1.2.2025 | 12:15
Höfum við mannskap á þingi og í ríkisstjórn sem getur siglt þjóðarskútunni í heila höfn?
Í Aþenu til forna, þar sem lýðræðið er talið hafa fæðst, notuðu menn myndlíkingu um siglingu til að útskýra markmið pólitískra kosninga, þ.e. að velja hæfasta fólkið. Enginn í ríkinu (skipinu) er betur settur ef æðstu ráðamenn (skipstjórnendur) þekkja ekki lögmálin sem allir menn verða að virða ef ekki á illa að fara. Froðusnakkarar geta litið vel út við stýrið, en engin áhöfn er örugg í slíkum höndum þegar stormar fara að blása og öldur að rísa.
Mennirnir eru ljósverur í þeim skilningi að þeir þrá sannleika, birtu, hlýju og kærleika. Til eru lífverur á jörðinni sem þrífast vel í myrkri og stunda þar blóðuga lífsbaráttu, en maðurinn er ekki þannig gerður, sbr. ótal dæmi úr sögunni um að menn (konur eru líka menn) hafi fórnað lífi sínu, eignum, heilsu, stöðu og öryggi sínu til að verja það sem þau töldu gott, fagurt og satt.
Vegna útbreiddrar spillingar á Íslandi, vegna mistaka í vali á æðstu stjórnendum, vegna þess að menn hafa misst sjónar á þeim ljósum sem lýst hafa mannkyninu leið í gegnum dimmustu kafla sögunnar, þá er íslensk þjóð á rangri braut, sem mun enda með árekstri / strandi ef ekkert verður að gert. Við höfum fallið í þá gryfju að kalla hið illa gott og hið góða illt. Við höfum reynt að gera myrkur að ljósi og ljós að myrkri, hið ramma sætt og hið sæta rammt. Þessar röngu áherslur endurspeglast í menntamálum þjóðarinnar, pólitískum ræðum og daglegum fréttaflutningi.
Ísland er frábært land og hefur verið góður staður til að búa á, þangað til nýlega. Við bjuggum í öruggu, samheldnu, frjálsu samfélagi og þrátt fyrir mismunandi pólitískar skoðanir gátum við verið sammála um það sem mestu skiptir, þ.a. hvað teldist gott og illt. Nú hefur þessi samstaða raskast og afleiðingarnar birtast í margvíslegum neikvæðum myndum. Það versta er þó að Íslendingar vilja ekki færa umræðuna upp á æðra plan, vilja ekki heyra minnst á helstu ljósbera mannkynsins, svo sem Jesú Krist, Sókrates eða aðra síðari tíma menn. Nei, þeir halda að stjórnmál eigi bara að snúast um peninga, um það hvernig við getum klórað augun úr hvert öðru, þjónað valdinu (en ekki sannleikanum / Guði) og viðhaldið örlítið lengur þeirri ímynd að allt sé í góðu lagi. En þjóð án áttavita, án siglingafræðinga, án góðra skipstjórnenda getur ekki átt farsæla siglingu.
Af þessari ástæðu deili ég hér 50 atriða lista sem veitir yfirlit yfir grundvallaratriði klassískrar, vestrænnar, heimspekilegrar, guðfræðilegrar, kristinnar hugsunar, sem unninn hefur verið upp úr skrifum Aristótelesar, heilags Ágústínusar og Tómasar frá Akvínó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)