28.12.2024 | 18:11
Fait accompli?
Bjarni Benediktsson segir að Sjálfstæðisflokkurinn muni ,,beita sér af hörku gegn aðild að ESB, það byggi á hugsjón." Þessi sami flokkur mun þó væntanlega styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar um bókun 35(!), frumvarp sem miðar að því að auka áhrifavald ESB hérlendis og mun færa Ísland skrefi nær þeirri réttareiningu (þ. Gleichschaltung) sem ESB stefnir að með "æ nánari samruna" (e. "an ever closer union"). Áhugavert verður að hlusta á málflutning þingmanna Sjálfstæðisflokksins í umræðum um bókun 35 og fylgjast með því um leið hvernig sömu þingmenn ætla að stilla sér upp sem trúverðugum málsvörum fullveldis og sjálfstæðis Íslands. Tjónið sem unnið verður með samþykkt þessa frumvarps mun mælast í því að skerða varnir sjálfstæðismanna í öllum flokkum (sjálfstæðismanna með litlu essi), því þegar ríkisstjórnin lætur til skarar skríða 2027 munu ESB sinnar segja að málið sé í raun afgreitt (fr. "fait accompli"), því að svo stór hluti íslenskrar löggjafar eigi þá þegar uppruna sinn í Brussel að of seint sé að snúa við. Þessum áróðri mun RÚV sturta yfir landsmenn mánuðum og misserum saman, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem Viðreisn og Samfylking ætla að keyra í gegn.
E.S. Eftir að hafa fylgst með því hvernig ráðherra Flokks fólksins hefur selt samvisku sína fyrir 30 silfurpeninga ... afsakið, ráðherrastól, og nú hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hyggst leika tveimur skjöldum, þá sannfærist ég um að baráttan fyrir sjálfstæði Íslands sé ekki töpuð, heldur sé rétt að byrja. Sá dagur nálgast að Íslendingar muni sjá í gegnum óheilindin og hugsjónaleysið sem gegnsýra íslensk stjórnmál.
P.S. Til gagns og gamans læt ég fylgja hér með grein sem kom upp í hendurnar á mér í áramótatiltekt nú áðan, en þetta er úrklippa úr Morgunblaðinu frá árinu 2001 [smellið til að stækka]. Höfundur er Hannes Jónsson, fv. sendiherra. Í grein sinni lýsir Hannes hvers konar fyrirbæri ESB er, þar sem stóru ríkin stýra ferðinni og litlu ríkin eru í farþegasæti. Hann spyr: "Er nokkur hugsandi Íslendingur svo aum undirlægja að vilja þessa framtíð fyrir Ísland?"
Voru Íslendingar með skrúfurnar betur hertar í kollinum árið 2001 en í dag? Vonandi ekki.
Þetta mun allt enda með ósköpum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)