28.4.2025 | 07:38
Hvað er hræðilegra en að hlaupa inn í brennandi hús?
Hafa má skilning á að Kristrún ætli ekki að beita hræðsluáróðri til að hrekja Íslendinga inn í ESB, enda blasir ekki við að gott sé að hlaupa um borð í sökkvandi skip.
Ríki Evrópu sem áður voru pólitísk stórveldi á hinu alþjóðlega sviði hafa stöðugt minni áhrif. Úkraínustríðið hefur undirstrikað það sem öllum mátti raunar vera áður ljóst, þ.e. að vegna þess hve veikburða herir Vestur-Evrópu eru í samanburði við her BNA, þá stendur NATO og fellur með hernaðarmætti Bandaríkjanna. Samt geltir ESB eins og tannlaus hundur, þar á meðal Macron, sem bandaríkjaforseti vísaði af fundi þeirra Zelenskys í Péturskirkjunni um helgina, eins og sjá má hér þótt MSM hafi klippt þetta til og reynt að setja í annað samhengi.
Flókið og ofvaxið regluverk hamlar atvinnurekstri innan ESB, m.a. vegna þess að smá og meðalstór fyrirtæki eiga erfiðara með að uppfylla sífellt fleiri skilyrði og kröfur. Afleiðingin birtist m.a. í því hvernig blómlegur iðnaður eins og þýsk bílaframleiðsla er á fallanda fæti. Þjóðir Evrópu eru að eldast mjög hratt, sbr. opinbera tölfræði um lækkandi fæðingartíðni. Afleiðingar þeirrar þróunar birtast m.a. í álagi á lífeyriskerfin, heilbrigðiskerfin og atvinnulífið. Velferðarkerfin sem margar aðildarþjóðir ESB hafa byggt upp á síðustu áratugum munu ekki standast þetta álag, því breytt aldurssamsetning þýðir einfaldlega að ekki verður nægjanlega margt ungt og vinnandi fólk til að greiða heilsugæslu og lífeyri hinna eldri. Ef svarið við þessu á enn að vera stórfelldur innflutningur fólks frá öðrum löndum, þá verða menn að átta sig á að sú leið framkallar margvíslegar aðrar áskoranir sem óljóst er hvort / hvernig unnt er að vinna farsællega úr. Svarið getur ekki verið í því fólgið að hrúga fólki inn án aðlögunar og neita að viðurkenna áskoranirnar eða forðast að takast á við vandamálin þegar þau birtast. Sökum opingáttarstefnu í innflytjandamálum er Evrópa ársins 2025 mjög breytt frá því sem hún var þegar EES samningurinn var gerður. Á meginlandi Evrópu er mikil samfélagsleg gerjun að eiga sér stað og þegar þetta er ritað láta bændur mjög að sér kveða með mótmælum yfir sífellt hærri álögum, stöðugt fleiri vottorðum og erfiðara rekstrarumhverfi, sem ógnar landbúnaði innan ESB.
Það eru þó ekki aðeins bændur sem finna fyrir stöðugt umfangsmeira regluverki og vaxandi eftirlitsbákni því vottorðin og stimplarnir sem hægja á öllu atvinnulífinu og þrengja að frelsi einstaklingsins. Regluverkið sem Danir og Bretar þurftu að innleiða við inngöngu í EBE/ESB árið 1973 nam 2.800 blaðsíðum, en 2020, árið sem Bretar gengu út úr sambandinu, var umfangið komið yfir 90.000 blaðsíður,[1] en talið er að um 2.500 blaðsíður bætist við árlega. Þessi pappírs-stormur gerir lögin óaðgengilegri og réttarstöðu manna óskýrari. Þetta vissi James Madison, fjórði forseti Bandaríkjanna, sem varaði við því að lögin yrðu gerð of flókin og ítarleg, því ógagnsætt regluverk skerðir yfirsýn hins almenna manns og veikir réttarvitund manna.
Ofan á allt þetta hefur ESB legið undir stöðugri og réttmætri gagnrýni fyrir skort á lýðræðislegum stjórnarháttum. Í stað valddreifingar hafa stjórnarskrifstofur ESB verið gerðar miðlægar. Innan ESB má sjá merki um það að ákvörðunarvald um stefnumörkun sé lagt í hendur embættismanna, en stjórnmálamenn látnir um framkvæmdina / innleiðinguna og hinir síðarnefndu þannig í reynd gerðir að embættismönnum skrifstofuveldisins. Með hverju árinu sem líður verður almenningur ósáttari við áhrifaleysi sitt. Úrsögn Breta úr ESB 2020, kosningasigur bændaflokksins í Hollandi 2023, fjöldamótmæli bænda í Þýskalandi, Frakklandi og víðar árið 2024, eru til marks um það að almenningur sé búinn að fá nóg af valdboðsstjórn og kalli nú eftir því að stjórnmálamenn hlusti á vilja fólksins og svari til ábyrgðar. Öfugt við yfirstéttina virðist almenningur ekki sannfærður um að lausnin við öllum heimsins vanda sé að hækka skatta, þenja út skrifræðisbáknið og veikja undirstöðuatvinnugreinar. Meðan stjórnmálamenn gefa í skyn að þau vantreysti kjósendum til að eiga síðasta orðið í stærstu málum[2] - og meðan pólitísk ákvarðanataka verður sífellt fjarlægari kjósendum - er ekki við öðru að búast en að spenna haldi áfram að hlaðast upp milli þeirra sem setja reglurnar og þeirra sem búa við reglurnar.
[1] Árið 2025 er fjöldinn kominn vel yfir 100.000 bls., sjá http://en.euabc.com/word/12#:~:text=The%20complete%20body%20of%20the,of%20information%20from%20different%20sources, skoðað 21.2.2024.
[2] Sjá https://www.dv.is/eyjan/2023/12/23/thordis-kolbrun-set-fyrirvara-vid-ad-thjodin-segi-hug-sinn-til-adildar-ad-esb-thjodaratkvaedagreidslu-thad-er-hlutverk-stjornmalamanna/
![]() |
Vill ekki hræða landsmenn til að ganga í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)