (þingmenn í umboði þjóðarinnar) getur ekki framselt það vald í hendur annars manns (t.d. til ESB), sbr. lat. Delegata potestas non potest delega). Þetta þýðir m.ö.o. að Alþingi hefur ekkert umboð til að víkja sér undan ábyrgð sinni gagnvart umbjóðanda sínum / valdhafanum / þjóðinni og framselja erlendri valdastofnun lagasetningarvald sitt. 
  • Niðurstaða: Þjóðin getur ekki orðið bundin af öðrum lögum en þeim sem sett eru af kjörnum fulltrúum hennar.  

Við sem nú lifum höfum enga heimild til að skerða frelsi komandi kynslóða, veikja stjórnarfarið í landinu, skemma lykilstofnanir lýðveldisins, grafa undan frelsi Íslendinga og möguleikum afkomenda okkar til sjálfsákvörðunar. 


25 cm árið 1993, 4 hillumetrar nú.

Íslenskir stjórnmálamenn virðast flestir haldnir einhvers konar EES-blæti og tala eins og allt muni fara hér á hvolf ef við "virðum" ekki "skuldbindingar okkar" samkvæmt samningnum. Svona hefur m.a. nýr formaður Sjálfstæðisflokksins talað í ræðustól Alþingis um frumvarpið um bókun 35. 

Frammi fyrir þessu skulum við hafa eitt á hreinu: Ísland gerði efnahagslegan samning við EB árið 1993. Á þeim forsendum taldist EES naumlega standast kröfur stjórnarskrárinnar, þar sem valdaframsal samkvæmt samningnum væri takmarkað og á afmörkuðum sviðum. 

Nú hefur gagnaðilinn stökkbreyst í pólitískt bandalag (ESB) sem gerir sífellt auknar pólitískar og lagalegar samræmingarkröfur til Íslands. 

Þegar Íslendingar gerðu samninginn er áætlað að heildarregluverkið sem Íslendingar bjuggu við hafi verið 4-5 þúsund blaðsíður (25 cm. í bókahillu). Nú, rúmlega 30 árum síðar, er áætlað er blaðsíðufjöldi regluverksins sé á bilinu 60-80 þúsund (4 hillumetrar!). Inni í þessu eru þúsundir lagalegra "skuldbindinga" sem Íslendingar hafa undirgengist blindandi, þ.e. án nægilegrar umræðu og án viðeigandi aðgæslu, enda er viðurkennt að hagsmunagæsla Íslands hafi ekki verið nándar nærri góð. 

EES er ekki heilög kýr. Löngu er tímabært að gerð sé heiðarleg úttekt á kostum samningsins og göllum, þ.m.t. óhagræði fyrirtækja af því að búa við flókið og ógagnsætt regluverk - og þeim göllum sem í því felast að reglur sem gilda hér séu samdar erlendis og að íslensk stjórnmál séu í hugrænni gíslingu erlendra stofnana, sem gera kröfu um það að Íslendingar (og þó sérstaklega íslenskir stjórnmálamenn) endurtaki í sífellu að okkur "beri" að "virða skuldbindingar okkar samkvæmt EES" sem þanist hafa út eftir að samningurinn var undirritaður og enginn íslenskur stjórnmálamaður sér lengur til botns í. 

P.S. Öldum saman létu menn sér duga 10 boðorð - og ef menn hefðu vit á því (og siðferðilegt þrek til) að fylgja þeim reglum sem þar birtast, þá værum við laus við sífellt uppnám og æsifréttir, skrifræðisbákn væru óþörf og lífið vafalaust talsvert einfaldara! 

 

 

  


Kófið var spegill á okkar innri mann

Hér er félagsfræðileg kenning sem sennilega sannar sig sjálf: "Orð þín og athafnir í kófinu, sýna hver þú ert í raun og veru". Fyrir hönd höfundar biðst ég forláts á óheflaðri orðnotkun hans, en honum til hróss má þó segja að hann fer ekki í kringum hlutina eins og "grautur í kringum heitan kött". 

  • Trúðir þú fréttaflutningi fjölmiðla gagnrýnislaust (og gerir kannski enn)?
  • Framfylgdirðu fyrirmælum í blindni?
  • Treystirðu sérfræðingum fremur en þinni eigin dómgreind?
  • Varstu í flokknum sem stoltur gerði slagorðið "hlýðum Víði" að sínu? Dáðir þú þríeykið og hafðir allt þitt vit frá þeim?
  • Fylgdistu með "upplýsingafundunum" reglulega og skipulagðir líf þitt út frá þeim?
  • Veittirðu hagsmunaaðilum (lyfjafyrirtækjum) óheftan aðgang að líkama þínum í skiptum fyrir brauðmola (tímabundið ferðafrelsi)?
  • Varstu einn af þeim sem fordæmdir efasemdamenn sem "samsæringa"?
  • Telurðu enn að C19 hafi verið stórhættuleg drepsótt sem réttlætti að stjórnarskráin og almenn mannréttindi væru tekin úr sambandi?
  • Taldirðu neyðarástandi slíkt að rétt væri að afhenda völdin fólki sem enginn hafði kosið og að landinu væri stjórnað með tilskipunum frá framkvæmdavaldinu?
  • Læddistu með veggjum eins og mús og andmæltir engu / efaðist ekki um neitt?
  • Lastu þig ekkert til um innihaldsefni / mögulegar aukaverkanir varðandi sprautulyfin?
  • Hvað fórstu í margar sprautur áður en þú komst að þeirri niðurstöðu að þú þyrftir alls ekkert á þeim að halda?

Allt eru þetta góðar spurningar til að læra að þekkja sjálfan sig - og samfélag sitt - betur.   

 


"Góðir liðsmenn" hlaupa fram af bjargbrún fremur en að skera sig úr hópnum

Í viðtalsþætti við Michael Jackson var m.a. fylgst með því þegar hann fór og keypti rándýrar ljósakrónur fyrir heimili sitt, Neverland. "Þú átt fínar ljósakrónur, af hverju viltu kaupa þessar?" Svar hans var á þá leið að allir í hans samfélagsþrepi ættu svona ljósakrónur og hann yrði að eiga þær líka til að geta boðið fólkinu heim!

Í örsamfélaginu á Íslandi eru allir í einu og sama þjóðfélagsþrepi - eða svo er okkur a.m.k. sagt. Það þýðir að enginn má skera sig úr. Ég hef þekkt menn sem alltaf keyptu sér nýjan bíl í sama lit eldri bíllinn var ... til að láta lítið bera á velgengni sinni! Í stærri samfélögum er litróf mannlífsins fjölbreyttara en á Íslandi.

Hjarðhegðun má finna innan samfélagskima en sjaldgæft er að hegðun / atferli / tíska nái til heilu þjóðanna eins og gerist iðulega hérlendis, sbr. þekkt dæmi um að allir þurfi að eiga fótanuddtæki, tiltekinn vasa, svona úlpu, þessa skó, drekka sama orkudrykkinn o.s.frv. Heildsalar í útlöndum sem skoða sölutölur út frá mannfjölda hljóta margir að hafa ímyndað sér að innflytjandinn á Íslandi sé markaðssnillingur, en ekki áttað sig á hjarðhegðuninni sem einkennir landsmenn, því Íslendingum líður best í hjörð, hóp eða flokk. Þessari hegðun fylgir margvísleg áhætta. Þetta er áhættuhegðun, því ekki er víst að flokkurinn þrammi alltaf í átt sem hentar öllum í hópnum. 

Þetta er nefnt hér í samhengi við varnaðarorð úr kveðjuræðu George Washington, sem vitnað er til hér í þessu viðtali. Washington mun hafa varað menn við því að taka flokkshollustu fram yfir hollustu við land og þjóð, því flokkar eigi það til að fara að þjóna eigin hagsmunum og þröngri valdaklíku. Í viðtalinu er fleiri viðvörunarorð að finna, t.a.m. um það hvernig fjölmiðlar, sérfræðingar og flokkar verða viðskila við þau gildi sem liggja hlutverki þeirra til grundvallar og hvernig það getur hent besta fólk að selja sálu sína. Slíkum "vitum" er ekki gott að treysta. Áminningin er klassísk: Ef við viljum lifa í frjálsu samfélagi og ef við viljum að þjóðarskútan sigli slysalaust, þá verðum við að taka ábyrgð á eigin vegferð, en ekki þramma hugsunarlaust í þá átt sem flokkurinn fer á hverjum tíma. 

Ná þessi orð til Íslendinga, sem fá þau skilaboð frá RÚV að maðurinn sem slíkt mælir sé "rugludallur"? Í örsamfélaginu búa Íslendingar kannski við fleiri hugsana-hindranir en menn í stærri þjóðfélögum, því fæstir vilja skera sig úr hópnum, ekki teljast "sérvitur", hvað þá "umdeildur". Ef allir aðrir eru byrjaðir að hlaupa þá er best að kaupa sér hlaupaskó og byrja líka!

Hjarðhegðun er eitt stærsta vandamál Íslendinga. Fylgispekt við ríkjandi hugsun gerir alla stjórn auðveldari og allt heilbrigt viðnám erfiðara. Á þetta spila stjórnvöld og ríkisreknir fjölmiðlar með þeim afleiðingum að þjóðin afneitar jafnvel augljósum sannindum svo sem þeim að kynin séu aðeins 2, karl og kona. Dietrich Bonhoeffer kallaði slíka hegðun heimsku, en sagði hana þó ekki stafa af vitsmunaskorti, heldur af siðferðilegri uppgjöf. Sú uppgjöf birtist í því að menn þora ekki að hugsa sjálfstætt ef það kostar einhvers konar óhagræði. Í þessu felst að menn afsali sér siðferðilegri ábyrgð (eins og læknarnir, fjölmiðlamennirnir og sérfræðingarnir sem RFK jr. nefnir) og ýti frá sér efasemdum í skiptum fyrir þægindin sem felast í því að vera eins og allir aðrir. 

Líta má á líf okkar sem próf. Einkunn okkar á því prófi ræðst ekki af því hversu hátt við skorum á greindarprófi, heldur því hvort við erum tilbúin til að líta inn á við og nota samvisku okkar og tala út frá sannfæringu. Það er hinn sanni prófsteinn á það hvort við höfum lifað sem menn eða sem læmingjar.

 


Veitum strandveiðisjómönnum það frelsi sem þeir þurfa

Í mínum huga og margra annarra er strandveiðisjómaðurinn táknmynd hins frjálsa manns. Það er draumi líkast að sigla sínum eigin báti út á miðin og sameina í eitt tvær af innstu tilhneigingum sérhvers karlmanns, þ.e. veiðiþrána og veðmálabakteríuna, því val á veiðistað er ávallt nokkurs konar veðmál. Því miður hafa yfirvöld á Íslandi gengið of langt í frelsisskerðingunni á þessu sviði eins og öllum öðrum. Strandveiðisjómenn mega aðeins veiða 12 daga í mánuði, þá fjóra sumarmánuði sem í boði eru, en auk þess er bannað að róa föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Þessu til viðbótar eru strandveiðar bannaðar á "rauðum dögum", þ.e. 1. maí, uppstigningardag, annan í hvítasunnu, 17. júní og á frídegi verslunarmanna. Afleiðingin af þessari forsjárhyggju stjórnvalda er sú að sjómennirnir okkar þurfa stundum að taka óhæfilega áhættu með því að róa á dögum þar sem aðstæður eru mjög krefjandi og hættulegar. Fengju strandveiðisjómenn fullt frelsi um val á þeim dögum sem þeir nota til að sækja sinn afla á miðin, þá yrði um leið dregið stórlega úr líkum á hörmulegum sjóslysum eins og því sem varð í Patreksfirði í fyrradag. Magnús Þór Hafsteinsson sem lést slysinu var mætur maður. Aðstandendum hans er vottuð samúð. Vonandi verður ótímabært andlát hans til þess að gerðar verða löngu tímabærar breytingar á regluverki um strandveiðar og frelsið til þeirra aukið, í anda Magnúsar og allra annarra sem bera frelsisþrána í brjósti.  


Þá sem ekki þekkja söguna er auðvelt að hrekja af grunninum.

Í bók Orwells, 1984, hafði söguhetjan, Winston Smith, það hlutverk að yfirfara eldri dagblöð og breyta þeim til samræmis við hagsmuni ríkjandi stjórnar. Aðgangur fólks að bókum var takmarkaður við rusl-bókmenntir, spennusögur, reifara o.s.frv. Eldri bókmenntir voru taldar háskalegar og hver sem átti slíkar bækur tók áhættu á að verða talinn hugsana-glæpamaður. 

Síðustu daga hef ég verið að endurraða bókunum mínum og margt sýnist eins og af öðrum heimi. Ljóð Davíðs Stefánssonar, Einars Ben, Hannesar Hafstein o.fl. eru yfirfull af ást til ættjarðarinnar, tungumálsins o.fl. Ritgerðir Bjarna Benediktssonar eldri fjalla um sjálfstæðisbaráttu Íslands, um sögu þjóðarinnar og menningararf. Þessar bókmenntir færu ekki vel ofan í sjálfskipaða menningarvita nútímans sem vilja reyna að kenna slíkt tal við "öfgar", sbr. m.a. skrif Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Mogganum. Í "Vókistan" leyfist okkur nefnilega að standa með öllu nema okkar eigin heimaríki, veifa öllum fánum nema okkar eigin fána og tala fallega um allar aðrar þjóðir en okkar eigin. Gamlar bækur eru ögrun við vókismann og standa í vegi fyrir "hugmyndafræðilegum hreinleika". Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið að bjarga gömlu bókunum frá því að fara í ruslið. Þær eru okkar besta vörn gegn Kolbrúnu og öðrum nútímaútgáfum af Winston Smith. George_Orwell_press_photo

E.S. Þegar allar stofnanir eru orðnar vókismanum að bráð, þ.m.t. skólarnir (og sérstaklega háskólarnir), stjórnmálaflokkarnir (þ.m.t. Sjálfstæðisflokkurinn), fjölmiðlarnir o.fl., þá er kirkjan komin á sömu vegferð undir stjórn nýrra "leiðtoga". Innan kirkjunnar eru þó til menn sem þekkja undirstöður trúarinnar of vel til að láta hrekja sig af grunninum, sbr. þetta hressilega viðtal við sr. Geir Waage, þar sem hann bendir á að kirkjan geti ekki afneitað játningu trúar á heilaga þrenningu án þess að hætta að vera evangelísk lúthersk kirkja - og þar með sé hún að stimpla sig út sem þjóðkirkja, því ríkið sé ekki skuldbundið til að styðja við sértrúarsöfnuði. Nálgun sr. Geirs er skynsamleg og hagnýt: Ríkisreknar stofnanir eiga sig ekki sjálfar. Þær voru settar á fót til að þjóna almannahag, verja sögulegan arf, standa vörð um frjálsa umræðu, hugmyndafræðilegan margbreytileika, klassískt frjálslyndi, gildin sem best hafa reynst o.s.frv. Eigi að breyta þeim í mulningsvélar til að innleiða valdboðsstjórn / ný-kommúnísma þá höfum við rétt til að hætta að fjármagna þær.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband