12.3.2025 | 08:06
Hvæsandi tígrisdýr í gær, mjálmandi kettir í dag?
Venjulegt fólk, almenningur í Úkraínu, Rússlandi, ESB og USA vill fá að lifa í friði. En af einhverjum ástæðum virðast stjórnmálamennirnir vilja stríð. Herskáir kven-utanríkisráðherrar litla Íslands hafa skipað sér þar í framstu röð ásamt leiðtogum ESB, Bretlands o.fl. Sl. þrjú ár, meðan Úkraínu-stríðið hefur framkallað mörg hundruð þúsund manndráp og daglegan harmleik, hafa þessir "leiðtogar" ekkert gert til að bera klæði á vopnin. Fyrr í þessari viku var ESB komið svo langt í stríðsæsingum að Ursula von der Leyen boðaði virkjun neyðarheimildar 122. gr. stofnsáttmála ESB til að sneiða fram hjá öllu lýðræðislegu aðhaldi og setja vopnavæðingu ESB í forgang með 800 milljörðum Evra sem enginn veit hvaðan á að taka. Í sögulegu samhengi ættu öll viðvörunarljós að blikka þegar ráðamenn lýsa yfir neyðarástandi, því slíkt ástand hefur iðulega verið notað til að réttlæta það að stjórnvöld taki stjórnskipulega varnagla úr sambandi. En vika er sannarlega langur tími í pólitík, sérstaklega þegar sjá má stjórnmálamenn breyta um stefnu á nokkrum klukkustundum eftir að ríkisstjórn Úkraínu hefur samþykkt vopnahlé. Kaja Kallas mjálmar nú eins og lítill kettlingur og talar um frið en þessi sama kona hvæsti (brosandi) um allsherjarstríð fyrir aðeins örfáum dögum.
"Leiðtogar" ESB, Bretlands (og Íslands) líta ekki vel út núna eftir allt hernaðartal sitt síðustu ár og vonandi er enn hægt að afstýra þriðju heimsstyrjöldinni. Sjálfur er ég farinn að hallast að því að mesta ógæfa friðsamra borgara sé sú að hafa afhent dómgreindarlausu fólki valdataumana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)