16.4.2025 | 15:34
Leikhús fáránleikans. Hver vill búa þar?
Eftir allar predikanir siðapostula "vóksins", eftir öll óþægindin sem konur hérlendis hafa mátt þola í nafni pólitískrar rétthugsunar, þar sem körlum með varalit hefur leyfst að spranga um í kvennaklefum sundlauganna og fullyrða að svart sé hvítt, - og eftir allt tjónið á kvennaíþróttum um allan heim - þá hefur Hæstiréttur Bretlands í dag kveðið upp dóm sem er sigur fyrir heilbrigða skynsemi: - Trans-konur eru ekki líffræðilegar konur og eiga ekki að njóta lagalegra réttinda sem konur.
Frammi fyrir þessu er ástæða til að staldra við og íhuga hvernig íslenskt samfélag hefur - eins og það enska (og fleiri vestræn samfélög) - orðið lyginni að bráð og lagt til hliðar það sem við vitum sannast og réttast til samþykkja einhliða áróður stjórnvalda og byrja - með aðstoð fjölmiðla - að lifa í allsherjar blekkingu þar sem menn enda sem heilaþvegnir svefngenglar, sem spyrja engra spurninga, hafa engar efasemdir og treysta yfirvöldum í blindni. Í daglegu lífi birtast víða merki um slíkan andlegan og vitsmunalegan doða, andvaraleysi, sinnuleysi og hugleysi. Allt minnir þetta okkur á að engum er hollt að innbyrða of mikið af heilaþvotti úr stóru fjölmiðlunum og að hollara er að leita upplýsinga úr mörgum ólíkum áttum, hlusta á mismunandi sjónarmið og draga sínar eigin ályktanir.
Þótt þessi dómur frá Bretlandi veiti von um endurkomu heilbrigðrar skynsemi búum við enn í samfélagi þar sem lygin ferðast hraðar en sannleikurinn og þar sem stærstu fréttaveitur básúna örgustu vitleysu í stað þess að greina rétt frá staðreyndum. Til að bæta gráu ofan á svart er fólk, beint og óbeint, þvingað til að samþykkja slíkan öfugsnúning. Augljóst dæmi er þetta hér að framan, þ.e. að karlar geti skilgreint sig sem konur og að enginn megi draga þá skilgreiningu í efa.
Framangreind þróun er afsprengi "Woke" krabbameinsins sem hefur grafið um sig í þjóðarlíkamanum. En ekkert er nýtt undir sólinni og við höfum séð þetta allt áður, því "vókið" er ekkert annað en kommúnismi í nýjum búningi.
Vítin eru til að varast þau: Í Tékkóslóvakíu tóku kommarnir landið og menninguna yfir með lævísum undirróðri sem síaðist inn í daglegt líf í gegnum áróður og einmitt þannig var reynt að breyta siðferðilegum áttavita fólksins hægt og rólega. Vaclav Havel lýsti þessu skilmerkilega í ritgerð sinni "Vald hinna valdalausu", þ.e. hvernig fólk í hugleysi og meðvirkni víkur frá eigin sannfæringu og lokar á rödd samviskunnar með því að spila með valdhöfum - af því það er öruggara. Í þessu samhengi lýsir Havel m.a. kaupmanni sem stillir áróðursspjöldum yfirvalda út í glugga þótt kaupmaðurinn sé alls ekki sammála skilaboðunum. Í þessu birtist kjarni valdayfirtökunnar: Völdin eru tekin með síendurteknum ósannindum og þessi yfirtaka er knúin áfram af undirgefni almennings og óttastjórnun.
Kerfi eins og það sem hér er lýst byggist á því að einstaklingarnir taki þátt í að kúga sjálfa sig með því að lýsa opinberlega yfir að þau trúi á málstað sem þau þó vita sjálf að er ekki hægt að trúa: Trúi staðhæfingum sem allir vita að eru ósannar. Hér er lýst valdakerfi sem fælir menn frá því að sýna sjálfstæða hugsun, vinnur gegn einstaklingsfrelsi í nafni samfélagshagsmuna (e. greater good) og sendir þau skilaboð að sannleiksleit sé óæskileg, því réttara sé að treysta sérfræðingum stjórnvalda. Valdakerfið má svo treysta í sessi með því að breyta merkingu orða, banna jafnvel tiltekin orð og háttsemi.
Lýsing Havels á því miður vel við um vestræn samfélög nútímans, þ.m.t. hið íslenska, því hann sagði þetta ekki aðeins lýsa pólitískri yfirtöku, heldur væri þetta myndbirting siðferðilegs hruns, þar sem fólk afsalar sér sjálfsákvörðunarrétti sínum fyrir þau (tímabundnu) þægindi að geta falið sig í hjörðinni. Smám saman hættir fólk svo að trúa því að unnt sé að bæta ástandið því það fennir í sporin og sagan gleymist þar til að því kemur að menn muna ekki lengur eftir því hvað það var að lifa í frelsi. Þetta taldi Havel vera mestu hættuna.
Í stuttu máli: Okkur ber að nota innsæi okkar, skynsemi og sjálfstæða hugsun. Undirgefni við stjórnvöld er ekki æðsta dyggð hugsandi fólks. Þvert á móti er það skylda okkar að efast og bera fram spurningar. Innræting er ekki upplýsing - og ekki menntun. Vísindi byggjast á gagnrýninni hugsun en ekki kreddu og trúgirni. Munurinn á heilaþvotti og áróðri er að heilaþvottarstarfsemi birtir aldrei hina hliðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)