Umsnúið og öfugsnúið stjórnarfar

Flestir geta séð með eigin augum hversu margt í umhverfi okkar, stjórnkerfi, skólakerfi, menntakerfi o.fl. er orðið umsnúið, öfugsnúið og brenglað. Ef við förum ekki að taka ábyrgð á okkar eigin málum mun ástandið halda áfram að versna - og það hratt. 

Sjálfur finn ég til borgaralegrar skyldu að reyna að vekja fólk til umhugsunar. En mér er líka orðið ljóst að stór hluti almennings mun ekki vakna fyrr en það sem við höfum þekkt sem borgaralegt frelsi verður horfið á braut. En samt verður að halda áfram að reyna og eftirfarandi texti er skrifaður í þeim tilgangi og birtur í Morgunblaðinu í dag. 

 

Frá upphafi hefur sjálfstæðisbarátta Íslendinga snúist um rétt þjóðarinnar til að setja eigin lög – að hér gildi ekki það sem aðrir fyrirskipa, heldur lög sem byggjast á vilja landsmanna sjálfra. Í gegnum aldirnar hefur þessi grundvallarhugmynd verið kjarni þess sem við köllum fullveldi og sjálfstæði. Jón Sigurðsson lagði áherslu á að Ísland hefði frá upphafi haldið sínum lögum, sbr. áherslu Gamla sáttmála á að Íslendingar héldu ,,íslenskum lögum" og að erlent vald hefði ekki umboð til að þvinga sín lög upp á Íslendinga. Að baki málflutningi Jóns bjó það klassíska viðmið að lögin eigi að vernda frelsi borgaranna. Lögin eru til að verja okkur fyrir ofríki og geðþótta. 


Í þessum tilgangi kjósum við fulltrúa á Alþingi og veitum þeim tímabundið umboð til að setja þau lög sem gilda eiga í landinu. En hver er þá staðan þegar kjörnir fulltrúar afsala sér hlutverki löggjafans eða axla það ekki að fullu, svo sem ef / þegar Alþingi (og forseti) hættir að fara með löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskrá? Samkvæmt 2. gr. stjskr eru það einungis kjörnir fulltrúar íslensku þjóðarinnar sem hafa heimild til að semja, breyta, aðlaga og fella lög úr gildi. Handhöfn íslensks löggjafarvalds á að vera þar sem stjórnarskráin segir að sú handhöfn skuli vera. John Locke, einn áhrifamesti hugsuður vestrænnar stjórnskipunar, lagði áherslu á að í heilbrigðu þingræði geti menn ekki verið bundnir af öðrum lögum en þeim sem sett eru af kjörnum fulltrúum þeirra sjálfra.

Í samræmi við þetta byggist íslensk stjórnskipun á því grundvallarsjónarmiði að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni sjálfri. Þess vegna er frelsið horfið og sjálfstæðið tapað þegar handhafar framkvæmdavalds eða erlends valds eru í reynd farnir að stýra daglegu lífi, en ekki handhafar löggjafarvalds þjóðarinnar. Með slíku fyrirkomulagi er skorið á taugina sem gefur lögunum festu og gildi, þ.e. að þjóðin hafi veitt umboð sitt. 

Greinin sem hér birtist er rituð til áminningar um þá staðreynd, að í rúmlega 30 ár hefur Alþingi samþykkt ALLT það regluverk sem skrifstofuveldinu í Brussel hefur þóknast að senda Alþingi til innleiðingar í íslenskan rétt. Allir sem þekkja til starfa Alþingis vita, að fæstir þingmenn lesa þessa þykku bunka af reglugerðum og tilskipunum frá Brussel. Gera má ráð fyrir að á þessum áratugum hafi það gerst oftar en einu sinni að langir bálkar erlendra reglna hafi verið innleiddir í íslenskan rétt án þess að þingmenn hafi lesið annað en fyrirsagnir og samþykkt innihaldið hugsunarlaust og vélrænt - og þannig gefið óþekktum reglum lagagildi hérlendis sem nú eiga að yfirtrompa íslensk lög ef árekstur verður, sbr. frumvarpið um bókun 35. Verði það frumvarp að lögum er raunveruleg og alvarleg hætta á að í meðförum Alþingis verði valdið yfir þjóðinni afhent erlendum stjórnvöldum, því framkvæmdin hefur verið bremsulaus svo sem áður segir. Orð frumvarpsins „nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað“ mega ekki villa okkur sýn því rúmlega 30 ára reynsla sýnir allt annað. Veiki punkturinn í ferlinu er sjálft Alþingi.

Hvað á að kalla vald sem við höfum ekki stjórn á, annað en stjórnlaust vald? Vald sem enginn bremsar af er hömlulaust. Slíkt vald er andstætt þeim hugsjónum sem lágu sjálfstæðisbaráttunni og stjórnarskránni til grundvallar. Sú þjóð sem áratugum saman innleiðir stjórnlaust, bremsulaust vald mun fyrr en síðar skynja eðlisbreytingu á lögunum: Í stað þess að lögin bindi hendur valdhafa og verji borgarana umbreytast lögin í barefli valdhafa sem beitt er til að berja á almenningi jafnt sem embættismönnum - og þingmönnum sjálfum. Í stuttu máli er þá vernd laganna horfin og réttarríkið orðið að innantómri skel. Tímabundið umboð þingmanna innan marka stjórnarskrárinnar er besta trygging almennings gegn ofríki. Alþingismenn hafa enga heimild til að gefa þetta umboð frá sér til stofnana í fjarskalandinu, hvorki með hugsunarlausri framkvæmd né með beinum stuðningi við frumvarpið um bókun 35, því enginn hefur veitt þeim heimild til að höggva í þær rætur fullveldis, sjálfstæðis, lýðræðis og lifandi lagasetningar sem Alþingi var stofnsett til að verja. Alþingi og framtíð þess tilheyrir ekki þeim sem nú sitja á Alþingi, heldur fólkinu í landinu, íslenskri þjóð. Áhættan er raunveruleg og alvarleg.


Bloggfærslur 4. október 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband