RÚV er risaeðla sem getur ekki lifað í frjálsu umhverfi hins nýja tíma

Ég tilheyri (ennþá) fámennum en ört vaxandi minnihlutahópi, sem kveikir aldrei - og þá meina ég aldrei nokkurn tímann - ótilneyddur á fréttatíma Rúv. Venjuleg nauðung, svo sem hótun um beint ofbeldi myndi ekki duga, enda er það lágmarksréttur hvers manns að mega verja sig. En nóg um það. Í gærkvöldi gerðist sem sagt þessi sjaldgæfi viðburður, að ég horfði á upphaf fréttatíma Rúv vegna þess að annar maður kveikti á þessu kl. (19) í gærkvöldi. 

Á þessum fyrstu mínútum sannfærðist ég enn og aftur um þarfleysi Rúv í nútímasamfélagi og furðaði mig auk þess á fréttamatinu: Fyrsta frétt var um kjarabaráttu hreingerningarfólks á Íslandi, þar sem fréttastofan sjónvarpaði m.a. þeirri staðhæfingu að einhverjir í þeim hópi hefðu þurft að "pissa í fötu" við störf sín vegna álags. Vissulega dapurt ef rétt er, en ætti ekki að vera fyrsta frétt. 

Aðalfréttin mætti afgangi, og þar huldi umfjöllun Rúv jafnmikið og hún upplýsti: Ráða mátti af "fréttaflutningi" Rúv að ræða varaforseta USA á öryggisráðsstefnu í München hefði verið léttvægt grín og m.a. snúist um Gretu Thunberg og Musk. Svo var ekki og það er tímabært að þjóðin sem byggir þessa eyju hér norður í hafi hætti að taka við gerilsneyddum upplýsingum frá fréttastofu Rúv. Ræða J.D. Vance var ekkert minna en sögulegur stórviðburður, sem markar skýr tímamót í varnarmálapólitík Evrópu á 21. öld. Flestir leiðtogar sátu þöglir undir ræðunni og áttuðu sig á því að þeir þurfa nú að endurhugsa alla sína nálgun og breyta um takt, strax í dag, ef þeir ætla ekki að líta út eins og steingerðar risaeðlur: Áframhaldandi ritskoðunartilburðir munu slá þau sjálf í andlitið; orðræða í stíl kommúnista um falsfréttir og rangar / misvísandi upplýsingar (e. misinformation) mun ekki veita neina vörn; klassískt frjálslyndi mun leysa af hólmi gervi-frjálslyndið sem (ókjörnir) leiðtogar ESB og ráðherrar á Íslandi hafa aðhyllst undir því yfirskini að þau séu að "vernda almenning" og "verja lýðræðið". Þetta er allt saman búið og nú þarf ESB í þokkabót að fara að taka ábyrgð á eigin vörnum, sem þýðir í stuttu máli að heimatilbúinn sósíalismi, þar sem peningum almennings er eytt í gæluverkefni stjórnmálamanna, getur ekki lengur viðgengist. Auk þess verða menn að taka ábyrgð á landamærum sínum. Þetta er hinn nýi veruleiki og þeir sem vilja kynnast honum ættu frekar að horfa beint á ræðuna sjálfir, en að móttaka hann í fitusprengdu og gerilsneyddu formi frá ríkisrekinni fréttastofu Rúv. Ræðuna má t.d. sjá hér - og áhugasömum er bent á að þegar Vance mælir fram lykilsetningu í anda Voltaire sem er í raun hornsteinn klassísks frjálslyndis, þá bregður utanríkisráðherra Íslands, Þorgerði Katrínu, fyrir á myndinni (sjá ca. 8.58-9.05), en þá gerist það "óvænta" að þessi helsti talsmaður "frjálslyndis" (lesist: gervi-frjálslyndis) á Íslandi finnur ekki hjá sér neinn vilja til að klappa. Myndskeiðið segir meira en mörg orð. Ræðan í heild segir meira en "frétt" Rúv í gær. 

Í anda Cato hins gamla ætti ég að ljúka öllum pistlum á sömu setningu: "Að lokum legg ég til að RÚV (og ritskoðunarnefndin ... afsakið "fjölmiðlanefnd" verði lögð niður". 

  

 


Bloggfærslur 15. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband