8.10.2025 | 18:40
Fréttamat íslenskra fjölmiðla í hnotskurn.
Í framhaldi af fyrri færslu minni um ,,ríkisfréttamiðlana" vil ég benda lesendum á skýrt dæmi um hvernig fréttamat þeirra er:
1. Að kvöldi 27. október 2025 var haldinn þverpólitískur, málefnalegur, kraftmikill, líflegur málfundur þar sem fundarmönnum gafst færi á að taka þátt í umræðum um framtíð Íslands undir frábærri fundarstjórn Guðna Ágústssonar, sem er skemmtilegasti maður landsins. Húsfyllir var og þeir sem ekki fengu sæti annað hvort stóðu eða sátu frammi á gangi, sjá mynd. = Enginn blaðamaður mætti.
2. Kl. 15 daginn eftir ganga örfáir mótmælendur með Palestínufána um miðbæinn. = Fulltrúar allra fjölmiðla mættu.
Byggir þú heimsmynd þína ennþá á því sem þú sérð og heyrir í ríkisstyrktum fjölmiðlum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2025 | 11:45
,,Nú verða sagðar ríkisfréttir".
Glöggur maður, sem rekur stórt fyrirtæki og aflar mikilla tekna, sagði við mig í gær að mikilvægasta hlutverk fjölmiðla væri að veita stjórnvöldum aðhald. Eins og aðrir Íslendingar hefur hann áttað sig á því að við búum nú í landi þar sem flestir fjölmiðlar láta sér það lynda að lepja úr lófa ríkisins og mala eins og feitir fresskettir. Samhliða því sem fjölmiðlarnir hafa orðið háðari ríkinu verður þjónkunin við valdið stöðugt meiri. Útkoman er sú að fjölmiðlarnir eru orðnir að bergmálshelli stjórnvalda, þar sem gagnrýnar raddir fá helst ekki að heyrast. Í þessu sambandi eru nánast allir undir sömu sök seldir. Enginn sjáanlegur munur er á áherslum ruv.is og visir.is, þar sem internasjonal sósíalistar skrifa fréttir út frá því sem samræmist rétttrúnaði woke-kreddunnar eins og hún er boðuð af ,,kennimönnum" á borð við Egil Helgason, Illuga Jökulsson o.fl. Vefur Morgunblaðsins er litlu skárri því þar hafa vinstrimenn fengið að leika lausum hala árum saman við það að þýða og endursegja greinar frá Guardian, BBC o.fl., oft með beinum tilvísunum á þessa miðla. Morgumblaðið sjálft er á köflum mjög gott og birtir greinar eftir fólk sem ritstjórnin er ekki sammála. Þegar Davíð er í stuði stendur enginn honum á sporði. Útvarp Saga á miklar þakkir skildar fyrir að vera frjáls vettvangur lifandi umræðu. Samstöðvar-mönnum til hróss má segja að þar fái fjölbreyttari raddir að heyrast en á RÚV stöðvunum. Bylgjan á nokkra góða útvarpsmenn, þar á meðal Heimi Karlsson og Kristófer Helgason, en báðir hafa þeir lagt sig fram um að leyfa alls konar sjónarmiðum að heyrast. Frosti Logason er frábær og vinnur gott, en vanþakklátt starf. Mér þykir leitt að geta ekki sagt neitt sérlega jákvætt um RÚV, en viðurkenni að ég lít á RÚV sem illkynja meinvarp í þjóðarlíkamanum sem þarf að geisla burt.
Ástæðan fyrir niðurlægingu nútímafjölmiða er sú að viðskiptamódelið þeirra í raun hrundi með tilkomu Internetsins, þegar almenningur fór að geta lesið fréttir ,,ókeypis" og áskrifendur hurfu eins og dögg fyrir sólu. Niðurlægingin fólst í því að til að geta lifað samþykktu þeir það ,,kostaboð" ríkisins að þiggja ölmusu þaðan í skiptum fyrir að verða hátalari fyrir valdhafana, gagnrýna þá ekki og birta helst ekki annað en eina hlið á stærstu málum samtímans, en kalla sjónarmið sem ekki eru ríkinu þóknanleg ,,falsfréttir" og ,,upplýsingaóreiðu". Frumvarpið um bókun 35 er dæmi um það hve einhliða umfjöllunin hefur verið, en í gær munu hafa verið 2 viðtöl á Bylgjunni við menn sem lofsömuðu frumvarpið.
Mér vitanlega var enginn fjölmiðlamaður viðstaddur fjölmennan fund um bókunarmálið, ESB og Ísland í gærkvöldi. Húsfyllir var og mikill þverpólitískur samhugur. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins var mættur og allnokkrir þingmenn Miðflokks, Framsóknarflokks o.fl. Hrósa ber þessum þingmönnum fyrir að mæta og sitja allan tímann, því þetta var langur og kraftmikill fundur, sem mun marka upphaf að kraftmikilli vakningaröldu meðal Íslendinga og koma þingmönnum í skilning um að pólitísk arfleifð þeirra veltur á því hvar þeir standa í máli þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)