20.2.2025 | 07:08
Frumvarpið um bókun 35: Lykilatriði til umræðu
Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES var það sagt vera í þeim tilgangi að fá aðgang að sameiginlegum markaði. Aðild okkar að EES var aldrei kynnt til sögunnar sem fyrsti þáttur í einhvers konar pólitískum samruna með öðrum Evrópuríkjum og síðar sambandsríki með yfirþjóðlegri stjórn.
Nú, 30 árum síðar er brýnt að við horfumst í augu við þá fullveldisskerðingu sem EES hefur í framkvæmd leitt yfir okkur. Ef Íslendingar vilja eiga síðasta orðið um hvaða lög gilda hér í þessu landi og forðast að festast í sífellt þéttara regluverki ESB (með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í formi hugsanlegra bótamála og erfiðari útgöngu ef / þegar að því kemur) má Alþingi ekki samþykkja frumvarpið sem hér um ræðir. Þar segir orðrétt:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. [Leturbr. AÞJ]
Feitletraða setningin í frumvarpstextanum er að mínum dómi villandi yfirbreiðsla og sjónhverfing. Ef Alþingi verður á annað borð búið að leiða í lög almenna forgangsreglu EES réttar gagnvart ósamrýmanlegum íslenskum rétti, þá sýnir reynslan, bæði ESB ríkjanna og nú reynsla Íslendinga í 30 ár, að 0% líkur eru á því að Alþingi muni setja lög sem fara í bága við EES réttinn, enda myndi slík lagasetning í ríki sem samþykkt hefur forgang EES réttar teljast jafngilda samningsbroti. Slík lagasetning myndi jafnframt vera til þess fallin að opna fyrir óteljandi skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu, þar sem byggt yrði á því að hlutaðeigandi hefðu haft réttmætar væntingar um forgang EES réttar samkvæmt skýrri meginreglu frumvarpsins. Alþingi á ekki að taka þátt í að setja hér lagareglur sem ætlað er það hlutverk að blekkja Íslendinga til að halda að fullveldi Íslands sé óskert þegar búið er að leiða í lög skýrt ákvæði um almennan forgang EES réttar. Alþingi, sem löggjafarþing, getur ekki leikið tveimur skjöldum gagnvart umbjóðendum sínum, þ.e. íslenskum kjósendum, með því að grafa undan löggjafarhlutverki sínu með því að viðurkenna forgang EES reglna en látast á sama tíma geta sett lög sem hagga forgangsreglunum sem stafa frá Brussel. Hér er komið að brennipunkti í íslenskri lagasetningu og íslenskri lögfræði. Viðurkenna þarf heiðarlega og afdráttarlaust hver staðan er. Hún er sú að þegar til kastanna kemur, þ.e. þegar íslenskur réttur stangast á við ESB rétt, þá er krafa ESB afdráttarlaus: Íslenskur réttur skal víkja, því eðli og inntak evrópuréttarins gerir a verkum að skrifstofuveldið í Brussel verður að vera í bílstjórasætinu og að Alþingi geti aldrei verið nema í farþegasætinu í þessu samhengi. Þetta bjagaða valdasamhengi, þessi innbyggða slagsíða, er lykillinn að því að skilja frumvarpið um bókun 35 og veika stöðu Alþingis í því samhengi, sem reynt er að breiða yfir með orðalagi frumvarpsins þótt ljóst sé að frumvarpið er lagt fram vegna þrýstings frá ESB og að sá þrýstingur er til kominn vegna þess að Alþingi leyfist í reynd ekki að beita fullveldisrétti sínum til lagasetningar sem færi í bága við EES rétt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)