10.1.2025 | 09:04
Róm þá, Ísland nú?
Tvær meginskýringar á falli Rómaveldis eru taldar þessar: 1. Stöðugur stríðsrekstur á ytri landamærum. 2. Of margir voru komnir á ríkisjötuna.
Margt hefur vissulega breyst síðan í fornöld, en lögmál tilverunnar eru óbreytt. Ef enn má leggja til grundvallar að höfuð fisksins úldni fyrst, þá gefa fyrstu verk nýrra ráðherra ekki sérlega góð fyrirheit. 1. Nýr utanríkisráðherra settist upp í flugvél og flaug alla leið til Úkraínu til að lýsa stuðningi við áframhaldandi stríðsrekstur með tilheyrandi fjárframlögum úr tómum ríkissjóði. 2. Nýr samgönguráðherra skráir lögheimili sitt á eyðibýli úti á landi og hækkar þar með mánaðarlaun sín um tæplega 200 þúsund. Þetta sama fólk talaði fjálglega um aðhald í ríkisrekstri fyrir kosningar, en hér sem oftar fara orð og athafnir ekki saman.
En íslenskir kjósendur láta allt yfir sig ganga, því þeir vilja trúa því að íslenskir ráðamenn séu velviljaðir og að stjórnarfarið á Íslandi sé tiltölulega óspillt. Ef lesendur hafa efasemdir um þessa afstöðu Íslendinga má rifja hér upp að brátt verða liðin 5 ár frá því þjóðin var tekin á taugum og í framhaldi smalað í stórum hjörðum inn í íþróttahús til að þiggja fleiri en eina - og fleiri en tvær og þrjár - sprautur af lyfi sem lyfjaframleiðendur tóku enga ábyrgð á, en bannað var að efast um. Umræðuhöftin slógu ekki á trúgirni landsmanna. Og enn í dag vilja fæstir Íslendingar efast um réttmæti aðgerðanna sem stjórnvöld réðust í til að vinna bug á "veirunni skæðu" með plastskilrúmum (!), grímuskyldu (þegar fólk stóð upprétt!) og gagnslausum lyfjum.
Einhvern daginn munu Íslendingar fara að skoða samhengi hlutanna betur. Þá gæti komið í ljós að þótt íslenskir ráðamenn séu ekki þeir spilltustu í heimi og vilji landsmönnum allt hið besta (meðan stjórnvöld fá að senda greiðslur inn á eigin reikninga og til vopnaframleiðenda) þá séu þeir undir áhrifavaldi erlendra kollega sinna og láti um of stýrast af hugsunarlausri þjónkun við þá sem mestu ráða úti í heimi. Hér heima heldur fiskurinn (ríkið) áfram að úldna með því að embættismenn hlýða líka í hugsunarleysi, sem og almenningur. Guð blessi Ísland.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)