Bjarni og Justin

Á einum og sama deginum lýsa tvær vonarstjörnur ,,framsækinna" stjórnmála nútímans því yfir að þær muni brátt hverfa af sjónarsviðinu. Bjarni Benediktsson og Justin Trudeau eiga það sameiginlegt að hafa viljað framselja völd til alþjóðastofnana á kostnað þjóðríkisins sem þeir voru kjörnir til að þjóna; báðir hafa þeir viljað draga úr áhrifum kjörinna fulltrúa og unnið að því að efla yfirþjóðlegt vald; báðir hafa dregið taum risafyrirtækja á kostnað meðalstórra og smærri fyrirtækja; báðir hafa verið talsmenn vopnakaupa og hernaðar, auk þess sem þeir hafa báðir unnið að því að þenja út ríkisbáknið í heimalöndum sínum á kostnað sjálfsákvörðunarréttar borgaranna. 

Bæði Bjarni og Trudeu hafa sem flokksformenn snúið flokkum sínum á hvolf: Trudeu er formaður flokks sem kennir sig við frjálslyndi (e. Liberal) en orð og verk Trúdós hafa þó verið allt annað en frjálslynd, sbr. þessi dæmi hér og þetta hér líka. Þrátt fyrir framgöngu sína gegn trukkabílstjórum o.fl., þar sem riddaralögreglu var sigað á friðsama mótmælendur, var hann sérstakur vildarvinur íslenskra og norrænna ráðamanna. Sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur Bjarni snúið flokknum frá þeim gildum um fullveldi og sjálfstæði sem hann var reistur á árið 1929. Undir hans stjórn skoraði Sjálfstæðisflokkurinn óteljandi sjálfsmörk, sótti ekki fram undir sínum eigin gunnfána; úthýsti þeim sem vildu að Sjálfstæðisflokkurinn stæði undir merkjum; auk þess sem Bjarni lét sér lynda að sitja í ríkisstjórn með kommúnistum árum saman, þar sem dýrustu hugsjónir og prinsipp virtist mega selja fyrir aðgengi að valdastólum.  

Bæði Bjarni og Trúdó eru vel af Guði gerðir, dagfarsprúðir og kurteisir í daglegum samskiptum, en áttu það til að sýna á sér aðrar og verri hliðar á opinberum vettvangi. Í tilviki Bjarna tel ég að þar hafi hann fallið í gryfju vondrar ráðgjafar, sbr. það hvernig hann reyndi að gera grýlu úr þeim sem vilja að stjórnmálamenn og embættismenn verji hagsmuni Íslands innan EES og mótmæla þeirri einstefnu sem einkennt hefur EES samninginn í seinni tíð. Varðstaða um sjálfstæði og fullveldi Íslands er hjartað í stefnu Sjálfstæðisflokksins, en ekki harðlína og þaðan af síður öfgar.

Á persónulegum nótum óska ég Bjarna Benediktssyni og fjölskyldu hans velfarnaðar í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Þetta er góður tímapunktur fyrir hann að stíga frá borði í Sjálfstæðisflokknum því ljóst er að á næstu vikum, mánuðuðum og misserum mun sverfa til stáls innan flokksins, ekki aðeins um formannssætið, heldur um það hvað flokkurinn ætlar í raun að standa fyrir. Í minningargrein um föður minn, Jón Guðmundsson, sem jarðsunginn var í síðasta mánuði, fór Bjarni fögrum orðum um Jón og ekki að ástæðulausu, því Jón var einn af hans traustustu stuðningsmönnum og átti stóran þátt í að koma Bjarna inn á þing fyrir 22 árum. Við höfum því alltaf verið Bjarna vinveittir og sýnt honum stuðning, enda hefur Bjarni svo margt gott til brunns að bera. Mörg af síðustu samtölum okkar fegðanna snerust um Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna. Pabbi var fulltrúi þeirra sem vildu halda tryggð við flokkinn fram í rauðan dauðann, á meðan ég taldi fullreynt og dagljóst að flokknum yrði ekki snúið á rétta braut meðan Bjarni héldi um stýrið og verða þá að vinna gegn eigin hugsjónum og með þeim sem vildu rýra varnir Íslands að óþörfu með því að leggja fram og styðja frumvarp (um bókun 35) sem veikti sjálft Alþingi Íslendinga. Bókun 35 er ekki bara lagalegt þrætuepli, heldur pólitísk eiturpilla, sem veikir stöðu Íslands.

Enn hafa engin viðunandi rök verið lögð fram fyrir þeirri stefnubreytingu sem Sjálfstæðisflokkurinn tók í þessu máli. Í aðdraganda formannskosninga í flokknum gefst almennum flokksmönnum færi á að ræða um grundvallarmál. Líkt og umsækjendur um þjálfarastarf ættu frambjóðendur að leggja fram áætlun um leikskipulag, sem miðar að einhverju öðru en að hleypa andstæðingnum sífellt nær eigin marki.  


mbl.is „Einn fremsti stjórnmálamaður sem við höfum átt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband