Maður eða mús?

Þetta eru stórmerkilegir tímar sem við lifum nú. Einu tímabili er að ljúka og annað er að hefjast. Horft verður til baka og nýtt mat lagt á það sem sagt var og gert síðustu ár. Ef menn hafa ennþá efasemdir um að vindáttin sé að breytast, þá er nóg að horfa á þetta viðtal Joe Rogan við Sykurberg þar sem sá síðarnefndi viðurkennir að fyrirtæki hans hafi stundað ritskoðun að kröfu Bandaríkjastjórnar. Þetta vissum við reyndar fyrir löngu, þótt Fjölmiðlanefnd, Landlæknisembættið o.fl. geti enn ekki viðurkennt að hafa tekið þátt í að þrengja að umræðu og berja niður heilbrigða sannleiksleit í samstarfi við Fésbók.

Við verðum – bæði sem einstaklingar og sem samfélag - að draga lærdóm af því sem gerst hefur á síðustu árum. Einn helsti lærdómurinn er sá að við verðum að beita gagnrýninni hugsun og leyfa okkur (og öðrum) að nálgast mál með opinn huga. Hin leiðin er sú að láta aðra velja fyrir sig og feta „ríkisleiðina“ og samþykkja allt sem valdhafar segja okkur að gera. Þegar samviskan nagar okkur að innan er svarið ekki að leggja á flótta og segja t.d. að við viljum „alls ekki ræða um bóluefnin“. Þetta þarf að ræða og margt annað. Almennir borgarar þurfa að draga lærdóm af því sem gerðist, en líka embættismennirnir sem viku sér undan skyldum sínum við sannleikann og fóru að þjóna valdinu. Fátt er einfalt í lífinu en eitt er þó nokkuð ljóst að lífið krefur okkur um að þora að standa í fæturna þótt aðrir / flestir / allir séu með aðra skoðun. Ef þú vilt standa undir nafni sem maður verður þú að standa með því sem þú telur rétt. Í því felst þó ekki að þú hafir rétt til að kæfa aðra með þínum sannleika. Í frjálsu samfélagi gefur enginn þér umboð til að tala fyrir allan almenning. Í frjálsu samfélagi gerir þú engum gagn með því að segja bara það sem allir vilja heyra. Þitt hlutverk er að birta þitt sjónarhorn, án meðvirkni, og vinna með öðrum – með opnum huga – í leit að ljósi og sannleika.


Bloggfærslur 12. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband