9.3.2025 | 09:27
Höfum við ekkert lært?
Ríkissjóður Íslands er tómur þrátt fyrir stöðugt hækkandi skatta. Sjúklingar sofa á göngum Landspítalans, biðlistar lengjast stöðugt o.s.frv. en það skiptir engu máli því nú ætlar ríkisstjórnin að fjármagna stríðsrekstur úr tappalausum fjárhirslum sínum, þrátt fyrir að Íslendingar hafi engan her, jafnvel þótt Úkraína sé ekki í Nató og þrátt fyrir að Íslendingar hafi aldrei fengið að kjósa um hervæðingarfyrirætlun stjórnvalda.
Með aðstoð fjölmiðla hafa fyrri og núverandi ríkisstjórn Íslands náð að tromma upp áður óþekkta hernaðarhyggju meðal almennra borgara, því nú á að búa til "varnarbandalag Evrópu". Límið í samstöðunni er heift og drifkraftur aðgerða er hatur á sameiginlegum óvini. Umræðan og viðmótið sem hún birtir er farin að minna á landslagið eins og það var þegar stjórnvöld smöluðu ungum sem öldnum í "Dauðadalshöllina" til að þiggja "sprauturnar góðu" gegn "veirunni skæðu". Þá var hysterían slík að hver sem leyfði sér að efast eða hvetja fólk til að flýta sér hægt mátti sætta sig við að vera kallaður öfgamaður, álhattur, samsæringur, óvinur alþýðunnar o.s.frv.
Með sama hætti er hver sem nú leyfir sér að tala máli friðar eða segir að fulltrúar Íslands eigi að tala máli sátta en ekki stríðs, sá hinn sami má vænta þess að vera kallaður "kvislingur" eða eitthvað þaðan af verra.
Já, ráðamenn boða nú stríð í nafni friðar, rétt eins og ráðamenn hafa alltaf gert, m.a. í Jerúsalem árið 65 e.Kr. þegar leiðtogar Gyðinga vildu innleiða himnaríki á jörð með stríði gegn Rómverjum, en uppskáru helvíti. Staðan í Jerúsalem var þá sú að ríkið stóð á brauðfótum: Háir skattar voru borgurunum stöðugt þungbærari, embættismenn urðu stöðugt spilltari, atvinnuleysi hafði aukist. Upp spruttu menn sem heimtuðu gjald af almenningi til að tryggja öryggi þeirra. Pólitískur og samfélagslegur órói fór vaxandi. Selótar, sem voru pólitískir og trúarlegir ofstækismenn, hvöttu mjög til þess að Ísraelsmenn færu í (vonlaust) stríð við Rómverja. Hver sem ekki vildi fylgja stríðsæsingamönnum mátti vænta þess að vera beittur ofbeldi. Upphafið að endalokunum varð í hafnarborginni Sesaríu, þáverandi höfuðborg skattlandsins Júdeu, þegar skattlandsstjórinn Gessius Florus espaði almenning til uppþota í þeirri von að ólætin yrðu svo mikil að yfirmenn hans í Róm myndu ekki taka eftir fyrri misgjörðum Florusar í embætti. Fréttir af uppþotum í Sesaríu urðu neistinn sem kveikti í púðurtunnunni og Gyðingar hófu að ráðast á virki Rómverja, ræna þá og drepa. Jafnvel Samverjar, sem áttu litið sem ekkert sameiginlegt með Selótum, tóku þátt í ófriðnum. Viðbrögð Rómverska herveldisins urðu í stuttu máli þau að senda her til þessa svæðis í hinni fornu Palestínu til að stráfella Gyðinga. Frammi fyrir ógninni af rómverska hernum tvíefldust foríngjar Selóta, þótt þeir vissu að aðeins væri tímaspursmál hvenær héröð þeirra yrðu kramin undir hæl Rómverja. Til að efla samstöðu heimafólks létu þeir fangelsa og eignasvipta alla sem sýndu hernaðinum ekki stuðning. Þeir sem lýstu beinni andstöðu við hervæðinguna voru teknir af lífi. Þetta ástand stóð alllengi því árás Rómverjanna var lengi á leiðinni, en þegar hún loks kom þá stóð ekki steinn yfir steini. Endalokin urðu þau að m.a.s. musteri Gyðinga í Jerúsalem var jafnað við jörðu árið 70 e.Kr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)