10.3.2025 | 09:38
Snúum af rangri braut
Daglegar fréttir sannfæra mig um að lengra verði ekki náð í öfugsnúningi. En svo rennur upp nýr dagur þar sem öfugmælin ná nýjum hæðum (réttara sagt: lægðum). Það nýjasta eru "siðferðilegar sprengjur" sem breskir þingmenn hvetja til að keyptar verði undir merkjum ESG (Environmental, social, governmental). Já, nú skal sprengt og drepið í nafni góðs siðferðis, allt stimplað með umhverfisvænum ESG stimpli.
Hvernig fetar fólk sig áfram í heimi þar sem öllu er snúið á hvolf? Þar sem friður er sagður vera verri en stríð, þar sem þjóðarleiðtogar vilja vopnaskak en ekki friðarviðræður og þar sem lýðræði gengur út á að innleiða stefnu sem enginn fékk að kjósa um, þar sem við eigum að fagna fjölbreytileikanum í öllu nema því hvernig við hugsum, þar sem útskúfa má fólki í nafni umburðarlyndis, þar sem fréttir eru áróður, þar sem jafnrétti er best iðkað með því að annað kynið sé skipað í allar valdastöður ríkisins, þar sem okkur er sagt að góð heilsa sé háð því að við fáum sem flestar sprautur og bóluefnin eru svo góð að þau koma ekki í veg fyrir smit, þar sem fullveldi snýst um að framfylgja ákvörðunum erlendra stofnana, þar sem menntun snýst um innrætingu en upplýsandi fræðsla og gagnrýnin hugsun mæta afgangi. Upptalningin gæti verið mun lengri.
Í hinni helgu bók segir að upphaf visku sé að óttast Drottinn. Íslenskt samfélag óttast Drottinn en sá ótti er byggður á öfugum forsendum eins og allt annað, því óttinn snýst um að ekki megi nefna nafn Guðs, því þá sé viðkomandi "skrýtinn". Mögulega er þessi ótti þó rökréttur því í hjarta sínu þekkja allir mun á góðu og illu, kunna að bera kennsl á ósannindi, vita að kynin eru ekki fleiri en tvö, vita að við eigum ekki að ljúga, stela og svíkja. En þegar menn hafa of lengi kallað hið illa gott og hið góða illt, og gert ljósið að myrkri og myrkrið að ljósi, þá vilja menn ekki heyra minnst á Guð. Það er skiljanlegt, en ekki góð afstaða til framtíðar.
Úr smábarnabókunum munum við eftir Emmu öfugsnúnu og Láka, en þau höfðu þó vit á því að snúa af rangri braut og inn á betri veg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)