Lífið krefur okkur um meira en að við séum "næs" "djókarar"

Besti kostur Íslendinga er líka þeirra helsti veikleiki: Flestir Íslendingar eru mjög "næs" (viðfelldnir) og hafa einlægan vilja til þess að vera næs. Þetta birtist m.a. í því að vera sammála síðasta ræðumanni, sammála meirihlutanum, sammála þeim sem fara með valdið á hverjum tíma. Þessi tilhneiging stafar líka af því að fólk vill "hafa það næs". Yfir hásumarið vilja Íslendingar liggja saman (tattóveraðir) í grasinu og "djóka" saman. Íslendingar eru "næs" "djókarar" sem hafa ekki áhuga á að leiða hugann að óþægilegum atburðum, óþægilegri þróun, blikkandi viðvörunarljósum o.s.frv., sérstaklega ekki um hásumarið ... og heldur ekki þegar skólarnir eru að byrja ... og ekki í aðdraganda jólanna ... og heldur ekki á vorin þegar sólin er farin að láta sjá sig aftur. 

"Viðfelldnislegt áhugaleysi á þjóðmálum". Hvaðan má kannast við þessa manngerð? Jú, þetta var skilgreining forn-Grikkja á flónum (g. idiotes). 

En jafnvel flón munu að lokum sjá hvernig púslin raðast upp í eina heildarmynd, þar sem stjórnvöld vilja búa sér til tækifæri til að lýsa yfir "neyðarástandi" án nánari skilgreininga, þar sem stjórnarskrárvarin réttindi flónanna eru tekin úr sambandi án tímatakmarkana; þar sem stjórnvöld undirbúa að geta skikkað flónin í nauðungarvinnu [herskyldu?] erlendis í samræmi við ótilgreindar "alþjóðlegar skuldbindingar"; þar sem stjórnvöld vilja afhenda ESB löggjafarvald hérlendis með vísan til skuldbindinga sem Alþingi hefur undirgengist í þúsundavís samkvæmt EES rétti (sjá meðfylgjandi grein sem birtist í Mogganum nú um þessa helgi); þar sem stjórnvöld vilja afhenda WHO yfirstjórn heilbrigðismála með því að undirgangast uppfært regluverk á því sviði.

Það er ekkert að því að vera tattúveraður í sólbaði, en einmitt þar getur gefist dýrmætt tækifæri til að tala saman um hvernig okkur líður og hvað við höfum lært og hvað við getum gert og hvernig við getum unnið saman og stutt hvert annað og beðið um leiðbeiningu / ráðgjöf og fengið innblástur / uppljómun og rætt um það sem gefur lífi okkar tilgang og starfi okkar gildi og hverjar eru vonir okkar fyrir börnin okkar og um það hvernig við getum blómstrað sem heilir og sannir einstaklingar og hvernig við getum verið ærlegar manneskjur og leitað sannleikans óttalaust. Það er gaman að djóka og það er gott að vera "næs" en lífið krefur okkur um meira en það. mbl190725

 


Bloggfærslur 20. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband