27.5.2025 | 08:53
Ó Liverpool
Fólk trúir þessu ekki, en Seneca (4 fKR-65 eKR) bjó fyrir ofan baðhús og líkamsræktarstöð í Róm og í einu af bréfum sínum kvartar hann yfir skarkala frá mönnum sem eru þar að lyfta lóðum. Bók hans "Um lífsins stuttu stund" (e. On the Shortness of Life) er gagnrýni á það hve illa menn fara með tíma sinn. "Lífið er nógu langt, en mennirnir sóa því í hégóma, persónulegan metnað, auðsöfnun og hvers kyns fánýti". Þeir einu sem lifa skynsamlega eru þeir sem nýta tímann vel, kunna að gera greinarmun á eigin vilja og annarra, og geta einblínt á það sem skiptir máli.
Ekkert hefur breyst. Við förum ekki betur með tímann nú en fyrir 2000 árum. Einn versti tímaþjófurinn eru daglegar fréttir. Tíminn sem fer í þær er óréttlætanlegur þegar haft er í huga að eftir árið situr ekki annað eftir en 3-4 stórviðburðir. Harmleikurinn í Liverpool verður væntanlega einn þessara atburða, þar sem 50 manns slösuðust og þar af 4 lífshættulega. En þegar ég sá að lögreglan rannsakar þetta "ekki sem hryðjuverk" heldur sem árekstur í umferð (e. road traffic collision), gat ég ekki varist þeirri hugsun að fréttirnar séu raunverulega forheimskandi. Hvað er það annað en hryðjuverk að aka bíl í gegnum mannþröng (án tillits til uppruna / útlits ökumannsins)? Í þessu - og því hvernig flest önnur stórmál eru leyst upp í frumeindir þar til þau hverfa - birtist stef sem m.a. kristallast í Njálu: Útúrsnúningar eru notaðir til að þurfa ekki að taka á stærstu vandamálum samtímans, því slíkt uppgjör hentar hvorki valdamönnum, né almenningi, því ef við ættum að ræða þau þyrftum við að horfast í augu við eigin heimsku, fordóma, græðgi, hégóma og forgengileika.
Ég ætla að fara í fréttabindindi - og er sannfærður um að það mun auka lífshamingju mína. Ef einhver vill tala við mig þá verð ég á Óðinsgötu 4, í skarkala "heimsborgarinnar", að kortleggja skynsamlegustu leiðina að réttu marki - í anda Seneca.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)