"Allir vegir liggja til Rómar" (og nú til Brussel)

Árið 2023 kom upp "trend" á TikTok sem benti til að karlmenn hugsuðu furðulega oft til hins forna Rómaveldis. Sjálfur hef ég síðustu vikur hugsað mun oftar til Sovétríkjanna en til Rómar. Frammi fyrir því hvernig evrópsk stjórnvöld þrengja smám saman að frjálsri hugsun, hefta málfrelsið og sýna viðleitni til að drottna yfir allri pólitískri umræðu (jafnvel með því að banna stjórnmálaflokka) hef ég leitað samsvörunar í því hvernig Bolsévikkar (eftir byltinguna) og stjórnvöld í Sovét komu stífri harðstjórn á fót sem afnam einstaklingsfrelsi, vitsmunalega fjölbreytni og sjálfsákvörðunarrétt. 

Alexander Solzhenitsyn lýsti því í ritum sínum hvernig Marxisminn var gerður að æðstu kreddu, sem ekki mátti efast um og alls ekki andmæla. Svo langt gekk þetta að kreddan var klædd í gervi siðfræðikenningar sem réttlætti misbeitingu valds í nafni "framfara" og "þróunar". Hann lýsti því einnig hvernig sovéskt ríkisvald skóp andrúmsloft ótta, eftirlits og úthrópunar, þar sem málfrelsi var barið niður og sjálfstætt hugsandi menn voru þvingaðir til að fylgja hinni opinberu línu (en hljóta ella refsingu). Þetta var gert með áróðri, ritskoðun og óttastjórnun. Hann taldi að þessi aðför að frjálsri hugsun væri í grunninn ekki pólitísk heldur risti mun dýpra og færi alveg niður í kjarna mannssálarinnar, því kerfið þvingaði fólk til að lifa í blekkingu með því að berja allt hugrekki úr fólki og eyðileggja að lokum virðingu fólks fyrir sjálfu sér. 

Annað sem telja má áhugavert í nútímasamhengi var hvernig fjölmiðlar voru notaðir til að berja niður gagnrýni á leiðtoga ríkisins og til að tryggja fylgispekt almennings við hugmyndafræðina. Fjölmiðlar voru ekki óháðir ríkinu heldur líkti hann þeim við handlegg sem stýrt var af höfðinu (flokknum). Flokkurinn hafði það meginhlutverk að breiða út boðskapinn, endurskrifa söguna og koma í veg fyrir að andófsraddir næðu til almennings.

Sjálfur hef ég sagt að stjórnmálaflokkar á Íslandi séu í raun einn flokkur, eitt og sama fyrirbærið með marga hausa. Leið þeirra allra liggur til Brussel, því allir hafa í verki samþykkt þá afskræmingu stjórnarfarsins sem Íslendingar hafa búið við síðustu ár, þar sem erlent skrifstofuvald setur okkur lög sem ekki er unnt að breyta nema í eina átt, þ.e. með blýhúðun. Íslendingar sjá óveðurský framangreindrar þróunar hrannast upp daglega, nú síðast þegar góður og gegn embættismaður, var látinn taka pokann sinn fyrir að skilja ekki að kreddan á að ráða för og en ekki texti laganna. Framtíð ESB byggist á því að þjóðvitund aðildarríkja (þ.m.t. EES) veikist og ein leiðin til að veikja þessa vitund með skjótvirkum hætti er að stuðla að hröðum breytingum á íbúasamsetningu.


mbl.is Var boðið embætti lögreglustjórans á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband