Þjóð sem gleymir sögu sinni er dæmd til að endurtaka mistök fortíðar

Í bók Ásgeirs Jónssonar um Jón Arason (útg. 2020) er m.a. sagt frá þeim miklu breytingum sem urðu á íslandi eftir fall Jóns Arasonar og siðaskiptin 1550. Danakonungur sölsaði undir sig auðlindir Íslands, jarðeignir klaustranna og útvegsjarðir kirkjunnar. Samhliða var erlendum þjóðum ýtt út úr verslun og með verslunareinokuninni 1602 var lokað fyrir samskipti við aðrar þjóðir en Dani. Fram að því höfðu Íslendingar farið til náms víða um heim, en eftir þetta kom í raun aðeins Kaupmannahöfn til greina. Fram að þessu höfðu Íslendingar hagnast vel á frjálsum utanríkisviðskiptum, en þegar þeir voru neyddir til að selja vörur til Danmerkur langt undir heimsmarkaðsverði breyttist það til hins verra. Í kjölfar siðaskiptanna fór fram gífurleg eignaupptaka og frelsissvipting sem gerði Ísland að einni fátækustu þjóð í Evrópu.  Jón Sigurðsson Hrafnseyri

Rikisstjórn Íslands stefnir nú að því að koma Íslendingum aftur undir erlent vald (ESB) sem vill stýra verðlagningu (með niðurgreiðslum og kvótum), hefta samkeppni (með verndartollum) og stýra framleiðslu (með íþyngjandi regluverki). 167 ríki standa utan ESB og telja hag sínum betur borgið með því að eiga frjáls og óheft viðskipti við allan heiminn en að loka sig inni á hnignandi efnahagssvæði. Í sjálfstæðisbaráttunni lagði Jón Sigurðsson (1811-1879) ofuráherslu á sögulegt mikilvægi þess að Íslendingar ættu frjáls alþjóðleg viðskipti. Hann myndi snúa sér við í gröfinni ef hann heyrði hvernig talsmenn ESB aðildar Íslands reyna að nota ESB aðild sem samheiti yfir "alþjóðlegt verslunarfrelsi", því þvert á móti heftir ESB slíkt frelsi aðildarþjóða. Ef umræða um ESB aðild Íslands á að ná einhverju vitrænu flugi þá verða menn að svara því hvers vegna Íslendingar ættu að loka sig inni í þröngu kerfi tollamúra og regluverks, sem þjónar betur hagsmunum stórfyrirtækja en lítilla fyrirtækja (sem íslensk fyrirtæki eru langflest). Vonandi hafa ESB sinnar betri svör en þau að ESB aðild þjóni best hagsmunum atvinnustjórnmálamanna og innlendra sérfræðinga sem vilja vera á fóðrum í Brussel.   

 


Bloggfærslur 22. maí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband