4.2.2025 | 12:36
Lögmætar spurningar sem kalla á umræðu og svör
Besta leiðin til að komast að niðurstöðu er að skoða viðfangsefnið út frá öllum hliðum, ekki bara einni. Á þessu lögmáli byggist málflutningur fyrir dómi. Á þessu grundvallast einnig heilbrigð stjórnmál og síðast en ekki síst, þá byggja vísindalegar framfarir einmitt á frjálsri, opinni og beinskeyttri umræðu, þar sem mönnum leyfist að spyrja spurninga, gagnrýna og efast. Í "kófinu" voru slíkar umræður allt í einu ekki lengur leyfilegar. Ekki mátti efast, ekki gagnrýna. Menn sem vildu bera fram spurnignar voru þaggaðir niður, jaðarsettir og sakaðir um að auka á upplýsingaóreiðu eða jafnvel sagðir dreifa samsæriskenningum.
Reynsla síðustu ára hefur vonandi kennt okkur að þetta var ekki besta leiðin til að stýra heilu samfélagi. Sérfræðingar geta verið vel að sér á sínu sviði, en algjörlega fávísir á öðrum sviðum. Guðmundur Guðmudsson er frábær þjálfari, en fyrst og fremst þó á sviði handboltans og ekkert endilega betur fær um það en t.d. ég að stýra lýðheilsumálum þjóðarinnar. (Ég nefni GG bara af handahófi, því hann var einn af mínum uppáhaldshandboltamönnum og ber mikla virðingu fyrir honum sem þjálfara). Við eigum margar perlur í mannlífinu sem allir eru frábærir á sínu sviði, grínista, leikara, tónlistarmenn, veðurfræðinga o.s.frv. en þar með er ekki sagt að þeir séu best til þess fallnir að yfirtaka sín svið og halda þeim í heljargreipum. Þetta gerðum við (og fleiri þjóðir) þó með heilbrigðismál okkar. Og við erum eina þjóðin sem ætlar að leyfa sama fólkinu að halda takinu á þessum málaflokki, sbr. skipun fyrrum landlæknis í embætti heilbrigðisráðherra.
Tvær óverðlaunaðar hetjur, Helgi Örn og Þorgeir, benda á það í þessari nýju Morgunblaðsgrein, að Alma Möller getur ekki leitt gagnrýna umræðu / uppgjör við kóvid-árin. Sjálfur hef ég ítrekað kallað eftir því að samfélag lögfræðinga ræði það á sínum samkomum (Lagadeginum) hvernig réttarríkið var tekið hér úr sambandi og fámennum hópi afhent öll völd. En slíkt uppgjör hefur enn ekki farið fram. Við íslendingar erum eina þjóðin (mögulega fyrir utan Kínverja) sem hafa ekki sýnt heiðarlega viðleitni til að ræða þetta tímabil með gagnrýnum hætti í þeim tilgangi að læra af reynslunni. Hluti þess lærdóms gæti verið fólginn í að hætta að trúa öllu sem kemur fram í fréttatímunum, hætta að gleypa allt hrátt sem sérfræðingar vilja mata okkur með. Helgi Örn og Þorgeir hafa sínar efasemdir um "sprauturnar góðu" sem allir fengu til að verjast "veirunni skæðu". Tímabært er að rætt verði heiðarlega um það hvort "vísindin" hafi breyst í trúarbrögð, hvort læknar hafi stigið inn í hlutverk presta og hvort sérfræðingarnir höfðu höndlað sannleikann þegar þeir fullyrtu að sprauturnar kæmu í veg fyrir að menn smituðu aðra; kæmu í veg fyrir að sprautaðir smituðust; að lyfin væru örugg og árangursrík (e. safe and effective); að lyfin drægju úr einkennum; að börn þyrftu á sprautunum að halda; að grímur veittu vörn; að samfélagslokanir skiluðu árangri; að réttlætanlegt væri að afhenda sérfræðingum valdsataumana, taka þingræðið úr sambandi og breyta réttaríkinu í sóttvarnaríki.
Lýðræðið deyr og réttarríkið breytist í harðstjórnarríki ef enginn ávarpar þessa hluti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)