24.11.2024 | 11:14
,,Rödd samviskunnar er lágvær en skelfilega skýr"
Á síðustu vikum hef ég sótt fleiri pólitíska fundi en ég hef áður gert á allri lífsleiðinni. Þegar fylgst er með fyrirsvarsmönnum ríkisflokkanna (sem skammta sér 4 milljarða kr. úr ríkissjóði á hverju kjörtímabili) tel ég mig geta greint betur hvernig hinn pólitíski ,,leikur" er spilaður á Íslandi: Atvinnustjórnmálamenn segja það sem þeir telja að fólkið vilji heyra. Í framkvæmd getur þetta að vísu haft þá óþægilegu myndbirtingu að fulltrúar flokkanna segja eitt á fundi um orkumál og eitthvað allt annað á fundi um náttúruvernd. En slík óheilindi virðast ekki trufla þá sem vilja vera atvinnumenn í stjórnmálum. Ekki virðist vera gerð rík krafa um það að menn séu samkvæmir sjálfum sér og blaðamenn hér á landi leggja sig ekki fram um að draga fram mismuninn á loforðunum sem gefin eru og því sem flokkarnir gera í framkvæmd. Trekk í trekk falla of margir kjósendur fyrir fallegum loforðum í stefnuskrám flokka sem áratugum saman hafa þó sýnt og sannað að þeim er ekki treystandi.
Um þetta mætti skrifa langa ritgerð, en tímans vegna læt ég nægja að benda fólki á að bera saman málflutning stjórnmálaflokkanna á eftirfarandi fundum:
1. Fundur Alþjóðamálastofnunar HÍ 14.11. sl. um öryggi, varnir og alþjóðasamskipti Íslands, þar sem fulltrúi Pírata (sjá 47:40) sagði að loftslagið væri að breytast (sem það er vissulega alltaf að gera) og að ríkisstjórnin þurfi að gera meira þrátt fyrir að hann segi sjálfur að óvíst sé hvort hitastig muni hækka eða lækka! Ísland á samkvæmt þessu að halda áfram að borga, jafnvel þótt Alþjóðabankinn geti ekki gert grein fyrir afdrifum 41 milljarðs USD sem greiddir hafa verið úr loftslagssjóðum síðastliðin ár.
2. Fundur Samorku 19.11. sl. þar sem flestir flokkar (nema XL) virtust mjög áhugasöm um vindorkugarða.
3. Fundur Landverndar 23.11. sl. þar sem flestir flokkar (aðrir en XL) virtust hafa skipt um skoðun á vindorkugörðum.
4. Fundur með Grindvíkingum um stöðuna þar 23.11. þar sem ástæða er til að benda fólki að hlusta vel eftir málflutningi frambjóðenda þeirra tveggja flokka (Samfylkingar og Viðreisnar) sem vilja framselja íslenskt ríkisvald til ESB. Málflutningur þessara manna gengur allur út á að hafa vit fyrir fólki. Víðir frá Samfylkingu talaði á Orwellískum nótum þegar hann sagði að ríkið þyrfti að "safna upplýsingum um börnin" okkar, á meðan XL leggur áherslu á að foreldrar og fjölskyldur eru þau sem þekkja börnin best og eru fullfær um að halda utan um þau þegar mest á reynir. Guðbrandur frá Viðreisn afhjúpaði ólýðræðislega nálgun síns flokks þegar hann sagði að við ættum að láta kerfin stjórna för (sjá mín. 1.52). Þegar ég andmælti því (mín. 1.54) brást Guðbrandur ókvæða við eins og heyra má á upptökunni.
5. Fundur breiðfylkingar heilbrigðisstarfsfólks 22.11. sl. þar sem landlæknir og heilbrigðisráðherra eru allt í einu farin að tala um persónulegt samband í heilbrigðisþjónustu og nauðsyn þess að nýta persónulegt hæfi hvers og eins heilbrigðisstarfsmanns í samskiptum við sjúklinga og viðeigandi læknismeðferð fyrir hvern og einn, en þessir sömu ráðamenn beittu sér þó fyrir því í framkvæmd að ein ríkislausn væri notuð fyrir alla í kófinu og einni samræmdri meðferð beitt á alla með lyfjagjöf, lokunum o.fl. Sjá nánar hér.
Ég á mér þá ósk að við í Lýðræðisflokknum náum því í gegn að fólk þori að kjósa með hjartanu og láti ekki glepjast af gylliboðum atvinnustjórnmálamanna, sem kunna að spila með fólk.
Við erum ekki af baki dottin og munum gefa allt í þetta á síðustu dögum, hjarta, lifur og lungu, en aldrei þó heilindi okkar og samvisku.
,,Rödd samviskunnar er lágvær, en skelfilega skýr" Sigurður Hallur Stefánsson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)