3.2.2025 | 19:22
Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.
Fyrir mann sem hefur verið undir smásjá í smásamfélagi er endurnærandi að dveljast í þúsund sinnum stærra samfélagi eins og Bandaríkjunum, þar sem enginn þekkir mann. En svo gerist það samt að Íslendingar birtast á förnum vegi og vilja ræða málin, eins og sérlega skynsöm kona sem ég hitti í gær og deilir sennilegast ekki skoðunum með þeim 96%(!) kynsystra hennar sem vísað var til á þessu bloggi fyrir stuttu. Hún kvaddi með þeim orðum að hún vissi ekki "hvert mál væru eiginlega að þróast á Íslandi". Með orðalagi sínu var hún þó í raun að segja að hún viti vel hvert stefnir.
Öfugt við marga aðra var þessi ágæta kona ánægð með margt hér í vesturheimi. Á rúmlega 50 árum hef ég m.a. áttað mig á að eitt af því sem er sérlega vinsælt á Íslandi er að hallmæla Bandaríkjamönnum. Gáfað fólk á Íslandi (lesist: langskólagengið) virðist, margt hvert, hafa sérstaka ánægju af að kalla Bandaríkja menn "illa upplýsta", "fáráðlinga", "fordómafulla" o.s.frv. Ummæli sem þessi, sem fela í sér alhæfingar um næstum 400 milljóna manna þjóð, lýsa þó sennilega umtalsverðum fordómum.
Þetta skrifa ég eftir að hafa farið víða síðustu daga í BNA og hlustað m.a. á útvarpsumræður þar sem boðið var upp á tvíhliða málflutning tveggja háskólaprófessora um tilskipanir Bandaríkjaforseta, frásögn sérfræðings um ris og hnig Weimar lýðveldisins og viðtal við prófessor frá Cambridge um lífið í Rómaveldi til forna. Í máli þeirrar síðastnefndu kom fram að þrátt fyrir útbreidda spillingu og misnotkun á valdi - og þótt unnt hefði verið að telja svonefnda "góða keisara" á fingrum annarrar handar, þá hefði almenningur og embættismennirnir spilað með valdhöfum og þannig séð til þess sjálf að spillingin varð ekki upprætt. Prófessorinn, sagði að við vildum flest ef ekki öll ímynda okkur að við myndum taka harða afstöðu gegn ofríkismönnum og spilltu embættisveldi, en bætti svo við að sagan sýndi annað: Flestir hugsa bara um að tryggja eigin hag, jafnvel þótt það kosti undirgefni, tjón á samviskunni og skerta sjálfsvirðingu. Frammi fyrir sjálftöku stjórnmálaflokka á fé úr ríkissjóði og frammi fyrir vinavæðingunni sem viðgengst á Íslandi heyrast ótrúlega lágvær andmæli. Kannski er þá betra að geta bent á fólk í annarri heimsálfu og sakað það um lágkúru og spillingu?
Eftir stendur sú spurning hvort Íslendingar séu betur innréttaðir en Rómverjar til forna ... eða Bandaríkjamenn nú á tímum. Svari nú hver fyrir sig. Í þessu samhengi er þó hér til áhugaverðs, lítils fróðleiksmola að líta: Íslendingar, sem hafa í könnunum lýst sér sem ægilega hamingjusömum og jafnvel sem "hamingjusömustu þjóð í heimi" hafa oftar en einu sinni "náð" efsta sæti á alþjóðlegum listum yfir mestu pillu-gleypendur í heimi. Kannski bægja pillurnar þunglyndiseinkennum frá. En ætli þær bæti dómgreindina um leið / geri að verkum að menn telji sig færa um að alhæfa um 400 milljónir manna handan hafsins?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)