29.8.2024 | 08:46
Meinvarp í þjóðarlíkamanum
Kæru lesendur.
Við búum í landi þar sem einum fjölmiðli er með lögum veitt sérstök vernd og sérstakur forgangur að augum og eyrum landsmanna. Þannig segir í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið (RÚV) að markmið laganna sé
að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
Undir þessu yfirskini er áætlað að RÚV fái 6,1 milljarð króna (sexþúsundogeitthundraðmilljónir króna) af almannafé á árinu 2024.
Fyrir allt þetta eiga Íslendingar að vera þakklátir og enn er það svo, að stór hluti þjóðarinnar tekur frá dýrmætan tíma dag hvern til að hlusta á boðskap RÚV um hvað beri að telja rétt og rangt. Í þeim tilgangi hefur RÚV sérstaka kennimenn á launum, sem ætlað er að hjálpa okkur hinum að geta gert greinarmun á því sem telja ber annars vegar til sannleika og hins vegar til ósanninda. Í þessum efnum höfum við Íslendingar sannarlega verið lánsöm, því RÚV hefur útnefnt menn eins og Boga Ágústsson og Egil Helgason sem helstu menningarvita til að hjálpa hinum óupplýstu að rata í þeirri þoku sem iðulega byrgir sýn í stórháskalegri ,,upplýsingaóreiðu" umheimsins, enda virðast ráðamenn vantreysta almenningi til að beita eigin dómgreind, hyggjuviti og innsæi til að greina rétt frá röngu.
Fyrir sléttri viku síðan stimplaði RÚV heimsþekktan mann, Robert F. Kennedy jr., opinberlega sem ,,rugludall". Fyrst RÚV notar slíka sleggju til að berja manninn með, þá hlýtur hann væntanlega að vera snarruglaður. Hverjar eru sakirnar? Jú, í fyrirsögn RÚV segir að hlutaðeigandi sé ,,þekktur sem harður andstæðingur bólusetninga og fyrir að trúa á alls kyns samsæriskenningar".
RFK er ekki alfarið á móti bólusetningum, enda sjálfur margbólusettur, en hann er á móti lyfjagjöf sem ekki hefur farið í gegnum tilskilin gæðapróf og ekki verið rannsökuð til hlítar, sjá t.d. hér.
RFK er stálgreindur maður og trúir þar af leiðandi auðvitað ekki ,,öllum samsæriskenningum" eins og ýjað er að í ,,fréttaskýringu" Boga Ágústssonar, þar sem vinnubrögðin eru ekki fagleg, endurspegla metnaðarleysi, bera vott um óheiðarleika og einkennast af virðingarleysi, bæði fyrir umfjöllunarefninu og þeim sem greiða fyrir ,,vinnu" fréttamannsins.
RÚV vanvirðir daglega þann grunn íslenskrar menningar sem byggir á mótmælendahefðinni, nánar tiltekið rétti einstaklingsins til að andmæla kennisetningum, menningarvitum, fræðimönnum og kennivaldi samtímans, sbr. siðaskiptin hér árið 1550 á þeim grunni sem lagður var af Lúther. RÚV ætlar almenningi fyrst og síðast að sýna fylgispekt og undirgefni við ráðandi öfl, þ.e. þá sem leggja línurnar í daglegri fjölmiðlaumfjöllun. RÚV skilur ekki (eða hefur gleymt því) að margt það sem viðurkennt er í samtímanum var stimplað sem samsæriskenningar áður en upplýsingastíflan brast. Dæmi: Skaðleg áhrif tóbaks, Watergate-hneykslið o.fl., sjá hér.
RÚV er orðið meinvarp í þjóðarlíkamanum. Ef einhver dugur væri í þingmönnum væri búið að skrúfa fyrir fjárveitingar til þessarar stofnunar, en ekki stöðugt aukið í þær eins og því miður er enn verið að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)