Nú er nóg komið: Ráðamenn Íslands eiga að hætta öllu stríðsæsingartali

Hvert er hlutverk Íslands á hinu stóra sviði alþjóðlegra stjórnmála? Hvaða hlutverk getur ríkisstjórn Íslands leikið? Er ekki best að sleppa því að taka þátt í leikritum sem skrifuð eru af erindrekum stórvelda? Færi ekki best á því að forsætisráðherra reyndi að koma fram af einlægni og t.d. lýsa því yfir að Ísland hafni stríðsrekstri, neiti að vera gjammandi smáhundur í bandi þeirra sem heimta að við endurómum þeirra málflutning? Færi ekki best á því að Ísland sé málsvari sátta og friðar, án þess að reyna að endurskrifa söguna í þágu annars hvors deiluaðilans? Hafa ráðamenn Íslands gleymt þeim fornu sannindum að sjaldan veldur einn þá tveir deila? Sem fulltrúar herlausrar þjóðar hafa ráðamenn Íslands ekkert umboð til að koma fram á alþjóðavettvangi eins og málaliðar hervelda.

Saga hinna blóðugu átaka í Úkraínu er nefnilega, því miður, flóknari en sú einfalda útgáfa sem Kristrún Frostadóttir leyfir sér að enduróma hér. Stríðsóðir leiðtogar (flestra) Evrópuríkjanna virðast hafa gleymt því að Internetið geymir fréttir frá 2014, m.a. fréttir CNN af því hvernig stjórnin í Kænugarði lét sprengjum rigna yfir íbúa Donbas héraðsins, sjá t.d. hér. Þessa sögu hefur Jeffrey Sachs prófessor (og demókrati) einnig reifað svo oft að Kristrún ætti að vita betur en að láta mata sig á svona yfirborðslegri, svart-hvítri heimsmynd, sem þjónar engum friðartilgangi.  

Frammi fyrir svo óábyrgum málflutningi er ekki annað hægt að segja en að Íslendingar eiga betra skilið en svona málflutning. Enn frekar verður að segja að Úkraínumenn eiga betra skilið. Íbúar heimsins vilja frið, en ekki stríð. Hlutverk kjörinna leiðtoga er að bera klæði á vopnin, en ekki að henda olíu á eldinn. 


mbl.is Kristrún: Fer ekki á milli mála hver réðst á hvern
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband