6.3.2025 | 09:32
Siðferðispróf í rauntíma?
"Tíminn vill ei tengja sig við mig" orti Jónas Hallgrímsson í glímu sinni við að reyna að skilja allt bullið og ruglið sem þessi jarðneska tilvist birtir okkur á degi hverjum. Ljóðlína Jónasar mun hafa verið samin árið 1845 í Danmörku. Hvað ætli hann hefði sagt um forsætisráðherra Dana nú á tímum sem segir frið vera hættulegri en stríð og talar eins og brjálæðingur - og eins og reyndar nánast allir aðrir vestrænir þjóðarleiðtogar - þegar hún kallar eftir því að Evrópa, þ.m.t. Þjóðverjar, vopnvæðist fyrir hundruðir milljarða punda, evra og danskra króna og segi Rússlandi stríð á hendur. Hafa menn ekkert lært af mannkynssögunni? Hvernig geta stjórnvöld hélendis og í Evrópu, sem geta ekki bætt holótta vegi eða veitt viðunandi heilbrigðisþjónustu, réttlætt fjáraustur í stríðstól?
Sem einn mesti snillingur sem Ísland hefur alið, þá skildi Jónas örugglega að brjálæðislegar / heimskulegar (brjálæðislega heimskulegar?) ræður verða ekki skildar á vitsmunalegum forsendum. Í öllum sínum breyskleika og veikleika átti Jónas sterka trú sem var honum haldreipi á dimmustu augnablikum ævinnar. Sem kristinn maður vissi hann því að veröldin freistar með völdum og peningum ("Allt þetta mun ég gefa þér ..." sjá Matt. 4:9) og að valdamenn þessa fallna heims hafa flestir líklegast fallið á prófinu nú þegar. Eða hvernig á annars að skilja málflutning þeirra sem miðar að því að halda fólki í stöðugum ótta og flytja völd og peninga til fámennrar klíku sem stendur í skjóli valdsins?
Getur verið að nú sé í raun verið að leggja fyrir okkur siðferðispróf? Til að standast slíkt próf þarf hver og einn að vega og meta hvað viðkomandi telur rétt að gera. Mannkynið hefur vissulega frjálsan vilja, en því má ekki gleyma að til eru lögmál sem ríkja ofar lögum manna. Ef við ætlum að lifa í friði og spekt á plánetunni Jörð hljótum við að vilja forgangsraða þessum lögum rétt og muna hvað kennt hefur verið um miskunn, fyrirgefningu, góðvild, umhyggju, frið og kærleika. Þá sleppum við um leið við að færa sláturfórnir, hefna okkar, fara í stríð, brenna og drepa.
Þetta er hin eilífa barátta mannsins við sjálfan sig og þennan heim. Þetta jarðneska líf er eitt samfellt siðferðispróf þar sem við höfum daglegt val um hvort við ætlum að velja gott eða illt; hvort við ætlum að hlýða fyrirskipunum manna eða lögum þeirrar samvisku sem talar til okkar allra - ef við gefum henni gaum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)