26.9.2023 | 13:15
Harðstjóri lætur sig hverfa
Þegar horft verður til baka yfir atburði síðustu ára munu ófáir stjórnmála-,,leiðtogar" fá nöfn sín rituð á svartan lista yfir þá sem smánuðu lýðræðishefðir og sjálfa sig, misnotuðu völd sín og grófu undan réttarríkinu. Þeirra á meðal er Daniel Andrews, sem nú hefur fyrirvaralaust hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Viktoríu-fylkis í Ástralíu. Á ferli sínum umbreytti Andrews þessu áður frjálslynda svæði í lögregluríki, þar sem stjórnað var með boðum og bönnum, m.a. með lengsta útgöngubanni sem beitt var í kófinu, bólusetningarskyldu og aðskilnaðarstefnu sem gerði óbólusetta að annars flokks borgurum, sem bætir gráu ofan á svarta mynd umframdauðsfalla í Ástralíu. Öllu þessu framfylgdu Andrews og handbendi hans af grimmilegri hörku svo sem sjá má m.a. hér, viðkomandi lögreglumönnum til ævarandi skammar og almennum borgurum um víða veröld til viðvörunar um það hvernig verðir laganna geta umbreyst í þrælmenni valdsins ef höggvið er á samfélagslegar rætur opinbers valds og menn fara að ímynda sér að valdið eigi uppruna sinn í ráðherrastólum en ekki hjá þeim sem landið byggja.
Hvort sem skyndileg afsögn Andrews stendur í beinu eða óbeinu sambandi við þá staðreynd að stöðugt koma fram nýjar upplýsingar sem benda til að bólusetningarskylda hafi ekki stuðst við læknisfræðileg rök og í reynd borið öll einkenni valdboðs og geðþótta, þá má gleðjast yfir því að stjórnlyndu gerræðisfólki fækki á valdastólum hins vestræna heims.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)