23.3.2025 | 09:30
Örlagastund
Þegar Hæstiréttur Íslands tók til starfa 16. febrúar 1920 var það stór áfangi fyrir íslenska þjóð, því fullveldi felur ekki aðeins í sér að íslensk lög séu sett af lýðræðilega kjörnu Alþingi, heldur einnig að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenskum dómstólum. Um þetta er stjórnarskráin nr. 33/1944 alveg skýr.
Í umræðu um frumvarpið um bókun 35 hefur ekki verið lögð nægileg áhersla á það hvernig frumvarpið veikir þetta eftirlitshlutverk Hæstaréttar Íslands og framselur í reynd dómsvald úr landi því í framkvæmd er æðsta úrskurðarvald um Evrópurétt hjá dómstól ESB. Í því samhengi öllu hafa reglur ESB um fjórfrelsið tekið sæti einhvers konar yfirstjórnarskrár, sem allt annað verður að lúta.
Við stöndum á krossgötum sem gefa verður gaum að: Í stað þess að treysta endurskoðunar- og aðhaldshlutverk Alþingis og íslenskra dómstóla miðar frumvarpið að því að veikja lýðræðislegar undirstöður íslenska ríkisins og ofurselja okkur kerfi sem setur markaðshyggju á oddinn sem æðsta markmið og efsta gildi. Líf Íslendinga lýtur ekki svo einföldum lögmálum og stjórnvöldum ber að taka tillit til fleiri hagsmuna og samræma þá eftir fremsta megni. Það er hið klassíska hlutverk stjórnmálamanna. Frumvarpið um bókun 35 er afsprengi annars konar nálgunar, þar sem sjónarhornið hefur verið þrengt og öllum öðrum hagsmunum en þeim fjárhagslegu er ýtt til hliðar. Allt sem stendur í vegi fyrir eða hægir á markaðsviðskiptum skal víkja, þ.m.t. stjórn á innflytjendamálum, miðlun ódýrrar raforku til heimila og fyrirtækja, lýðræðisleg valddreifing o.fl.
Úr þjóðsögunum þekkjum við frásagnir af mönnum sem á krossgötum mættu efnislegum freistingum og annað hvort stóðust þær eða féllu á prófinu með óafturkræfum afleiðingum. Íslensk þjóð stendur nú á slíkum krossgötum. Runnin er upp örlagastund í sögu þjóðarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)