Umpólun sem þarf að ræða

Meginástæðan fyrir að ég hef varað við frumvarpinu um bókun 35 er sú að ég sé ekki rökin með því að fletja út okkar íslensku lagahefð til að samræmast betur lögum ESB. Rökin geta ekki verið efnahagsleg (ESB er í langvarandi hnignunarferli) og ekki lýðræðisleg (ESB er ólýðræðislegt, miðstýrt skrifstofuveldi). 

Eins og allir aðrir hef ég séð framan í ásjónu hins miðstýrða, ólýðræðislega og fjarlæga valds. Það gerðist í ársbyrjun 2020 þegar fjölmiðlar, ríkisstofnanir og stjórnmálaflokkar snerust gegn þeim frjálslyndu og lýðræðislegu undirstöðum sem vestræn samfélög höfðu staðið á fram að því. Í stað þess að verja rétt fólks til að leita sannleikans á sjálfstæðum forsendum tóku yfirvöld sér leyfi til að segja okkur hver væri hinn eini viðurkenndi sannleikur. Afleiðingarnar voru þær að allt breyttist: Stjórn Íslands (og annarra landa) var tekin úr höndum kjörinna fulltrúa og sett í hendur handvalinna sérfræðinga, réttindi fólks voru afnumin, þrengt var að rétti fólks til að gagnrýna stjórnvöld og skilyrðislaus krafa gerð til almennings um hlýðni. Þessi skyndilega umbylting stjórnarfarsins, með tilheyrandi takmörkunum á persónufrelsi, samhliða útgáfu á fyrirmælum og með auknu eftirliti gjörbreyttu sambandi okkar við ríkisvaldið og undirstrikuðu hversu veikburða réttindi okkar eru þegar yfirvöld krefjast þess að við þegjum, hlýðum og spyrnum ekki á móti. Mannréttindafrömuðirnir þögnuðu, lögfræðingar þögðu, prófessorar í háskólunum þögðu. Of fáir veittu viðnám. Þingmenn voru sendir heim og dómstólar samþykktu að framkvæmdavaldið skyldi hafa "ríkt svigrúm". í stað þess að búa við temprað ríkisvald varð ríkisvaldið óheft og bremsulaust. Undirstöður réttarríkisins hurfu, nánast á einni nóttu. Um þetta er hvergi rætt. Ekki á Alþingi, ekki í fjölmiðlum og ekki á samkomum lögfræðinga sem kenndar eru við "Lagadaginn". Meðan menn láta eins og ekkert hafi í skorist, meðan þetta tímabil er ekki gert upp með heiðarlegum hætti, þá eru auknar líkur á að svona nokkuð endurtaki sig og heiminum verði aftur skellt í lás af litlu tilefni.

Barátta gegn frumvarpinu um bókun 35 og auknum áhrifum ESB hérlendis er ekki aðeins lagaleg, heldur er hún í reynd einnig söguleg (hver erum við?) og siðferðileg (hvað ber okkur að verja?). Baráttan snýst ekki aðeins um að verja lýðræðislega stjórnarhætti með öllu sem í því felst (þ.m..t. rétti fólks til að tjá sig og gagnrýna stjórnvöld), heldur um hvað það þýðir að vera frjáls manneskja í frjálsu samfélagi, þar sem mönnum leyfist að leita sannleikans og bera ábyrgð á sjálfum sér, samfélagi sínu og framtíð barnanna sinna. 

málþing 2025

 

 


Bloggfærslur 5. október 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband