Varúð, óhefluð framsetning

Í einhverri bók eftir Milan Kundera las ég fyrir löngu síðan setningu um það að veruleikinn væri heimsálfa sem við ferðumst allt of sjaldan til. Þessi orð rifjuðust upp þegar ég hlustaði á þetta nýja viðtal Tucker Carlson við Michael Benz, því hér falla sannleiksbombur ótt og títt. 

Fyrir alla þá sem enn hafa ekki áttað sig á því hvernig verið er að snúa öllu á hvolf, hvernig ritskoðun er beitt í nafni ,,lýðræðis", hvernig sannleikur er útmálaður sem lygi, réttar en óþægilegar upplýsingar stimplaðar sem "malinformation", hvernig vilji almennings er afbakaður sem ,,popúlismi", hvernig stefnuboðun stóru fjölmiðlanna (MSM) er samstillt og hvernig áróðursvélarnar eru fjármagnaðar úr opinberum sjóðum sem knúnar eru áfram af taumlausri peningaprentun, þá mæli ég með því að menn gefi sér tíma til að hlusta.

Fyrir þá sem kjósa að einblína á leiktjöldin sem stóru fjölmiðlarnir stilla upp daglega, þá er best að forðast áheyrn, því menn gætu meiðst þegar leikmyndin hrynur.   

 


Meinvarp í þjóðarlíkamanum

Kæru lesendur.

Við búum í landi þar sem einum fjölmiðli er með lögum veitt sérstök vernd og sérstakur forgangur að augum og eyrum landsmanna. Þannig segir í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið (RÚV) að markmið laganna sé

að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Undir þessu yfirskini er áætlað að RÚV fái 6,1 milljarð króna (sexþúsundogeitthundraðmilljónir króna) af almannafé á árinu 2024

Fyrir allt þetta eiga Íslendingar að vera þakklátir og enn er það svo, að stór hluti þjóðarinnar tekur frá dýrmætan tíma dag hvern til að hlusta á boðskap RÚV um hvað beri að telja rétt og rangt. Í þeim tilgangi hefur RÚV sérstaka kennimenn á launum, sem ætlað er að hjálpa okkur hinum að geta gert greinarmun á því sem telja ber annars vegar til sannleika og hins vegar til ósanninda. Í þessum efnum höfum við Íslendingar sannarlega verið lánsöm, því RÚV hefur útnefnt menn eins og Boga Ágústsson og Egil Helgason sem helstu menningarvita til að hjálpa hinum óupplýstu að rata í þeirri þoku sem iðulega byrgir sýn í stórháskalegri ,,upplýsingaóreiðu" umheimsins, enda virðast ráðamenn vantreysta almenningi til að beita eigin dómgreind, hyggjuviti og innsæi til að greina rétt frá röngu. 

Fyrir sléttri viku síðan stimplaði RÚV heimsþekktan mann, Robert F. Kennedy jr., opinberlega sem ,,rugludall". Fyrst RÚV notar slíka sleggju til að berja manninn með, þá hlýtur hann væntanlega að vera snarruglaður. Hverjar eru sakirnar? Jú, í fyrirsögn RÚV segir að hlutaðeigandi sé ,,þekktur sem harður andstæðingur bólusetninga og fyrir að trúa á alls kyns samsæriskenningar".

RFK er ekki alfarið á móti bólusetningum, enda sjálfur margbólusettur, en hann er á móti lyfjagjöf sem ekki hefur farið í gegnum tilskilin gæðapróf og ekki verið rannsökuð til hlítar, sjá t.d. hér.

RFK er stálgreindur maður og trúir þar af leiðandi auðvitað ekki ,,öllum samsæriskenningum" eins og ýjað er að í ,,fréttaskýringu" Boga Ágústssonar, þar sem vinnubrögðin eru ekki fagleg, endurspegla metnaðarleysi, bera vott um óheiðarleika og einkennast af virðingarleysi, bæði fyrir umfjöllunarefninu og þeim sem greiða fyrir ,,vinnu" fréttamannsins. 

RÚV vanvirðir daglega þann grunn íslenskrar menningar sem byggir á mótmælendahefðinni, nánar tiltekið rétti einstaklingsins til að andmæla kennisetningum, menningarvitum, fræðimönnum og kennivaldi samtímans, sbr. siðaskiptin hér árið 1550 á þeim grunni sem lagður var af Lúther. RÚV ætlar almenningi fyrst og síðast að sýna fylgispekt og undirgefni við ráðandi öfl, þ.e. þá sem leggja línurnar í daglegri fjölmiðlaumfjöllun. RÚV skilur ekki (eða hefur gleymt því) að margt það sem viðurkennt er í samtímanum var stimplað sem samsæriskenningar áður en upplýsingastíflan brast. Dæmi: Skaðleg áhrif tóbaks, Watergate-hneykslið o.fl., sjá hér

RÚV er orðið meinvarp í þjóðarlíkamanum. Ef einhver dugur væri í þingmönnum væri búið að skrúfa fyrir fjárveitingar til þessarar stofnunar, en ekki stöðugt aukið í þær eins og því miður er enn verið að gera.

  


Fréttir sem íslenskir fjölmiðlar kjósa að þegja um

Ritskoðun snýst um stjórnun. Sá sem stjórnar því hvað við fáum að sjá / lesa, stjórnar í raun ferðinni. Nú er komin fram alþjóðleg risafrétt, sem við reyndar heyrum hvorki á RÚV né öðrum ríkisstyrktum íslenskum fjölmiðlum: Zuckerberg forstjóri FB viðurkennir, í bréfi til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að hafa látið undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar og beitt ritskoðun á FB til að stýra því sem fólk fékk að segja / sjá og heyra, m.a. um kórónaveiruna (C-19). Meta 260824 1Meta 260824 2

Í stuttu máli: Leyfileg tjáning var í því fólgin að bergmála vilja stjórnvalda og efast aldrei, samhliða því að þagga niður í efasemdaröddum og stimpla andmæli sem samsæriskenningar, rugl, öfgar, vitleysu o.s.frv.

Vitandi um augljósa ritskoðunartilburði FB, gekk íslenskt ríkisvald (fjölmiðlanefnd) í bandalag við FB á árinu 2020 til að reyna að stýra því sem Íslendingar fengju að heyra / sjá / lesa. Þetta var gert með svonefndu árveknisátaki fjölmiðlanefndar vegna Covid-19, undir því yfirskini að ,,efla miðlalæsi og gagnrýna hugsun" en um leið var grafið undan hvoru tveggja. Átakið þjónaði því sjálfstæða hlutverki að koma skýrum skilaboðum til íslenskra fjölmiðla um hvað mætti birta og hvað ekki. Með þessu var íslenska ríkið - með fjölmiðlanefnd í fararbroddi - í raun að vega að tjáningarfrelsinu með því að reyna að stýra umfjöllun, loka umræðuvettvanginum og þrengja að gagnrýninni hugsun.

Stjórnsýslulög miða að því að þeir sem fara með framkvæmdavald í nafni íslenska ríkisins starfi á skilvirkan hátt í þágu almennings. Lögin miða að því að verja jafnræði, gæta hlutleysis, efla traust, fagmennsku o.fl. Þessi útgangspunktur byggir á þeirri skýru grundvallarforsendu að ríkisstarfsmenn virði stjórnarskrá landsins og framfylgi gildandi lögum. Ríkisstarfsmönnum ber því að þjóna borgurunum með því að halda uppi lögum og rétti. Það gera þau best með því að vera ópólitísk í störfum sínum og verja frjálsa samfélagsgerð en ekki með því að þrengja að henni, síst af öllu með því að ganga erinda stórfyrirtækja eða erlendra stjórnvalda.  Þegar opinberri stjórnsýslu er misbeitt með þessum hætti í þágu ritskoðunar, þá hrynur grundvöllurinn undan þeim stofnunum sem þannig starfa.  

Fjölmiðlanefnd, sem á að þjóna tjáningarfrelsi og verja frjálsan umræðuvettvang, brást hlutverki sínu með því að taka beinan þátt í ritskoðunarátaki Bandaríkjastjórnar. Hver er réttlætingin fyrir því að ríkisstarfsmenn þiggi laun frá skattgreiðendum til að grafa undan þeim stoðum sem þeim er ætlað að verja? Fólk sem svíkur tjáningarfrelsið svíkur um leið lýðræðið. Þau eiga að biðjast afsökunar, eins og Zuckerberg, eða víkja úr starfi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband