19.7.2025 | 07:58
Alþingi Íslendinga eða afgreiðsluskrifstofa ESB?
Veik staða Íslands gagnvart ESB á vettvangi EES er farin að grafa alvarlega undan stjórnskipun lýðveldisins okkar. Um þetta fjallar grein mín í Morgunblaðinu í dag, sem ber heitið "Alþingi Íslendinga eða afgreiðslustofnun ESB?"
Í greininni segir m.a.:
Sú þróun sem hér hefur verið lýst felur ekki í sér lagalega hagræðingu, heldur er hér um að ræða kerfisbundinn flutning á lagasetningarvaldi úr landi. Í stað þess að standa vörð um íslenska réttarhefð og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar hefur Alþingi sætt sig við það hlutskipti að gerast nokkurs konar regluvörður við færiband erlendrar reglugerðarverksmiðju. Með vísan til lagatæknilegra sjónarmiða og þess að EES-samninginn beri að vernda hefur Alþingi opnað allar flóðgáttir fyrir innstreymi reglna frá ESB í íslenskan rétt og þar með heimilað ESB afskipti af íslenskum innanríkismálum, langt umfram það sem nokkur maður sá fyrir í upphafi, þ.e. við gerð EES-samningsins. Allt þetta hefur gerst án nokkurrar raunverulegrar viðleitni til að aðlaga regluverkið íslenskum aðstæðum eða íslenskum hagsmunum. Íþyngjandi regluverk vegið að stjórnarskránni Tvenns konar afleiðingar blasa við: 1. Lagalegur óskýrleiki: Lögfræði hefur alla tíð verið snar þáttur í íslenskri menningu, en nú stöndum við frammi fyrir ofvöxnu regluverki sem stöðugt verður ógagnsærra og óaðgengilegra. Tugþúsundir blaðsíðna af reglum sem eiga uppruna sinn handan úthafsins, sem innleiddar hafa verið hér án nægilegs skýrleika og án samhengis. 2. Stjórnskipulegt niðurbrot: Alþingi fer með löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og ber á þeim grunni skylda til að annast löggjafarstarfið fyrir opnum tjöldum með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi. Með því að innleiða erlent regluverk án nægilegrar aðgæslu, án athugasemda, án þess að beita nokkurn tímann samningsbundnu neitunarvaldi sem í stuttu máli jafngildir hömlulausri innleiðingu er Alþingi að brjóta gegn anda stjórnarskrárinnar og bregðast stjórnskipulegu hlutverki sínu.
![]() |
Formgalli útskýrir af hverju umsóknin er virk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2025 | 11:58
Valkyrjurnar hafa ekki umboð til að gera Ísland að léni innan ESB
Í heimi nútímastjórnmála grípur fólk til afneitunar til að komast hjá því að þurfa að svara fyrir óþægileg mál. Komi síðar í ljós að viðkomandi stjórnmálamaður hefði átt að vita betur, þá er hægt að segja að þetta komi "mjög á óvart". Stjórnmálin líkjast sífellt meir lélegu leikhúsi þar sem handritið er óskrifaður spuni og leikararnir flestir fremur ósjarmerandi og leiðinlegir, sérstaklega "leiðtogar" ESB sem komist hafa til valda þar með því að klifra upp eftir bakinu á ráðamönnum í Þýskalandi og Frakkalandi, án lýðræðislegs umboðs.
Á Íslandi stöndum við frammi fyrir því að "valkyrjur" ríkisstjórnarinnar hafa fellt leikhúss-grímuna og afhjúpa nú daglega áhuga sinn á því að gera Ísland að léni innan ESB sem formlega mun lúta stjórn frá Brussel.
Öllum má þó vera ljóst að stjórnin hefur þegar verið flutt þar að stóru leyti, í bága við stjórnarskra Íslands, því með vísan til lagatæknilegra sjónarmiða og þess að EES samninginn beri að vernda hefur Alþingi opnað allar flóðgáttir fyrir innstreymi reglna frá ESB í íslenskan rétt og þar með heimilað ESB afskipti af íslenskum innanríkismálum, langt umfram það sem nokkur maður sá fyrir í upphafi, þ.e. við gerð EES samningsins. Allt þetta hefur gerst án nokkurrar raunverulegrar viðleitni til að aðlaga regluverkið íslenskum aðstæðum eða íslenskum hagsmunum.
Sú þróun sem hér hefur verið lýst felur ekki í sér lagalega hagræðingu, heldur er hér um að ræða kerfisbundinn flutning á lagasetningarvaldi úr landi. Í stað þess að standa vörð um íslenska réttarhefð og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar hefur Alþingi sætt sig við það hlutskipti að gerast nokkurs konar regluvörður við færiband erlendrar reglugerðarverksmiðju.
Um þetta mun ég nánar fjalla í grein sem birt verður í Morgunblaðinu á næstu dögum.
![]() |
Von der Leyen kvaðst ekki kannast við kröfuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2025 | 11:42
Jaguar: Kanarífuglinn í kolanámu bílaiðnaðarins?
Fyrir mitt leyti segi ég nei takk við allri pólitískri rétthugsun, þar sem reynt er að stýra því hvað ég má segja og skrifa, hvernig ég á að klæða mig, hvað ég má borða og hvort ég eigi að keyra díselbíl eða rafmagnsbíl. Stæði valið milli þess að velja milli sprengihreyfils og rafhlöðu þá yrði Greta Thunberg líkleg til að lýsa vonbrigðum með mitt val með orðunum "How dare you?"
Þrátt fyrir þrálátar sögusagnir um alls kyns framleiðslugalla meðan Jaguar var enn breskt fyrirtæki, þá dreymdi bílaáhugamenn um að eignast slíkan bíl með öskrandi kraftmikla bensínvél og stökkvandi kattardýri fremst á húddinu. Sá draumur okkar hélt lífinu alveg þangað til nýir stjórnendur Jaguar ákváðu að henda ímynd bílsins á ruslahauganna og endurhanna ímyndina á nýjum grunni í anda "vókismans". Afleiðingarnar eru dapurlegar fyrir alla þá sem enn hugsa hlýlega til fornrar frægðar Jaguar: 97,5% söluhrap í Evrópu úr 1.961 seldum bíl í apríl 2024 til 49 seldra bíla í apríl 2025. Í dag segir svo Daily Mail frá því að félagið sé að segja upp 500 starfsmönnum ... auðvitað algjörlega ótengt "vel heppnaðri" markaðsherferð Jaguar.
Go woke, go broke.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2025 | 09:57
Þingmenn voru upplýstir um nýtt regluverk WHO í nóvember 2023
Þessa dagana er mikið rætt um nýtt regluverk WHO sem leggur grunninn að viðamiklum valdheimildum þeirrar stofnunar þegar næsti "heimsfaraldur" skýtur upp kollinum. Þetta er nokkuð sem menn þurfa að taka mjög alvarlega í ljósi reynslunnar af Covid-19 og þeirrar valdníðslu sem framkvæmd var undir yfirskini "neyðarástands" sem snemma var þó tölfræðilega ljóst að var alls ekkert neyðarástand.
Ef / þegar Ísland verður gert áhrifa- og valdalaust á grundvelli þessara nýju reglna má bóka að þingflokkar, þingmenn og ráðherrar eru líklegir til að segja að þeim komi þetta allt á óvart og þeir hafi ekki verið varaðir við því sem hér er á ferðinni. Þá má benda þeim á að undirritaður sendi öllum alþingismönnum minnisblað í lok nóvember 2023 um hvað bæri að varast og til hvers konar andmæla rétt væri að grípa. Skemmst er frá því að segja að einungis einn þáverandi þingmaður brást við virtist telja hið besta mál að afhenda valdið úr landi til manna sem svara ekki til neinnar ábyrgðar hér.
Hér má líka minna á framgöngu WHO í síðustu umferð, sjá t.d. hér og hér og hér og hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2025 | 14:04
Umbylting stjórnarfarsins í bága við stjórnarskrá og drengskaparheit
Við undirleik þessarar ríkisstjórnar og hinnar fyrri er að eiga sér stað umbylting á stjórnarfari Íslands, þar sem stjórnarskráin sætir daglegum árásum.
Um þetta hyggst ég skrifa grein og birta í lengra máli, þar sem bent verður á helstu einkenni þess sem hér um ræðir:
- Í orðum og verki tala ráðherrar og þingmenn um EES samninginn sem einhvers konar yfirstjórnarskrá sem þurfi að verja og vernda hvað sem það kostar.
- ESB hefur hlutverk eins konar framkvæmdarvalds (ekki löggjafarvalds) gagnvart Íslandi í gegnum EES samninginn og í því hlutverki eru stofnanir ESB þegar þær semja reglur (stjórnvaldsfyrirmæli) sem ætlað er að gilda hérlendis.
- Almenna reglan í íslenskri lögfræði hefur verið sú að stjórnvaldsfyrirmæli víkja fyrir almennum lögum þar sem þetta tvennt stangast á. Með frumvarpinu um bókun 35 er verið að snúa þessu á hvolf og miðað að því að gera erlend stjórnvaldsfyrirmæli æðri almennum íslenksum lögum ef þetta tvennt stangast á!
- Alþingismenn hafa ekkert umboð til að umsnúa íslenskum rétti á þennan hátt, né heldur til að framselja lagasetningarvald til erlendra manna eða stofnana. Ástæðan fyrir því er tvíþætt: Í fyrsta lagi hafa alþingismenn ekkert umboð til að framselja umboð sitt til annarra án leyfis umbjóðandans, sbr. meginreglur sviði samningaréttar. Í öðru lagi leiðir af stjórnarskránni að enginn má fara með löggjafarvald hérlendis aðrir en þeim sem unnið hafa drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins og þannig lýst hollustu við lýðveldið Ísland, sjálstæði þess, lands og þjóðar.
![]() |
Vonar að Evróputengd mál verði ofarlega á blaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.7.2025 | 08:38
Fullreynt í fjórða sinn?
Mér telst til að nú sé verið að ljúka þingstörfum í fjórða sinn án þess að sitjandi ríkisstjórn takist að knýja í gegn frumvarpið um bókun 35, sem felur í sér beina tilraun til að gengisfella og óvirða Alþingi Íslendinga.
Rökstuðningur: Samkvæmt 47. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands ber hverjum einasta nýjum þingmanni skylda til að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni þegar kosning hans er tekin gild. - Þetta stendur í stjórnarskrá til að árétta og undirstrika að enginn má fara með löggjafarvald á Íslandi án þess að hafa lýst hollustu við lýðveldið og stjórnarskrá þess. Þetta er hreint og klárt skilyrði þess að þingmaður haldi sæti sínu.
Eftir ævintýralegt rugl og uppákomur á Alþingi nú síðustu daga og vikur má öllum landsmönnum vera orðið ljóst að þingmenn ráða ekki allir vel við hlutverk sitt og hafa ófullburða skilning á skyldum sínum og inntaki þingræðisins. En að þeim skuli hafa dottið í hug að þeim geti leyfst að afhenda óþekktum starfsmönnum ESB löggjafarvald á Íslandi - og að reglur frá þessum mönnum eigi að njóta almenns forgangs fram yfir íslensk lög frá Alþingi - án þess að hlutaðeigandi hafi lýst nokkurri hollustu við Ísland, lýðveldið, stjórnarskrána eða íslenska þjóð, er til marks um að sömu þingmenn eru óhæfir til að gegna þingmennsku.
Landvættir Íslands hafa í fjórða sinn varið lýðveldið fyrir þessari aðför. Vonandi láta óþjóðhollir alþingismenn hér staðar numið.
![]() |
Rýr uppskera ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2025 | 21:41
Hlutverk þingmanna
Þessi bloggsíða hefur verið í gangi síðan í janúar 2023 og þjónað ágætlega sem vettvangur hugsunar, tjáningar og samskipta.
Aðalmarkmið mitt hefur verið að leggja lóð á vogarskálar nauðsynlegrar leiðréttingar, því Íslendingar hafa - allt of margir - lagt blint traust á ríkisvaldið og viljað greiða götu slíkrar valdbeitingar, á meðan ég hef í anda klassísks frjálslyndis minnt á að öllu valdi verði að setja mörk. Fyrir það hef ég verið kallaður öllum illum nöfnum, þar sem hófstillt íhald og klassískt frjálslyndi hefur verið jaðarsett af ríkisreknum fjölmiðlum og flokkum hérlendis síðustu ár.
Einn áhugasamasti lesandi þessa bloggs er huldumaður sem aðhyllist allt það sem ég tel verst í stjórnarfari, þ.e. fyrirvaralausan skoðanahroka, andstöðu við málfrelsi, ofurtrú á að sérfræðingar viti betur en jafnvel þeir sem standa næst vettvangi, blint valdboð, fyrirlitningu á öllum hefðum og venjum, vanþekkingu á sögulegum staðreyndum, kommúnisma, ótakmarkað vald og að valdið komi ekki frá almenningi heldur ofan frá og niður. Athugasemdirnar hafa verið svo ógáfulegar, svo illa ígrundaðar, svo þröngsýnar, svo uppfullar af órökstuddum sleggjudómum, að mér er ljóst að hér er ég að sá fræjum í ófrjóan svörð.
En vonandi ná einhver fræ að spíra - og þótt ég sé ósammála athugasemdum og telji þær jafnvel stafa af vanþekkingu, þá hvetja þær mig og kannski aðra til að hugsa og lesa og rifja upp, því öll erum við enn að læra.
Í tilefni af "umræðum" hér um hlutverk þingmanna eru hér nokkrir punktar til íhugunar:
- Alþingi gegnir lykilhlutverki í stjórnskipuninni og í því felst ekki síst eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdavaldi (bæði í Reykjavík og Brussel) sem verður sífellt ágengara og seilist nú til þess að setja lögin sjálft með tilskipunum og reglugerðum sem Alþingi telur sér skylt að samþykkja og innleiða í íslensk lög.
- Í þessu felst að hlutverk þingmanna er m.a. að verja sjálfstæði Alþingis og valdsvið þingsins samkvæmt stjórnarskrá. (Þeir sem íhuga að styðja frumvarpið um bókun 35 virðast hafa gleymt þessu eða aldrei lært).
- Í kosningum gefst kjósendum tækifæri til að veita þingmönnum endurgjöf vegna starfa þeirra, annað hvort með því að kjósa þá (listann) aftur eða með því að velja annað.
- Af þessu leiðir að þingmenn þurfa að halda sambandi við kjósendur sína, hlusta, heyra hvað brennur helst á fólki, skynja til hvers er ætlast af þingmanninum. Þingmaður sem vanvirðir vilja kjósenda og / eða vanvirðir skyldur sínar við þjóðina getur ekki búist við að fá endurkjör.
- Af þessu leiðir að augljóslega verða þingmenn fyrir alls kyns þrýstingi, bæði frá hagsmunahópum, frá þingflokknum o.fl., en stjórnarskráin (48. gr.) minnir þá á að himinn og haf getur verið milli þess sem tiltekinn hagsmunahópur heimtar og þess sem telja má farsælast fyrir þjóðarheildina.
- Þingmenn eru fyrst og síðast umboðsmenn þjóðarheildarinnar, ekki sérhagsmuna. Meginhlutverk þeirra er að gæta hagsmuna lands og þjóðar, ekki flokkshagsmuna og ekki sinna eigin hagsmuna.
- Í allri umræðu um þjóðarhag þurfa menn að geta lagt mismunandi sjónarmið á vogarskálarnar. Samhliða þurfa menn að geta lagt mat á vægi þeirra röksemda sem settar eru fram. Dæmi: Fjárhagslega hagsmuni þarf að vega á móti sjónarmiðum um fullveldi, borgaralegt frelsi o.s.frv.
- Í nútímapólitík eru fæst mál svart/hvít. Því er mikilvægt að á þingið veljist fólk sem getur séð samhengi hlutanna á hlutlægan hátt og tekið ákvörðun út frá heildarmynd, en ekki út frá þröngsýni, kreddu, sérhagsmunagæslu eða flokkshagsmunum.
Er Alþingi þannig skipað í dag? Því getur hver og einn svarað fyrir sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2025 | 09:02
Takk fyrir að hlusta.
Alþingismenn eru kjörnir sem umboðsmenn þjóðarinnar til að annast lagasetningu og geta því ekki framselt löggjafarvaldið áfram til erlendra stofnana nema með skýru og fyrirframgefnu umboði kjósenda. Slíkt umboð hefur hvorki verið gefið né fengið og því eru þingmenn umboðslausir til að samþykkja frumvarpið um bókun 35. Líkja má þessu við að lögmaður eða endurskoðandi framseldi vald umbjóðanda síns án heimildar frá umbjóðandanum slíkt væri einfaldlega ógilt. Á nánari umfjöllun um þetta má hlusta með því að smella á þetta viðtal síðan í gær, sem finna má hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.7.2025 | 08:49
Án áttavita getur enginn ratað heim
Stærsta vandamál þeirrar kynslóðar sem nú heldur um valdatauma á Íslandi er að henni er ekkert heilagt. Stjórnarmeirihlutinn, sem sjálfur styður stjórnarskrárbrot sbr. frumvarpið um bókun 35, greip fegins hendi tækifærið til að fyllast vandlætingu vegna yfirsjónar 5. varaforseta þingsins, sem fyrrum formaður Samfylkingar segir þó að hafi ekki verið neitt brot! Þingvetur sem hófst sem harmleikur endar að sumri sem farsi.
Þessari kynslóð er ekkert heilagt. Í kófinu létu allir Alþingismenn það yfir sig ganga að stjórnarskráin væri tekin úr sambandi, þingið sent heim, völdin afhent (misvitru) þríeyki og að landinu væri stjórnað af framkvæmdavaldinu með tilskipunum. Á sama tíma - og enn í dag - veigruðu nánast allir lögfræðingar landsins sér við því að ræða með gagnrýnum hætti um það hvernig stjórnarskráin var gerð óvirk og borgaralegt frelsi misvirt vegna "neyðarástands" sem öllum mátti þó snemma vera ljóst að var alls ekkert neyðarástand. Ný forysta Sjálfstæðisflokksins leggur 100 ára sögu hans og stefnuskrá á bálið með beinum og óbeinum stuðningi við frumvarpið um bókun 35 sem felur í sér að Alþingi afhendi löggjafarvald til Brussel, án umboðs frá íslensku þjóðinni. Ný forysta Þjóðkirkjunnar leggur þrenningarjátninguna á fórnaraltari woke-ismans. Foreldrar sætta sig andmælalaust við að hugur og hjarta barna þeirra séu sóðuð út með "fræðsluefni" um kynvitund og kynhegðun. Fjölmiðlar hampa yfirborðsmennsku og hégóma, en hæðast að þeim sem aðhyllast klassísk trúarleg og þjóðleg gildi. Ef ekkert af þessu er heilagt, hvað þá með landið og náttúruna? Jú, þessi kynslóð ráðamanna hefur sýnt stuðning við að eiturefnum sé dælt hér niður í grunnvatnið, að erlendum úrgangi sé dælt í hafið og að hálendið verði tætt í sundur og mengað með vindmyllugörðum. Öllu því sem fyrri kynslóðir töldu fagurt, gott og satt er verið að snúa á hvolf. Gamla fólkið sjálft stendur frammi fyrir því að erlendir aðkomumenn fleyti rjómann ofan af því félagslega kerfi sem fyrri kynslóðir byggðu hér upp með sínum eigin verkum. Þjóðvitund og ættjarðarást er reynt að úthrópa sem "öfgar" á meðan ráðherrar Íslands ferðast um heiminn til að verja fullveldi annarra þjóða (Úkraínu) með herskáu tali og vopnakaupum.
Hvaða fólk er þetta eiginlega? Horfa menn á fréttir og þekkja þar sjálfa sig / sína eigin þjóð? Við verðum að snúa af rangri braut og finna aftur okkar sögulegu, menningarlegu, trúarlegu, lagalegu rætur. Við höfum ekki annað val. Áttavitalaus getur engin þjóð verið til lengdar.
![]() |
Össur segir Hildi ekki hafa brotið neinar reglur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)