Pólitískir fjandvinir sameinast um bókun 35, gegn hagsmunum kjósenda sinna. Af hverju?

Nú styttist óðum í formannskjör í Sjálfstæðisflokknum. Hvorug frambjóðendanna hafa lýst sig andvígar frumvarpinu um bókun 35 sem fráfarandi formaður og varaformaður hafa ítrekað reynt að koma í gegnum Alþingi og núverandi utanríkisráðherra hefur tekið óbreytt upp á sína arma. Þarna má sjá pólitíska andstæðinga (sem allir hafa á fyrri stigum lýst trúnaði við Sjálfstæðisstefnuna) sameinast um það að vinna í þágu ESB, gjaldfella íslensk lög og veikja stöðu Alþingis. Þeir sem vija halda tryggð við hina góðu og klassísku stefnu Sjálfstæðisflokksins verða að finna sér annan flokk, því ekki eru líkur á að formannskandídatarnir muni breyta um stefnu fráfarandi forystu í þessu mikilvæga efni. Frumvarpið hljóðar svo: 

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

Óhætt er að fullyrða að lítill minnihluti alþingismanna les allar þær skuldbindingar sem fólgnar eru í þeim fjölda EES reglna sem innleiddar eru í massavís í íslensk lög á hverju ári. Þetta er í raun opinn krani og hefur verið í 30 ár, án þess að samningsbundnu neitunarvaldi Íslands hafi nokkru sinni verið beitt. Þetta er óvönduð færibandavinna, en ekki löggjafarstarf. Þetta afhjúpast í því hvernig innleiðingin fer fram, þ.e. með einfaldri þingsályktun, en ekki með hefðbundnu ferli löggjafar, þ.e. að undangengnum þremur umræðum. Þessi aðferð við innleiðingu reglna sem eiga að hafa hér lagagildi stenst í reynd ekki stjórnarskrá. 

Með innleiðingu á reglum ESB í massavís hafa þingmenn innleitt og þannig samþykkt ótal skuldbindingar fyrir hönd íslenska ríkisins sem allar geta yfirtrompað almenn lög frá Alþingi verði frumvarpið um bókun 35 að lögum. Til að staðreyna þetta getur fólk farið inn á vef Alþingis og skoðað hvað þar er í gangi. Á 5 mínútum nú áðan valdi ég, af handahófi, reglugerð nr. 1228/2003 sem finna má hér. 

Skuldbindingar sem verið var að samþykkja með þeirri innleiðingu, fyrir hönd íslenska ríkisins, eru þar "i lange baner". Þar dugar að renna yfir fyrstu blaðsíðurnar: Dæmi: 

-  Stuðla skal að sköpun raunverulegs innri markaðar á sviði raforku með því að auka viðskipti með raforku, sem eru sem stendur vanþróuu í samanburði við önnur svið efnahagslífsins. 

- Ríki hindri ekki viðskipti með raforku yfir landamæri

- Auka samkeppn á innri markaðnum með raforku

Þetta litla dæmi sem áréttar ófarir Norðmanna vega sæstrengja til ESB er til áminningar um að þessi vangæsla íslenskra ráðamanna getur ekki endað nema með ósköpum. 

Íslendingar hafa aldrei samþykkt - og Alþingi hefur aldrei formlega viðurkennt - að veita alþjóðlegum stofnunum vald til að binda hendur íslenskra yfirvalda. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu. 

Í dag kl. 14 hefst í Valhöll málþing um "áform ríkisstjórnar Íslands í Evrópumálum". Þótt ég verði því miður fjarverandi hvet ég alla áhugasama til að mæta og taka þátt í umræðum. 

 

 

 


Bloggfærslur 16. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband