9.2.2025 | 01:41
Innri barátta manns og þjóðar
Ég hef verið í sorgarferli í nokkrar vikur vegna veikinda og andláts tveggja feðra minna. Á því tímabili hef ég fundið hjá mér þörf til að skamma sjálfan mig og aðra. Ég hef skammast í Íslendingum fyrir að trúa öllu sem þeir heyra í fréttatímum ríkisrekinna fjölmiðla; fyrir að afneita inngróinni og landlægri spillingu á Íslandi; fyrir að ráðast á þá sem raska huggulegri og yfirborðslegri heimsmynd Íslendingsins, því íslenskt samfélag er að mörgu leyti eins og fjölskylda alkohólista sem þolir illa að bent sé á stjórnlausa fyllibyttuna sem rót alls vanda.
Ísland hefur alið marga frábæra einstaklinga. Margir þeirra hafa reyndar kosið að verja stærstum hluta ævinnar erlendis og kannski einmitt þess vegna náð að horfa á Ísland úr nægilegri fjarlægð til að setja fram raunhæfa greiningu. Jónas Hallgrímsson er augljósasta dæmið. Jón Helgason prófessor er annað gott dæmi. Í ljóði Jóns, Í Árnagarði, kemur fyrir eftirfarandi erindi, sem hittir í mark í hvert sinn sem ég les það:
Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum,
andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum,
kveiking í hugskoti handan við myrkvaða voga
hittir í sál minni tundur og glæðist í loga.
Þetta hugsaði ég þegar ég las rit Václav Havel, Vald hinna valdlausu (e. Power of the Powerless), þar sem hann lýsir helsjúku ómenningarástandi Tékkóslóvakíu undir harðstjórn kommúnista, þar sem ómanneskjulegt tækniveldi og skrifstofubákn hafði gjöreytt allri mennsku, allri mannlegri reisn og öllu sem kalla mætti kjarna mannlegrar tilvistar: Trú, heimkynni, þjóðvitund, samfélag o.s.frv.
Kommúnisminn í öllu sínu þrúgandi veldi snerist nefnilega aðeins um eitt: Um efnishyggju. Áherslan var ekki á andann, heldur efnið. Allt snerist um neyslu, auglýsingamennsku og framleiðslu. Í slíku samfélagi höfðu menn tvo kosti: Að spila með samtímanum og valdinu og taka þátt í þeirri stýrðu hegðun sem stjórnvöld vildu framkalla - eða gerast andófsmenn með allri þeirri áhættu sem því fylgdi.
36 árum eftir að múrinn hrundi munum við ekki eftir öllum þægu embættismönnunum sem vafalaust áttu glæstan starfsferil innan þessa spillta og klíkuvædda stjórnkerfis. Nei, við munum eftir mönnum eins og Hável og Solzhenitsyn sem lögu allt undir í andófi til að undirstrika að baráttan var ekki við annað fólk um efnisleg verðmæti, því hin raunverulega barátta, þá eins og nú, er milli anda og efnis, milli ljóss og myrkurs, milli góðs og ills.
Þetta er þriðja ástæðan fyrir sorginni sem ég er að kljást við - og í raun sú þungbærasta, því allt of margir Íslendingar afneita hinni andlegu, guðlegu vídd tilverunnar og reyndu að þagga niður í okkur hjónunum - og svo félögum okkar í Lýðræðisflokknum - þegar við bentum á það sem mestu skiptir, sem er friðar- og kærleiksboðskapur Krists. Íslenskur nútími, með allri sinni sjúklegu og kæfandi efnishyggju, þolir ekki að nafn Jesú eða Guðs sé nefnt.
Við erum í andlegri baráttu. Hið illa er raunverulegt og sjáanlegt öllum sem það vilja sjá. En ljósið skín í myrkrinu og myrkrið fær ekki höndlað það.
Í hvoru liðinu ætlar þú að vera, liði ljóssins eða myrkursins?
![]() |
Það var blóðlykt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)