Já, málfrelsið er í hættu.

Kæru lesendur.

Ég leyfi mér að hvetja alla áhugamenn um lýðfrelsi og málfrelsi til að hlusta á þetta viðtal sem útvarpað var í morgunútvarpi Bylgjunnar fyrr í dag.

Eins og vindarnir blása nú þurfa menn að hafa augun opin og veita aðhald öllum tilraunum til að hefta tjáningarfrelsi fólks. 

Góðar stundir.


Trójumenn nútímans?

Í desembermánuði 2021 átti ég þessar viðræður við Tómas Guðbjartsson í útvarpsþættinum Sprengisandi. Á þessum tíma hafði ég ítrekað hvatt til varúðar gagnvart þeirri samþjöppun ríkisvalds, peningavalds, kennivalds og fjölmiðlavalds sem raungerðist í ,,kófinu". Lesendur þessarar bloggsíðu eru hvattir til að hlusta á upptökuna og íhuga hversu vel málflutningurinn hefur elst, þ.e. minn annars vegar og Tómasar (+ þáttastjórnandans!) hins vegar. 

Umræðuefnið var svo nöturlegt að helst hefði ég viljað hafa rangt fyrir mér og að viðvörunarorð mín hefðu reynst ástæðulaus. Því miður er þó annað að koma á daginn, sbr. þessa kynningu hér, sem virðist hafa verið haldin í þinghúsi ESB í gær, 1.8.2023. Lokaorðin eru hrollvekjandi og ættu að fá hárin til að rísa á öllum frjálshuga mönnum. 

Í áðurnefndum útvarpsþætti hvatti ég hlustendur til að hafa augun opin fyrir þeim viðamiklu breytingum sem mögulega væru í farvatninu. Í því sambandi nefndi ég, í framhjáhlaupi, að uppnámið í kringum veiruna yrði hugsanlega notað sem einhvers konar Trjójuhestur til að innleiða hér nýtt og ólýðræðislegt stjórnarfar, þar sem valdboð og geðþótti stýrðu för. Þessi orð fóru fyrir brjóstið á hrekklausu fólki sem (ennþá) trúði því í einlægni að ríkisstjórnir, lyfjarisar, alþjóðastofnanir o.fl. væru grómlausir velunnarar almennings.

Trójumenn lögðu mikla orku í að byggja upp borgarmúra, en hrekkleysið varð þeim að falli í bland við óskhyggju um öryggi og frið. Fyrir vikið báru þeir ekki kennsl á hættuna sem fylgdi því að opna hliðin og hleypa Trójuhestinum inn.horse-into-troy_ver_1 

Stjórnarskrár nútímans eru okkar borgarmúrar. Þeim er ætlað að koma böndum á óhefta valdbeitingu og verja borgarana fyrir ólögmætum afskiptum valdhafa, inngripum, eignaupptöku, frelsisskerðingum o.s.frv. Ólýsanlegar fórnir voru færðar til að koma þessu fyrirkomulagi á. Í hrekkleysi og óskhyggju höfum við viljað ímynda okkur að lýðræðisleg stjórnskipun sé tryggilega varin með þessu.  

En þegar alþjóðastofnanir á borð við WHO rukka okkur um almenn mannréttindi í skiptum fyrir loforð um (falskt) öryggi, erum við þá jafn blind og Trójumenn til forna? Munu sögubækur framtíðarinnar afgreiða okkur sem hrekklausa kjána sem voru blindaðir af hræðslu og gengu sjálfviljugir í gin ljónsins fremur en verjast? Þegar vestræn menning hefur náð því hnignunarstigi að þykjast ekki sjá mun á konu (XX) annars vegar og hins vegar karli (XY) með varalit, þá er kannski ekki við því að búast að við þekkjum Trójuhest þegar hann birtist í nýrri mynd?

Ógnin sem við stöndum frammi fyrir er auðþekkjanleg öllum sem augu hafa til að sjá og eyru til að heyra: Græðgisvæðing laganna, samþjöppun valds, óttastjórnun, valdhroki og harðstjórn. 

Ef menn fara ekki að vakna og stíga niður fæti gæti þessi vegferð hins yfirþjóðlega valds endað með viðnámslausri yfirtöku, þar sem stjórnarskrár verða klipptar úr sambandi og dýrmætustu hornsteinum vestrænnar stjórnskipunar sópað til hliðar um leið og öryggisventlar lýðræðis, valddreifingar og málfrelsis verða gerðir óvirkir.

Ég skora á þig, kæri lesandi, að sofna ekki á verðinum og undirstrika að Alþingi hafi ekki umboð til að leiða WHO til valda á Íslandi.  

  


Eiga börn að fá menntun eða heilaþvott?

Konan mín, sem er kennari, nefndi við mig í gær, að enska orðið ,,education" er samsett út tveimur latneskum orðum, þ.e. ed (út úr) og ducar (að leiða) = Educar, að leiða út úr eða draga fram það sem býr hið innra. 

Í því ljósi spyr ég sjálfan mig (og lesendur), hvort menntakerfi nútímans standi undir þessu hlutverki, eða hvort fremur mætti kalla það innrætingarkerfi, þar sem ungmenni eru þjálfuð í að hlýða, ganga í takt, lúta yfirvaldi og innbyrða það sem kemur utan frá gagnrýnislaust.

Eftir að hafa fylgst með íslensku skólastarfi - í návígi - í rúmlega 40 ár er ég ekki viss um að það hvetji fólk til skapandi hugsunar, rökræðu, frjálsrar tjáningar og virkrar hlustunar. Með þessu er ég ekki að segja að skólakerfið sé alslæmt, en þegar horft er á tölfræðilegar staðreyndir um lélega grunngetu íslenskra nemenda í lestri, reikningi o.fl. þarf að viðurkenna að kerfið nálgast einhvers konar þrot. Hermundur Sigmundsson hefur gert grein fyrir því hvernig viðvörunarmerkin verða stöðugt alvarlegri. Kerfið er byggt á úr sér gengnum prússneskum grunni, þar sem öllu er hólfaskipt eftir tímabilum, aldri o.fl. Áhersla á sérhæfingu leiðir til þess að nemendur vita stöðugt meira og meira um minna og minna. Í skólakerfinu lærir fólk ekkert sem kalla má vinnusiðferði eða klassískar dyggðir. Sá þáttur á að hvíla á herðum foreldra, en þegar þeir ,,útvista" þeirri ábyrgð til kerfisins er hætt við að boltinn falli til jarðar án þess að nokkur grípi hann. Í þessu samhengi minnist ég orða innhringjanda í ,,Þjóðarsálina" fyrir ca. 30 árum sem kvartaði yfir því að sonur hans (12 ára) væri ,,ekki enn búinn að læra borðsiði í skólanum"! 

Mögulega er framangreind skekkja ein skýringin á þeim daglega sorgarviðburði að heyra fólk tala gegn betri vitund til að forðast gagnrýni / til að falla í kramið / til að öðlast tímabundnar vinsældir. Af hverju geta menn ekki fundið styrk til að standa með sjálfum sér og því sem þeir vita að er rétt? Er það af því að ,,menntun" okkar hefur þjálfað okkur í að endurtaka en hugsa ekki? Við nálgumst mögulega einhvers konar siðferðilegt gjaldþrot þar sem siðrænar undirstöður hverfa sjónum en sú staðreynd er falin með hégómlegri dyggðaskreytingu (e. virtue signalling), þar sem ,,fjölbreytni" þýðir að allir eigi að hugsa og tala eins, og þar sem ,,umburðarlyndi" elur af sér útskúfun allra sem ekki vilja ganga í takt. Í orðabók nútímans stendur ,,lýðræði" fyrir innleiðingu erlendra reglna sem almenningur hefur aldrei kosið um. 

Samantekt

Allir menn hafa innbyggðan áttavita sem segir okkur hvað snýr upp og niður og gerir okkur unnt að greina á milli sannleika og ósanninda, milli góðs og ills. Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari, sem nú er látinn, orðaði þetta á þessum nótum: ,,Rödd samviskunnar er lágvær en skelfilega skýr". Þrátt fyrir ytra áreiti og hávaða geta allir heyrt þessa rödd, hver sem það heyrir er getur haldið sig réttu megin í tilverunni, en þá verða menn líka að þora að vera þar.

,,Af öllum mannlegum löstum er ragmennskan verst" (Mikail Bulgakov, Meistarinn og Margarita).  

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband