EUSSR?

Á meðan unnið er hörðum höndum að framsali ríkisvalds úr landi til að greiða götuna fyrir framsali á auðlindum Íslands til útlanda, ræða alþingismenn í tæplega 5 klukkustundir um plasttappa. Hvað skýrir þessa áframhaldandi niðurlægingu Alþingis? Hér eru tvær vangaveltur mínar á sunnudagsmorgni: eussr

1. Breski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn C. Northcote Parkinson hélt því fram, í gríni og alvöru, að sá tími sem varið er í umfjöllun um mál á stjórnarfundum sé í öfugu hlutfalli við vandann sem við er að fást. Sem dæmi nefndi hann að ákvörðun um hvort byggja ætti kjarnaofn gæti tekið nokkrar mínútur, en sömu menn gætu svo rætt í hálftíma um hönnun reiðhjólaskýlis og kostnað slíkrar byggingar. Munurinn er sá að menn vita hvað reiðhjólaskýli er (og plasttappar) og treysta sér í umræðu um það sem þeir skilja.

2. Nýtt stjórnarfar er orðið til á Íslandi þar sem allar ákvarðanir sem verulegu máli skipta eru teknar erlendis. Íslenskir ráðamenn vilja hafa ráðamenn ESB yfir sér, jafnvel þótt stjórnarfarið í Brussel beri óþægilegt svipmót ráðstjórnarríkjanna sálugu: 

  • ESB líkist Svovétinu í því hvernig ólýðræðislegt skrifstofuveldi ákvarðar stefnur án almennrar umræðu og án lýðræðislegrar ábyrgðar. Dæmi: Framkvæmdastjórn ESB lýtur litlu sem engu lýðræðislegu aðhaldi. 
  • Andmæli gegn rétttrúnaði ESB eru ekki umborin. Fjórfrelsið skal blíva og er óhagganleg kredda, sem yfirtrompar í framkvæmd jafnvel stjórnarskrárákvæði aðildarríkja. 
  • Miðstýrð efnahagsstjórn ESB líkist áætlunarbúskap Sovétríkjanna. Rétt eins og í Sovét hefur þetta leitt til óskilvirkni og efnahagslegra niðursveiflna.  
  • Fullveldi aðildarþjóða er verulega skert með hagfræðilegum og pólitískum samruna. 
  • Lýðræðislegur vilji almennings er vanvirtur, sbr. það hvernig ESB hefur horft fram hjá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna og endurtekið kosningar þar til "rétt" niðurstaða fæst. Mögulega þýðir þetta að halda þurfi margar þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-aðild Íslands.
  • Sovétríkin framfylgdu hugmyndafræði Marx og Leníns af mikilli hörku. Samruni aðildarríkja er með sama hætti nokkurs konar rétttrúnaðarkredda hjá ESB. 
  • Í Sovétinu voru efasemdamen stimplaðir sem "óvinir framfara". Efasemdamenn um evrópusamruna eru stimplaðir sem vitleysingar eða öfgamenn.

Í tilviki Sovétríkjanna hrundu þau vegna innri veikleika. Þrátt fyrir augljósa innri veikleika ætlar núverandi ríkisstjórn að draga Ísland um borð í þetta sökkvandi skip. 


Bloggfærslur 16. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband