Eyðimerkurgangan

Bandaríkjamenn eru u.þ.b. þúsund sinnum fleiri en Íslendingar. Það þýðir að gera megi ráð fyrir að þar búi þúsund sinnum fleiri vitleysingar en hér, en líka þúsund sinnum fleiri vitringar - og allt þar á milli. Þetta er þó sett fram með þeim fyrirvara að ekki er víst að ég og t.d. "sérfræðingar" RÚV værum sammála um hvernig raðað yrði í þessa flokka. Dæmi: RÚV kallar Robert F. Kennedy "rugludall" á meðan ég myndi kalla hann réttsýnan, hugrakkan baráttumann fyrir því sem er satt og rétt, göfugt, dygðugt og lofsvert. 

Þetta er nefnt hér eftir að hafa horft á viðtal við RFK þar sem hann fjallar um mikilvægi þess, fyrir okkar andlega þroska og vonandi uppljómun, að menn fari í gegnum einhvers konar eyðimerkurgöngu. Vitnar hann í því samhengi til Móse, Jesú, Búdda o.fl. Frammi fyrir þessu hvarflaði hugurinn til þeirrar spurningar hversu margir Íslendingar tali á þessum nótum um tilveru sína í samhengi við málefni líðandi stundar. Leitt er frá því að segja að ýmsir þeir sem vildu gefa mér ráð á síðasta ári réðu mér frá því að ræða viðfangsefni líðandi stundar í sögulegu, trúarlegu eða heimspekilegu ljósi. "Íslendingar hafa ekki áhuga á neinu slíku" / "Íslendingar þekkja þetta ekki og fá minnimáttarkennd" / "Þetta skiptir engu máli, Íslendingar vilja bara heyra umfjöllun um það eina sem er sannarlega mikilvægt, þ.e. efnahagsmál". 

Í minni eigin eyðimerkurgöngu, þar sem vinna þarf úr reynslu síðasta árs, er þetta einna erfiðast að melta: Að þjóð mín sé ekki meðvituð um það að við erum í grunninn andlegar verur, sálir í dauðlegum líkömum, og að hlutverk okkar hér sé að leita ljóss og sannleika, en ekki að keppa við hvert annað í myrkrinu um peninga og veraldleg völd. 

 


Bloggfærslur 19. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband