29.1.2025 | 12:42
"Eru Íslendingar heimskari en aðrar þjóðir?"
Þetta er raunveruleg spurning sem ég fékk í gær hér í Bandaríkjunum. Tilefnið var umræða um afstöðu Íslendinga til forsetaframbjóðenda í USA, sbr. kannanir sem bentu til að 96% Íslendinga hefðu kosið Biden frekar en Trump (2020) og að 91% Íslendinga hefðu kosið K. Harris fremur en Trump (2025). Viðmælandi minn var hvumsa yfir einsleitninni og velti fyrir sér hvort Íslendingar hlytu þá ekki að vera mest "woke" þjóð í heimi og þar með haldnir sjálfsfyrirlitningu á háu stigi.
Mér vafðist tunga um höfuð, minnugur þess hvernig Íslendingar fyrri alda, m.a. Arngrímur Jónsson lærði, skrifuðu varnarrit til að hrekja tröllasögur um Íslendinga í erlendum ritum. Varnarrit Arngríms bar heitið Crymogæa og þar var m.a. vísað til þess að Íslendingar væru flestir læsir og að á Íslandi hefði blómstrað merkileg bókmenntahefð sem m.a. hefði varðveitt menningararf Norðurlanda. Með orðum Jóns Helgasonar átti íslensk þjóð löngum "ekki í sig brauð en einatt bar þó reisn í fátækt sinni".
En hvað er hægt að segja? Íslendingar eru ekki heimskari en aðrar þjóðir, en við höfum mögulega orðið forheimskun að bráð. Yngri kynslóðir eru illa læsar. Eldri kynslóðir leyfa RÚV að mata sig á óhollu fóðri með "fréttum" hvern einasta dag, þar til vitsmunaleg umræða nær sjaldan að rísa ofar en um persónur og hvort hlutaðeigandi sé skemmtilegur / leiðinlegur, með blítt andlit / strangur. Á Íslandi er það höfuðdyggð stjórnmálamanns að vera eindreginn stuðningsmaður fóstureyðinga, helst fram að fæðingu.
Visir.is og mbl.is eru mest lesnu fréttavefir landsins og báðir þessir vefir hallast mjög til vinstri, því Morgunblaðsvefurinn virðist aldrei hafa verið undir sömu ritstjórn og blaðið sjálft. Þá sjaldan að ég horfi á fréttatíma RÚV finn ég greindarvísitölu mína lækka, sem er mikill skaði fyrir mann sem þarf á öllu sínu litla viti að halda. Sem dæmi má nefna þessa "fréttaumfjöllun" RÚV 26. janúar sl., sem er ekki hlægileg heldur nöturlegur vitnisburður um þær ógöngur sem "þjóðmálaumræða" á Íslandi getur ratað í undir "leiðsögn" þessarar fréttastofu, sem sogar til sín þúsundir milljóna króna á ári fyrir svona "þjónustu" undir formerkjum "menningarhlutverks" RÚV sem í seinni tíð er fremur ómenningarhlutverk, því þar er woke-þráhyggjunni útvarpað og sjónvarpað alla daga.
Í hvaða skilningi eru Íslendingar nú "bókmenntaþjóð" og hvar sést bókmenntaarfurinn ræktaður í framkvæmd annars staðar en í reifurum, sem Íslendingar hafa tekið ástfóstri við? Á jólum les þjóðin sennilega minna um boðskap jólanna um ljós og mannkærleika, en velur sér heldur myrkur og morð til aflestrar.
Í þessum höfuðstað neysluhyggjunnar, Bandaríkjunum, sé ég færri í ofþyngd en heima. Ég sé færri hér með blátt hár og hring í nefinu. Færri með sjáanleg tattú. En auðvitað má ekki draga of miklar ályktanir af ytri ásýnd.
Á sama tíma og verið er að sópa sali valdsins hér í USA, lofta út og hefja endurskoðun á mörgu því sem aflaga hefur farið í stjórnsýslunni, þá hafa Íslendingar valið tvo "vitringa" af þeim þremur sem stjórnuðu landinu í "kófinu" inn á Alþingi og gert fyrrum landlækni að heilbrigðisráðherra! Á Íslandi halda stjórnmálamenn áfram að skammta sér fé úr ríkissjóði. Vilji menn ræða nánar um "Fól flokksins" [sic] og Ingu Sæland þá er gripið til varnar sem hvergi myndi duga nema mögulega í landi heimskustu þjóðar í heimi, þ.e. að það sé "einelti".
"I rest my case" og læt Jón Helgason eiga síðustu orðin:
Sú þjóð sem löngum átti ekki í sig brauð
en einatt bar þó reisn í fátækt sinni,
skal efnum búin orðin þvílíkt gauð
er öðrum bjóði sig að fótaskinni.+
Sú þjóð sem horuð ærið afhroð galt
af ofurheitri trú á frelsið dýra,
hún býður lostug sama frelsi falt
með fitustokkinn belg og galtarsvíra.
Sú þjóð sem veit sér ekkert æðra mark
en aurasníkjur, sukk og fleðulæti,
mun hljóta notuð herra sinna spark
og heykjast lágt í verðgangsmanna sæti.
Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó,
og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!
(Jón Helgason, 1951)
![]() |
Inga Sæland keypti tvær fasteignir með stuttu millibili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2025 | 11:32
Gera Íslendingar minni kröfur en aðrar Norðurlandaþjóðir?
Málefni Ingu Sæland og Flokks fólksins eru nokkuð góður prófsteinn á stöðu réttarríkis og lýðræðis á íslandi: Hvað láta Íslendingar bjóða sér í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðoir?
Af handahófi má rifja upp dæmi frá Norðurlöndum: Ráðherra í Noregi sagði af sér árið 2024 eftir að upp komst um ritstuld í lokaritgerð hennar í háskóla. Annar ráðherra þar sagði af sér árið 2023 eftir að hafa m.a. keypt hlutabréf í vopnaframleiðslufyrirtæki áður en ríkisstjórnin gerði svo samning við það fyrirtæki. Þriðja dæmið er um ráðherra sem þurfti að segja af sér eftir að upp komst um að hann hafði verið ótrúr eiginkonu sinni. Fjórða dæmið er um afsögn ráðherra fyrir að hafa ferðast til óvinveitts ríkis (Íran) í sumarfríi og hafa tekið símann með sér, en ekki sagt samráðherrum sínum frá ferð sinni. Í Danmörku sagði ráðherra af sér 2020 fyrir að hafa fyrirskipað dráp á þúsundum minka án viðunandi lagastoðar. Þar sagði annar ráðherra af sér árið 2013 fyrir að hafa sagt þinginu ósatt. Í Svíþjóð sögðu tveir ráðherrar af sér árið 2017 vegna þess að tölvukerfi landsins (ökuleyfisskrá + ökutækjaskrá) sem geymdu persónuupplýsingar stóðust ekki öryggispróf. Árið (1995) sagði sænskur ráðherra af sér fyrir að hafa notað kreditkort ríkisins til eigin nota, nánar tiltekið til að kaupa súkkulaði, sígarettur o.fl. fyrir um 5000 evrúr. Ráðherrann sem þar átti í hlut, Mona Salin, endurgreiddi upphæðina umsvifalaust, en það dugði ekki til: 66% Svía töldu hana óhæfa til að gegna stöðu ráðherrastöðu.Í Svíþjóð þurftu tveir ráðherrar að segja af sér árið 2006: Öðrum hafði láðst að upplýsa um frístundahús sem hún átti, en hinn ráðherrann hafði notað opinbert fé til að greiða afnotagjöld af sjónvarpi. Fleiri dæmi mætti nefna.
Í viðtali við Mbl viðurkenndi Inga Sæland að fyrirsvarsmenn Flokks fólksins hefðu vitað af "formgalla" en engu að síður tekið við ríkisstyrk til flokksins. Enn er óupplýst hvað varð um þessa fjármuni.
Aðalsmerki réttarríkis er að þar eru allir jafnir fyrir lögunum. Þar gilda lögin m.ö.o. ekki bara um suma. Sem dómari fékk ég inn á borð til mín mál eins af "okkar minnstu bræðrum" sem m.a. var ákærður fyrir að hafa tekið koníakspela ófrjálsri hendi. Þar hafði lögregla rannsakað og sent málið til ákæruvalds sem gaf út ákæru og krafðist refsingar. Með þessu er ég alls ekki að staðhæfa að framganga Ingu Sæland sé refsiverð, heldur aðeins að undirstrika að í stjórnmálum, eins og annars staðar - og þó kannski sérstaklega í stjórnmálum - verður að halda ákveðin prinsipp í heiðri, því annars föllum við á fleiri en einu prófi: Þá erum við ekki alvöru lýðveldi, heldur bananalýðveldi, ekki réttarríki, heldur lagskipt spillingarríki.
"Dýr myndi Hafliði allur" er íslenskt máltæki sem vísar til himinhárra bótagreiðslna sem Hafliði Másson lögsögumaður fékk dæmdar á 12. öld fyrir minniháttar líkamstjón, sem almúginn þurfti að sæta bótalaust.
Hvar stendur lýðveldið Ísland í samanburði við þjóðveldið? Hvar kröfur gera Íslendingar til ráðherra sinna í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir?
![]() |
Mikil misbeiting á ráðherravaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2025 | 13:49
Heilaþveginn sóttvarnalæknir Íslands fær laun fyrir hvað?
Samkvæmt þessari frétt er CIA komið langleiðina með að staðfesta það sem öllum mátti vera löngu ljóst, nema sóttvarnalækni hér á Íslandi sem í viðtali við Morgunblaðið nú nýlega tuggði upp langsótta kenningu um að leðurblökuréttur á borðum óheppins Kínverja í Wuhan hefði smitað alla heimsbyggðina, en ekki risastór veiru-rannsóknarstofa í sömu borg.
Í þessu viðtali, sem er í raun lestarslys sóttvarnalæknis og afhjúpun á fákunnáttu hennar, heldur hún því m.a. fram að "engin gögn" hafi komið fram sem sýni fram á annað en en að leðurblökum sé um að kenna. Er þessi kona á launum hjá Íslendingum? Af hverju? Fyrir hvað?
P.S. Áhugasömum (og fákunnandi sóttvarnalækni) er bent á þessa ítarlega rökstuddu bók sem kom út í desember 2023 og rennir með ótal gögnum stoðum undir tengslin sem sóttvarnalækni Íslands var ókunnugt um 21. janúar 2025.
![]() |
Faraldurinn líkast til af mannavöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2025 | 12:35
Grænland, Danmörk, Ísland og Bandaríkin.
Jón Magnússon er frábær maður. Frábær penni, frábær ræðumaður. Glæsilegur maður á velli. Skynsamur og skemmtilegur. Ég les bloggið hans iðulega og í finnst oft eins og Jón nái að kjarna mína eigin hugsun betur en ég gæti gert sjálfur! En nú í morgun gerðist það í fyrsta sinn, svo ég muni, að ég var ekki sammála JM, þegar hann segir að við eigum að standa með Dönum, ásamt öðrum Norðurlöndum, vegna Grænlands og lýysa þegar í stað yfir "órofa stuðningi og samstöðu með Dönum í þessu máli."
Jón vísar til þess að nýr forseti Bandaríkjanna hafi ítrekað talað um að Danir selji Bandaríkjunum Grænland og að Danir "leiti eftir samstöðu og stuðningi Norðurlanda í þessu máli".
Þó er það svo að forsætisráðherra Dana sniðgekk litla Ísland þegar hún boðaði leiðtoga Svía, Finna og Noregs tli fundar í gær. Kannski er það vísbending um raunverulega afstöðu Dana til Íslands, sem verðskuldi ekki sæti við slíkt fundarborð frekar en fulltrúar Færeyja og Grænlands? Slík lítilsvirðing hlýtur að mega teljast sérlega umhugsunarverð í ljósi herskárrar framgöngu Íslands á alþjóðavettvangi síðustu ár, þar sem fyrrverandi (og núverandi) utanríkisráðherrar hafa sýnt einlægan vilja til að knýja áfram stríðsvélar heimsins með herskáu tali og botnlausum fjáraustri til vopnakaupa. Hefur sá munnsöfnuður allur þá ekki orðið til að auka virðingu Íslands á alþjóðavettvangi? En skrýtið.
Ég er ósammála Jóni Magnússyni um það að við stöndum í einhverri sérstakri þakkarskuld við Dani. Við vorum um aldir peð á taflborði Dana í samskiptum við önnur siglingaveldi heimsins. Dæmi: Fyrir um 20 árum fundust skjöl í Danmörku sem sýndu að Danir höfðu m.a. gert samning við Alsír á 17. öld um að sjóræningjar þaðan gætu haft frjálsar hendur á Íslandi meðan þeir létu Danmörku í friði. Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum 1627 og fleiri sjórán fylgdu í kjölfarið. Á tímum Jörundar hundadagakonungs var Ísland sömuleiðis skiptimynt á borði Englands og Danmerkur. Danskir kaupmenn arðrændu auk þess Ísland öldum saman. Hagur Íslands tók fyrst að vænkast þegar við fengum heimastjórn 1904.
Í pistli Jóns gleymist að önnur Norðurlönd, þ.m.t. Ísland, eiga engan rétt á að véla um framtíð Grænlands. Grænlendingar hafa svipaða stöðu innan Danmerkur og Íslendingar höfðu eftir 1904 og hafa lögbundinn rétt til að leita fullveldis og algjörs sjálfstæðis.
Ákvörðun um framtíð Grænlands á fyrst og síðast að hvíla hjá Grænlendingum sjálfum, ekki hjá nýlenduherrum í Danmörku með stuðningi Íslands og annarra landa. Telji Grænlendingar hag sínum betur borgið með því að verða 51. ríkið innan Bandaríkjanna, þá hljóta Íslendingar, sem fyrrum arðrænd og valdalaus nýlenduþjóð að vera fyrsta þjóðin til að hvetja þá til sjálfsákvörðunar og sjálfsábyrgðar að þessu leyti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2025 | 13:56
Dulin veikindi Íslands verða ekki falin mikið lengur
Fyrsta skref í bataferli alkohólistans er að viðurkenna eigin vanda. Málflutningi mínum (og Lýðræðisflokksins) sl. ár mætti líkja við varúðarorð aðstandanda drykkjusjúklings. Við höfum reynt að benda Íslendingum á að tímabært sé og nauðsynlegt að taka til áður en illa fer. En reynslan sýnir að áfengissjúklingurinn tekur engum sönsum og hættir ekki fyrr en hann rekst á vegg. Í þeirri stöðu er best fyrir börn / aðstandendur að fjarlægjast hinn sjúka og leyfa honum að finna sinn eigin botn.
Er allt í lagi með Ísland? Eru burðarstoðirnar traustar? Eru stjórnmálaflokkarnir heilbrigðir og lýðræðislegir? Starfa þeir í samræmi við þær hugsjónir sem þeir leggja fram? Efna þeir loforð sín? Eru fjölmiðlar á Íslandi í góðu ástandi? Eru þeir óháðir ríkisvaldi / peningavaldi? Er menntakerfið á Íslandi að efla gagnrýna hugsun eða er þar stunduð pólitísk innræting? Er heilbrigðiskerfið að þjóna hlutverki sínu vel? Er fjármunum skattborgaranna vel ráðstafað innan þessara kerfa eða leka peningar út til milliliða og millistjórnenda? Er vegakerfið í lagi? Ræður löggæslan við þau stóru verkefni sem hún stendur frammi fyrir og aðsteðjandi öryggisógnir?
Það hlýtur að vera skelfileg lífsreynsla að alast upp sem barn alkohólista og sjá foreldri sitt sökkva sífellt dýpra í sjálfseyðileggingu. Frammi fyrir því hefur barnið tvo möguleika: Að taka þátt í afneituninni og verða meðvirkt eða að vera "óþægt" barn og neita að taka þátt í feluleiknum, neita að láta eins og allt sé í lagi. Reynslan sínir að þegar síðari kosturinn er valinn þá bregðast aðrir iðulega við með því að segja að sá óstýriláti sé sjálfur vandamálið.
Eins og aðrir nútímamenn eru margir Íslendingar orðnir ólæsir á dæmisögur og myndlíkingar. Sagan um "Nýju fötin keisarans" er ekki um ný föt, heldur um drenginn sem benti á óþægilegar staðreyndir. Íslenskt samfélag nútímans er ekki það fyrsta sem kýs að horfa fram hjá eigin veikleikum, sætta sig við óheilindi, klappa fyrir valdhöfum sem eru augljóslega búnir að missa veruleikatengsl. Það er reglan fremur en undantekningin, því það er svo sárt að viðurkenna að við höfum látið blekkjast, tekið þátt í sýndarveruleika, klappað fyrir falskri ásýnd og neitað að horfast í augu við staðreyndir. Þannig endaði raunar sagan í frumútgáfu: Almenningur neitaði að hlusta á barnið. Blekkingarvefurinn rofnaði ekki. Keisarinn og þegnar hans héldu áfram að lifa í lygi.
Áhugavert verður að sjá hve lengi Íslendingar ætla að halda áfram að láta eins og allt sé í lagi. Fróðlegt verður að sjá hvernig ný forysta Sjálfstæðisflokksins hyggst breiða yfir að flokkurinn hafi farið út af sporinu og hvernig flokkurinn á að finna rætur sínar aftur án þess að viðurkenna að flokkurinn hafi vanrækt grundvallarhugsjónir sínar um fullveldi, sjálfstæði og takmarkað ríkisvald. Sagan af Flokki fólksins verður með sama hætti áhugaverð: Hvernig ætlar formaður flokksins að bjarga honum frá sjálfstortímingu? Hvernig villtist flokkurinn af þeirri leið að þjóna "fólkinu" yfir í að þjóna flokkseigandanum? Vinstri grænir skrifuðu sín eigin minningarorð í síðustu kosningum. Hvíli sá flokkur í friði. Píratar eyðilögðu sig með því að hætta að vera stjórnleysingjar og verða kerfisfræðingaflokkur. Samfylkingin er löngu hætt að þjóna vinnandi stéttum og orðin flokkur háskólamenntaðra starfsmanna ríkis og bæja, með meiri áhuga á að þjóna ESB en íslenska lýðveldinu. Hið sama má segja um Viðreisn, þar sem menn segja eitt og gera eitthvað allt annað. Framsókn lifir sem uppvakningur, hafandi selt sálu sína fyrir löngu. Er ég að gleyma einhverju? Jú, kannski má binda vonir við Miðflokkinn, sem þarf nú að sanna að hann sé meira en fjölskyldufyrirtæki.
Vonandi endar þetta ekki sem grískur harmleikur. Vonandi kemur að því að blekkingarvefurinn rofnar. Reynsla mín segir mér að íslensk stjórnmál verði ekki endurnýjuð innan úr flokkunum sem fyrir eru. Við þurfum nýja flokka og nýtt fólk með klassískar, hreinar, hugsjónir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2025 | 10:50
Kaldasta bananalýðveldi heims?
Þjóð sem er illa læs, býr við ríkisvætt fjölmiðlaumhverfi og lætur aðra hugsa fyrir sig mun fyrr en síðar gleyma eigin sögu. Slík þjóð er í veikri stöðu þegar kemur að því að sjá hlutina í samhengi og falla ekki í gryfjur sem sagan sýnir að eru háskalegar hverjum þeim sem þangað hrapa. Slík þjóð gæti fyllst reiði (t.d. með því að gelta á alþjóðasviðinu og heimta meira stríð), hroka (t.d. með því að fella siðferðisdóma um leiðtoga stórveldanna), græðgi (og selt undan sér landið og auðlindirnar), þunglyndi (og eignast heimsmet í neyslu geðlyfja), stundað ofát (og orðið ein af feitustu þjóðum heims) og stundað munúðlífi (m.a. með því að sitja lömuð fyrir framan sjónvarpsskjáinn löngum stundum, kjósa ómerkinga inn á Alþingi, taka ekki ábyrgð á eigin lífi, framtíð landsins eða afkomenda sinna). Glöggir menn gætu hafa séð að hér er verið að vísa til hinna sjö kristnu höfuðsynda. Hinir sem ekki þekktu stefin gætu þurft að íhuga hvort hugur þeirra þurfi á styrkingu að halda, t.d. með því að rifja upp og skoða þær sögulegu, trúarlegu og menningarlegu undirstöður sem tilvera þeirra og samfélags okkar stendur á, því miður eins og afskorið blóm, því þegar almenningur missir tengsl við þessar rætur visna samfélög og lenda í einhvers konar efnahagslegu og / eða menningarlegu hruni. Um þetta eru til ótal sorgleg, söguleg dæmi.
Fyrir aðeins nokkrum áratugum geisaði kalt stríð milli stórvelda heimsins, milli vesturs og austurs. Churchill lýsti því svo að járntjald hefði verið dregið yfir meginland Evrópu.
Nú er að teiknast upp ný en kunnugleg staða í heimsmálunum og þrjú stórveldi togast á: Bandaríkin, Kína og Rússland. Trump hringir í forsætisráðherra gamals nýlenduveldis, Danmerkur, og vill fá Grænland undir sinn væng. Kína þenur sitt áhrifasvæði út með öðrum hætti, m.a. með landakaupum í Kyrrahafi og í Afríku. Rússar standa í beinum hernaði. Evrópusambandið er ekki með í þessari upptalningu, enda stendur það á brauðfótum, ekki aðeins efnahagslega og hernaðarlega, heldur einnig pólitískt og lýðræðislega. Ekkert af vandamálum ESB eru óvænt enda hefur ESB dregið dám af (lært ósiði af) Sovétríkjunum sálugu (USSR - Union of Soviet Socialist Republics). Fyrir þá sem ekki þekkja söguna þá þýðir "sovét" ráð á rússnesku. Ráðin voru löggjafar- og stjórnsýslueiningar í Sovétríkjunum. Ráðin voru pólitískt skipuð og enginn gat setið þar nema "rétthugsandi" pólitískir gæðingar samþykktu þá skipun, hafandi fullvissað sig um að hlutaðeigandi væri sannfærður og einlægur kommúnisti. Woke-kreddan (krabbameinið) er kommúnísmi í nýjum búningi. Þessi kredda hefur myndað æxlisvöxt um allt stjórnkerfið á Íslandi og innan ESB. Afleiðingin er sú að heilaþveginn íslenskur almenningur hefur kosið yfir síg nýja ríkisstjórn sem hyggst færa járntjald ný-kommúnismans yfir á vestustu odda Íslands með tilheyrandi rétthugsun, ritskoðun og hægfara efnahagslegu sjálfsmorði í sovéskum stíl.
Ísland þarf að taka skarpa beygju, helst algjöra U beygju: Losa sig við Ingu Sæland (og Flokk fólksins) af Alþingi, og framkvæma tímabæra pólitíska endurnýjun, því engin þjóð þolir að hafa einn yfirlýstan (en falskan) hægriflokk sem étur allt upp eftir bandaríska Demókrataflokknum, þ.m.t. stríðsæsingatal og woke-isma (eins og Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar hefur gert). Ef þetta verður ekki gert mun Ísland sannarlega verða "Socialist Republic" í sovéskum stíl þar sem ónýtt bótakerfi bætir ekki upp láglaunastefnu og landlæga spillingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2025 | 21:04
Ellert B. Schram (1939-2025)
Við Hrafnhildur flugum út til Bandaríkjanna sl. nótt. Á sama tíma tók elskulegur vinur minn flugið til austursins eilífa. Við kvöddum hann kvöldið áður á Sóltúni, þar sem hann var friðsæll, en ótrúlega flottur, á endasprettinum. Á dánardegi hans dvel ég í fjarlægu landi og fægi dýrmætar perlur úr fjársjóðum minninganna. Þar birtist hann sinni glaðlegu, kærleiksríku og hlýju nærveru. Bar sig alltaf vel. Kvartaði aldrei. Hugsaði vel um heilsuna og hafði fulla krafta fram á níræðisaldur. Hann var fyrirmynd mín og kennari.
Eitt af því sem ég lærði af honum er að málfrelsið er kjarni alls frelsis og að við megum aldrei vera svo litlir í okkur að afsala okkur þessum innsta kjarna okkar, þessu dýrmætasta frelsi til að tjá það sem í hug okkar, samvisku og hjarta býr. Ekkert og enginn má ræna okkur tjáningunni, enginn ótti, engar hótanir, engir ráðamenn, engar klíkur, enginn hópþrýstingur, engar peningagreiðslur, engin völd, né neitt annað sem heimurinn kann að freista okkar með. Allt annað má taka frá okkur, en ekki frelsið til að tjá okkur; frelsið til að vera við sjálf verður ekki frá okkur tekið, því án þess erum við ekki lengur sjálfstæðir, hugsandi menn.
Ellert B. Schram þóttist aldrei vera neinn annar en hann var. Hann kom hreinn og beinn til dyranna og var ófeiminn við að skella dyrum ef þess þurfti! Samtíminn, með alla sína áhrifavalda, skoðanaleiðtoga, hjarðhegðun og sjálfsritskoðun þarf fleiri slíka menn. Ófrjálst samfélag er gegnsýrt af ótta sem framkallar fábreytni í hugsun og einsleitni í viðhorfum. Frjálst samfélag er samansett af fólki sem nýtir tímann - og orkuna - til að láta hæfileika sína njóta sín, öðrum til góðs og samfélaginu til heilla. Það gerði Ellert B. Schram vel.
Við leiðarlok er þakklæti mér efst í huga fyrir elskusemi, kærleika og vináttu. Guð blessi hann og leiði á himinsins brautum þar sem aftur má spretta úr spori á grænum völlum, hlæja og tala frjálst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2025 | 09:14
Fjölmiðlaþokan
Þegar ritsíminn var lagður frá austurströnd Bandaríkjanna til vesturs opnuðust nýjar boðleiðir milli manna, milli ættingja og vina. Viðskipti urðu auðveldari. Fréttir flugu á svipstundu frá einum stað til annars. Var þetta ekki allt jákvætt? Jú að flestu leyti vafalaust, en í baksýnisspeglinum má sjá að þeir sem efuðust um nýbreytnina höfðu líka rétt fyrir sér þegar þeir bentu á að langflestar fréttir af atburðum hinum megin í heimsálfunni skipta í raun engu fyrir þá sem búa í mörg þúsund kílómetra fjarlægð. Viðvaranir þessara manna hafa ræst: Viska í klassískum skiliningi (um hvernig menn lifi góðu lífi) hefur vikið fyrir fánýtum fróðleik og heilalausri afþreyingu.
Þegar horft er yfir sviðið á 21. öldinni og rætt við yfirlýsta "fréttafíkla" birtist oftar en ekki mynd af þjóðfélagi sem hefur misst sjónar á kjarna tilverunnar og tilgangi lífsins, sem veit ekki hvert leiðin liggur og hefur enga áætlun, enga hugsjón, engan siðferðilega, heimspekilega, andlega undirstöðu. Menn leiðar oftar hugann að því sem gerist í fjarlægum löndum en að tilgangi eigin lífs. Fréttir af lestarslysum í útlöndum taka meira pláss en eigin sálarheill. Upphlaup vegna orða og gjörða frægs fólks í útlöndum taka meira rými en samtöl við börn okkar og foreldra. Áhyggjur af stefnumálum erlendra stjórnmálaflokka fylla meira pláss en umhugsun um hvert við sjálf erum að stefna með okkar eigið líf.
Dagskrárstjórar stórra fjölmiðla setja í raun dagskrá fyrir umræðuefni á vinnustöðum og við kvöldmatarborð fjölskyldunnar. Skoðanaleiðtogar skrifa handrit fyrir fylgjendur sína, sem enduróma og endurtaka það sem þeir hafa heyrt. Mannleg samskipti grynnka þegar hver og einn maður er orðinn að nokkurs konar útvarpstæki fyrir skoðanir annarra. Hver ertu þá í grunninn, ef þú hugsar ekki sjálfur, velur ekki þína eigin leið heldur lætur berast með straumnum? Til hvers er þá lifað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2025 | 09:27
Blaðamaður skólar pólitískan froðusnakk
Sjaldgæfur viðburður átti sér stað í gær. Íslenskur blaðamaður tók pólitískan froðusnakkara í bakaríið, svo faglega og áreynslulaust að óvíst er að Inga Sæland muni bera sitt barr eftir þetta.
Ég fæ ekki betur séð en að þessi flugbeitti blaðamaður sé Andrea Sigurðardóttir, sem er annar af tveimur fréttastjórum viðskiptafrétta Morgunblaðsins. Taka verður fram að undirritaður hefur lengi verið meðvitaður um að Andrea er enginn kjáni, enda virtist hún t.d. snemma sjá í gegnum holtaþoku og villuljós í "kófinu".
Að því sögðu verður líka að taka fram að Morgunblaðið hefur fleiri frábærum fréttamönnum á að skipa, sem sýna og sanna daglega að íslensk þjóð þarf ekki að sturta milljörðum í ríkisfréttamiðilinn RÚV. Íslendingar þurfa heldur ekki reka tilgangslausa ríkisstofnun undir heitinu "Fjölmiðlanefnd" sem mætti leggja niður fyrir hádegi í dag án þess að nokkð gerðist. Um gagnsleysið þarf ekki að tala, það er augljóst öllum. Um undirgefni við stjórnvöld og prinsippleysi þarf hins vegar að ræða, sbr. enn og aftur hvernig nefndin brást eigin markmiðum og tjáningarfrelsinu í "kófinu" og réðst í rándýrt átak með "stuðningi" helsta ritskoðunarapparats heimsins á þeim tíma (Facebook), þar sem almenningur hvar hvattur til að trúa helst engu öðru en því sem birtist í stórum og rótgrónum fjölmiðlum, sem á mælikvarða Fjölmiðlanefndar eru væntanlega helst RÚV, Guardian o.fl. miðlar sem útvarpa "réttum" skoðunum.
Þeir sem skrifa ekki undir afstöðu Fjölmiðlanefndar og RÚV eru kallaðir "rugludallar", en það eru sérstaklega þeir sem viðhafa efasemdir, gleypa ekki allt hrátt, trúa ekki öllu sem sagt er í fréttum, vilja beita gagnrýninni hugsun, neita að láta aðra hugsa fyrir sig, vilja fá að spyrja gagnrýninna spurninga (eins og Andrea Sigurðardóttir, Stefán Einar o.fl.).
Já, "rugludallarnir" eru víða til og hafa lengi verið til, sbr. m.a. þennan rugludall nr. 1 í bókum RÚV, sem gaf þessa lýsingu hér fyrir mörgum árum á trúverðugleika "stórra og rótgróinna fjölmiðla." Þetta gamla viðtal er gjöf mín til ykkar í dag kæru lesendur. Endilega hlustið og leggið sjálfstætt mat á það sem þið heyrið og sjáið. Leyfið ekki öðrum að hugsa fyrir ykkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.1.2025 | 11:47
Nýr dagur í BNA, nótt á Íslandi.
Eitt fyrsta embættisverk nýs Bandaríkjaforseta var að segja upp aðild BNA að WHO með vísan til þess að WHO sé spillt stofnun sem hafi algjörlega brugðist í "kófinu" og vinni nú á því að skerða fullveldi þjóðríkjanna. WHO er að langmestu leyti fjármögnuð af hagsmunaaðilum, sem flestir eru tengdir lyfjaframleiðendum og hafa hagsmuni af því að WHO vinni að því að dæla sem mest af lyfjum í alla heimsbyggðina, jafnvel þótt lyfin hafi ekki farið í gegnum öryggisprófanir og sýnt sé að þau muni hafa í för með sér margvíslegan skaða, fjártjón, aukaverkanir og jafnvel andlát.
Í nóvember 2023 ritaði ég bréf til allra alþingismanna þar sem varað var við því hvert WHO stefndi. Alþingi Íslendinga sýndi málinu engan áhuga. Það er ekki kjörnum fulltrúum Íslendinga að þakka að WHO hafi hlekkst á í ráðagerðum sínum.
Á sama tíma og þetta gerist kemur í ljós að fráfarandi forseti, Biden, hefur kosið að náða einn sinn helsta ráðgjafa, Anthony Fauci, án þess að svara þeirri spurningu hvernig svo óskeikull maður eins og Fauci, sem var vísindin holdi klædd, gæti þurft á náðun að halda. Voru sprautulyfin annars ekki alveg pottþétt örugg og árangursrík (e. safe and effective)?
Ekki eru allir sammála um það og telja að alls ekki hefði átt að sprauta ungmenni með umræddum lyfjum, en slíkar ábendingar þykja kannski enn óþægilegar? Þegar Fauci og WHO lögðu saman varð mögulega úr einhver dimmasti kafli síðari tíma sögu.
![]() |
Harma ákvörðun Trumps |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)