Íslendingar eru að vakna

Í grófum dráttum mætti segja að pólitísk umræða milli hægri og vinstri snúist um það hvort setja beri skorður á valdbeitingu ríkisins (því reynslan sýni að fæstir kunna að fara með vald) eða hvort sleppa beri valdinu lausu (því valdbeiting ríkisins stuðli að öryggi / framförum / betri lífsgæðum). Íslendingar hafa gleymt (eða ekki meðtekið) að allar hörmungar 20. aldar voru afleiðingar ofurtrúar á mátt ríkisvalds til að endurskapa samfélög frá grunni. 

Hér þarf ekki að fara út í neinar sögulegar eða heimspekilegar pælingar: Mörkin milli hægri og vinstri snúast í raun um það hvort lögin eigi að vernda almenning gagnvart ríkisvaldinu eða hvort þau eigi að auðvelda ríkinu að ráðskast með fólk. 

Lýðræðinu er ætlað að vera trygging almennings, þannig að við getum verið örugg um það að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð. Stjórnarskráin á að verja frelsi hvers einasta borgara, þ.m.t. málfrelsi, fundafrelsi, friðhelgi heimilis o.s.frv. 

Átakalínurnar hafa orðið skýrari á síðustu misserum. Í "kófinu" afhjúpuðu nánast allir stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar sig sem talsmenn þess að ríkisvaldinu yrði leyft að skerða frelsi einstaklinga í þágu "öryggis". Nú vill þetta sama fólk efla "öryggi" Íslendinga með því að ofurselja okkur risavöxnu ríkisbákni í Brussel.     

Verður lýðræðið okkur til bjargar? Er von til þess að við munum geta átt hér þróttmikla umræðu um alla þætti þeirra álitaefna sem hér koma til skoðunar? Það tókst ekki í "kófinu" og meðan fjölmiðlaumhverfi á Íslandi er háð ríkisvaldinu um framfærslu munum við áfram sjá þrengt að pólitískri umræðu, því ef líkja má pólitík við ás frá 1 til 10, þá má hún í reynd aðeins eiga sér stað milli ca. 3,5 og 5,5. Þeir sem vilja vera málsvarar einstaklingfrelsisins, takmarkaðs ríkisvalds, sjálfsákvörðunarréttar, málfrelsis, fullveldis o.s.frv. mega vænta þess að vera sakaðir um "öfgar", þótt málflutningur þeirra sé algjörlega klassískur, öfgalaus og sé í raun nauðsynlegt mótvægi við þá ríkisvæddu, kreddubundnu hugmyndafræði sem sýkt hefur alla þingflokka á Alþingi (þar sem allir eru mið- eða vinstri flokkar), alla (ríkisstyrkta) fjölmiðla, allar ríkisstofnanir o.s.frv.   

Frammi fyrir þessu er bara eitt til ráða: Við þurfum að pólitíska vakningu. Sú vakning er reyndar þegar hafin - og hún verður ekki stöðvuð, því þegar menn eru einu sinni vaknaðir til þessarar nýju vitundar er ekki hægt að svæfa þá aftur. Sá sem þetta ritar er lifandi sönnun þess.


Bloggfærslur 10. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband