8.3.2025 | 09:29
Hver er hinn raunverulegi óvinur?
Frammi fyrir óvissu og stríðsógn virðist ríkisstjórn Íslands ætla að halla sér í átt til ESB samhliða því að tala af óvirðingu um Bandaríkin. Talsmenn ESB hafa gefið það út að nú eigi að verja hundruðum milljarða evra í vopnakaup og gefið í skyn að þar með stígi ESB fram á völlinn sem stórveldi (e. superpower).
Fyrirætlanir þessar þurfa að skoðast í raunhæfu ljósi: ESB hefur framið efnahagslegan sjálfsskaða síðustu ár, m.a. vegna "grænnar" þráhyggju, og fyrir vikið orðið háð öðrum ríkjum um orku. Evrópsk stjórnmál hafa litast af annarri og ekki síður skaðlegri þráhyggju, þ.e. woke-isma, sem hefur gert lagaumhverfið flóknara, íþyngt stjórnsýslu og ruglað dómaframkvæmd (því nú eiga sumir að vera jafnari en aðrir fyrir lögunum). Báðar þessar þráhyggjur hafa grafið undan iðnaðarframleiðslu í ESB með þeim afleiðingum að efnahagurinn hefur verið á stöðugri niðurleið. ESB framleiðir sjálft engin verðmæti, en hefur framkallað ofvöxt skrifstofuveldis um allt meginlandið sem leitt hefur til aukins skrifræðis og minni skilvirkni. Ofvöxtur í regluverki hefur leitt til minna gagnsæis og þar með dregið úr fyrirsjáanleika laga og réttaröryggi. Leynt og ljóst hefur ESB grafið undan fullveldi aðildarríkjanna og sýnt metnað til að verða sambandsríki að Bandarískri fyrirmynd. Stöðugur áróður í þessa veru hefur grafið undan þjóðarstolti og föðurlandsást. Því er óljóst hvar ESB ætlar að finna hermenn til að marsera með öll dýru vopnin þegar þau verða tilbúin, því vandfundinn er sá maður (utan mögulega Viðreisnar og Samfylkingar) sem elskar ESB svo mikið að hann vilji fórna lífi sínu fyrir stjörnufána þess.
En nútíminn er orðinn svo klikkaður að við virðumst þurfa að skilja "Orwellísku" til að átta okkur á málflutningi ráðamanna sem fullyrða að stríð sé friður og að hatur sé ást. Nú eiga allir að sameinast í hatri á forseta Bandaríkjanna sem framdi þann "glæp", fyrstur þjóðarleiðtoga frá því stríðið hófst, að kalla eftir friðarviðræðum og stríðslokum.
Frá upphafi stríðsins hafa hundruðir þúsunda verið drepnir og í því samhengi má alls ekki nefna að ESB hefur á sama tíma greitt Rússlandi meira en 170 milljarða Evra fyrir gas og olíu.
Frammi fyrir öllu þessu ráðlegg ég Íslendingum að slökkva á "fréttum" Rúv og annarra stöðva sem boða hatur í garð sumra en ekki annarra. Í þögninni getum við svo spurt okkur: "Hver er hinn raunverulegi óvinur?" Betur fer á því að hver og einn svari þeirri spurningu fyrir sig en láti ekki sérfræðinga ríkisstyrktra fjölmiðla stýra för.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)