Borgaraleg skylda okkar allra

Í kvæði Jóns Helgasonar, skálds og prófessors, í Árnagarði, má finna eftirfarandi ljóðlínur: 

Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum,

andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum,

kveiking í hugskoti handan við myrkvaða voga

hittir í sál minni tundur og glæðist í loga.

Þessar línur áttu vel við þegar ég las bókina A State of Fear eftir Lauru Dodsworth og hnaut þar um eftirfarandi línur:

I had some fear about contracting Covid, but I soon realised I was more frightened of authoritarianism than death, and more repulsed by manipulation than illness.

Orð Lauru lýstu afstöðu minni betur en mér hafði sjálfum tekist að orða. 

Þetta er sú rót sem hefur knúið mig áfram síðustu ár í þeirri viðleitni að reyna að vekja Íslendinga til meðvitundar um þá háskalegu öfugþróun sem er að eiga sér stað á stjórnarfarinu, í átt frá valddreifingu til samþjöppunar valdsins, í átt frá þingræði til sérfræðingaræðis, í átt frá lýðræði til fyrirtækjaræðis, í átt frá lýðveldi til skrifstofuveldis

Í þessum tilgangi hef ég ritað tugi greina, haldið fjölda fyrirlestra, stigið út á vettvang stjórnmálanna (nógu langt til að skynja að kjörnum fulltrúum finnst þessi umræða mjög óþægileg), talað í útvarpi, opnað blogg-síðu, haldið fundi og nú síðast: Prentað tímarit. Þetta hef ég ekki gert í fjárhagslegum tilgangi eða vegna persónulegs metnaðar, heldur vegna þess að ég tel það borgaralega skyldu að andæfa og sporna við framangreindri afturför.

Ég hef varið nógu mikilli orku í þetta til að átta mig á að nú er að verða umsnúningur, þótt sú umbreyting sé enn full hægfara. Margir eru að vakna en finna ekki hjá sér kjark til að andmæla, jafnvel ekki þegar þeim er sagt að 2+2 séu 5. En umpólunin í frelsisátt mun verða fyrr en síðar. Þá munu ofríkismennirnir sem vildu hafa vit fyrir okkur með stöðugt fleiri ,,inngripum stjórnvalda" ekki líta vel út. Sagan mun kveða upp sinn dóm. 

E.S. Hér eru upptökur frá þremur fundum sem haldnir voru á AkureyriAkranesi og í Sandgerði síðustu daga. Menn geta óhræddir hlustað / horft, því þarna er ekkert sagt sem kalla mætti ljótt eða ómálefnalegt :)

 

 


Bloggfærslur 20. október 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband