,,Styrkur trúarinnar er fólginn í veikleika hennar"

Í fallegri páskamessu í Akureyrarkirkju nú í morgun vitnaði séra Svavar Alfreð Jónsson til orða úr hugvekju eftir Ellert B. Schram, sem birtist árið 2006 og er hér endurbirt að hluta í tilefni páskahátíðarinnar: 

Lífshlaupið er enginn dans á rósum. Hörmungar, ógæfa, dauðsföll og mótlæti verða á vegi okkar flestra. Það eiga margir um sárt að binda. Með tímanum lærir maður að lifa með sorginni og sársaukinn verður öðruvísi eftir því sem frá líður. Þó er það svo að þau atlot sem best duga, þegar á reynir, eru bænirnar og blessun þeirra sem þjóna kirkju og köllun Guðs. Og þetta segi ég án þess að vilja vera væminn. Kirkjustarfið og boðskapur kristinnar trúar er athvarf hins sorgmædda, hins þjáða og hinnar eilífu vonar. Ekki í lausnum eða viðgerðum, ekki í drambi og dekri, heldur í auðmýktinni og umkomuleysinu frammi fyrir örlögunum.

Ég held nefnilega að styrkur trúarinnar sé fólginn í veikleika hennar. Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað gert en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu.

Það sem ég er að reyna að segja er einfaldlega það, að trúin snýst ekki eingöngu um Bíblíuskýringar eða heilaga ritningu, heldur boðar hún von, hún kennir okkur kristilegt hugarfar og hún felur í sér siðferðilegan styrk, til að standast ógæfu, illvirki og andspyrnu. Kristnin er með öðrum orðum sá rauði þráður, sem spunninn er í lífi okkar, kristinna manna, í siðferði, kærleika og samkennd. Hún gefur okkur von um bata, hún líknar brotinni sál, hún færir okkur trúna á hið góða. Að sjá til sólar. Að gefast ekki upp. Að trúa á hið óræða.

Við skiljum ekki hið vonda og andstyggilega af því að það er andstætt siðferði okkar. Við sjáum ljósið í góðri hegðan, góðum fyrirmyndum og birtunni sem stafar frá hinu ímyndaða himnaríki. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, sagði Jesú. Hvað á hann við? Jú, að með breytni okkar og framferði í lífinu sé vegurinn varðaður, frá vöggu til grafar, frá fæðingu til eilífðar. Þannig lifum við, þótt við deyjum. Ekki í holdi og blóði, en í andanum og sannleikanum.

Gleðilega páska.opin


Bloggfærslur 20. apríl 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband