Umsögn AÞJ til Alþingis um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35

Hér má finna umsögn mína um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35, þar sem fjallað er um bakgrunn og tilgang EES samstarfsins, áhrif samningsins á íslenska lagasetningu o.s.frv.

Niðurlag umsagnarinnar eru svohljóðandi:

Alþingi og ríkisstjórn Íslands sækja umboð sitt til íslenskra kjósenda. Kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi hafa ekki þegið neitt lýðræðislegt umboð til að afhenda áhrifa- og ákvörðunarvald í hendur erlendra valdastofnana, því það er í reynd það sem frumvarpið um bókun 35 miðar að, hvað sem líður orðalagi um sjálfstæða löggjöf Alþingis.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bókun 35 (og RÚV)

Frumvarpið um bókun 35 er nýjasti kaflinn í lengri sögu þar sem evrópuréttur flæðir sífellt lengra inn í íslenskan rétt. Sú þróun sem hér um ræðir ætti að vekja okkur til vitundar um nauðsyn þess að staldra við og aðgæta hvort Ísland sé komið út á allt aðra braut en lagt var af stað í á árunum 1993 og 1994. EES samningurinn hefur flutt mikið magn erlendra reglna inn í íslenskan rétt. Þetta hefur verið gert án viðunandi umræðu og áhrifin hafa rist dýpra og víðar en sjá mátti fyrir í upphafi. Hér er um að ræða reglur sem orðið hafa til hjá fjarlægu embættisveldi; reglur sem samdar hafa verið á bak við luktar dyr, oft að undangengnum alls kyns „lobbýisma“, kynntar innan skrifstofuveldisins án umræðu og samþykktar andmælalaust af ábyrgðarlausum embættismönnum. Í tilviki Íslands fer þetta samþykki fram í sameiginlegu EES nefndinni (þar sem Ísland hefur aldrei beitt samningsbundnu neitunarvaldi). Í framhaldi hefur Alþingi, með einfaldri þingsályktun, heimilað ríkisstjórninni að staðfesta viðkomandi ákvarðanir fyrir Íslands hönd og skuldbinda þar með íslenska ríkið samkvæmt EES samningnum með því að fella tilgreindar reglur inn í samninginn og innleiða í settan rétt hérlendis með umyrðalausu samþykki kjörinna fulltrúa.[1]

Þeir sem frammi fyrir þessu halda því fram að EES samningurinn hafi ekki skert fullveldisrétt Íslands eða að frumvarpið um bókun 35 breyti engu um frjálst löggjafarvald Alþingis, hafa annað hvort ekki fylgst með EES samningnum í framkvæmd eða eru beinlínis að villa um fyrir almenningi.

Ferlinu má líkja við mulningsvél sem ekki er hægt að losna úr hafi ríki á annað borð fest fingur í vélinni. Þar er staða örríkis eins og Íslands sérlega viðkvæm því reglusetningarferlið hefur í framkvæmd verið bremsulaust og samningsbundnu neitunarvaldi Íslands aldrei verið beitt. Í rúmlega þrjátíu ára sögu EES samningsins hefur það m.ö.o. aldrei gerst að Ísland hafi hafnað upptöku löggjafar í EES samninginn. Ástæðan hefur verið sögð sú að afleiðing slíks væri „bæði lagaleg og pólitísk óvissa“.[2] Í framkvæmd liggur rótin hjá sameiginlegu EES nefndinni þar sem ábyrgðarlausir embættismenn taka ákvarðanir um hvað beri að fella inn í EES samninginn. Jafnvel í brýnustu hagsmunamálum, svo sem orkumálum, hefur því svo verið haldið fram af fræðimönnum í Evrópurétti að ákvarðanir EES nefndarinnar bindi hendur Alþingis og að „útilokað“ sé að fá undanþágu frá innleiðingu reglna ef samið hefur verið, á vettvangi sameiginlegu EES nefndarinnar um upptöku löggjafar í EES samninginn, því að þegar sé búið að semja um löggjöfina.[3] Þessi framsetning er afhjúpandi fyrir þá sem styðja þessa framkvæmd, en um leið óþolandi í stjórnskipulegu samhengi, því stjórnarskrá Íslands ætlar Alþingi meira hlutverk en að taka við lagareglum án andmæla, án umræðu, án aðhalds og án möguleika til úrbóta almenningi til hagsbóta. Í frjálsu og fullvalda ríki verður löggjafarþingið að geta endurskoðað misheppnaðar lagareglur og breytt þeim, leiðrétt mistök og fært efni reglna til betri vegar í þágu þeirra sem byggja landið.

Nú sem ætíð fyrr ber að halda þeim kyndli á lofti að frelsi almennings, hagsmunir minnihlutahópa og pólitískur stöðugleiki, er best varið með því að lög séu ekki sett nema að undangenginni gaumgæfilegri íhugun og vandaðri umræðu þar sem verjast má bráðræði og pólitískum skammtímaþrýstingi. Myndbirting frumvarpsins um bókun 35 gengur þvert gegn þessum undirstöðum lýðræðislegrar stjórnskipunar.

[Þetta reyni ég að útskýra á mannamáli í nýju viðtali (45 mín) sem finna má hér á vefsíðu Þjóðólfs]. 

[1] Sjá m.a. tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) - 149. löggjafarþing 2018–2019, þingskjal 1237  —  777. mál. <https://www.althingi.is/altext/149/s/1237.html> skoðað 23.2.2025.

[2] Sigríður Dögg Auðunsdóttir, „Ekki hægt að sækja um undanþágu frá orkupakka“ (Rúv 30. ágúst 2019) <https://www.ruv.is/frettir/innlent/ekki-haegt-ad-saekja-um-undanthagu-fra-orkupakka> skoðað 22.22025.

 

[3] Sigríður Dögg Auðunsdóttir, „Ekki hægt að sækja um undanþágu frá orkupakka“ (Rúv 30. ágúst 2019) <https://www.ruv.is/frettir/innlent/ekki-haegt-ad-saekja-um-undanthagu-fra-orkupakka> skoðað 22.22025.

E.S. Ef fréttir um þátt starfsmanna RÚV í svonefndu byrlunarmáli reynast réttar, sem reyndar virðist sennilegra með hverjum deginum, þá þarf að taka stöðu, hlutverk og fjármögnun RÚV til heildarendurskoðunar. Engin þjóð, jafnvel ekki þjóð sem þolað hefur aldalanga kúgun, getur sætt sig við að vera skylduð til að fjármagna fjölmiðil sem svo gerist ógnvaldur gagnvart almennum borgum með því að taka þátt í að ráðast inn í einkalíf fólks. Þegar slíkt mál kom upp fyrir nokkrum árum, í tilviki News of the World, var sá fjölmiðill lagður umsvifalaust niður. Verði niðurstaðan sú að RÚV hafi átt þátt í alvarlegu lögbroti og þannig rofið trúnað sinn við lögin og fólkið í landinu væri engin niðurstaða réttari en að loka RÚV. Farið hefur fé mun betra. 


Bloggfærslur 23. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband