2.7.2025 | 08:57
Veitum strandveiðisjómönnum það frelsi sem þeir þurfa
Í mínum huga og margra annarra er strandveiðisjómaðurinn táknmynd hins frjálsa manns. Það er draumi líkast að sigla sínum eigin báti út á miðin og sameina í eitt tvær af innstu tilhneigingum sérhvers karlmanns, þ.e. veiðiþrána og veðmálabakteríuna, því val á veiðistað er ávallt nokkurs konar veðmál. Því miður hafa yfirvöld á Íslandi gengið of langt í frelsisskerðingunni á þessu sviði eins og öllum öðrum. Strandveiðisjómenn mega aðeins veiða 12 daga í mánuði, þá fjóra sumarmánuði sem í boði eru, en auk þess er bannað að róa föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Þessu til viðbótar eru strandveiðar bannaðar á "rauðum dögum", þ.e. 1. maí, uppstigningardag, annan í hvítasunnu, 17. júní og á frídegi verslunarmanna. Afleiðingin af þessari forsjárhyggju stjórnvalda er sú að sjómennirnir okkar þurfa stundum að taka óhæfilega áhættu með því að róa á dögum þar sem aðstæður eru mjög krefjandi og hættulegar. Fengju strandveiðisjómenn fullt frelsi um val á þeim dögum sem þeir nota til að sækja sinn afla á miðin, þá yrði um leið dregið stórlega úr líkum á hörmulegum sjóslysum eins og því sem varð í Patreksfirði í fyrradag. Magnús Þór Hafsteinsson sem lést slysinu var mætur maður. Aðstandendum hans er vottuð samúð. Vonandi verður ótímabært andlát hans til þess að gerðar verða löngu tímabærar breytingar á regluverki um strandveiðar og frelsið til þeirra aukið, í anda Magnúsar og allra annarra sem bera frelsisþrána í brjósti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)